Þjálfarinn áfram haltur, Biggi meiddur, kvennadeild berst liðsauki

Sjaldan hafa Hlaupasamtök Lýðveldisins verið jafnöflug og þessi missirin, geta státað af bæði öflugum hlaupurum og gáfuðum. Það er nánast sama hvenær hlaupið er, alltaf er Brottfararsalur uppfullur af hlaupurum sem ráða sér ekki fyrir eftirvæntingu og gleðin skín af hverju andliti af ánægju yfir endurfundunum og yfirvofandi samveru. Sérstök ástæða er til að geta Ólafar sem mætt var að lokinni langri fjarveru. Aðrir voru þekktar stærðir. Helmut þó fjarverandi í Bratislövu á þingi um upplýsingatækni fyrir BDSM-fólk eða eitthvað í þá veru, ég er ekki alveg með vinkilinn á hreinu, en tel líklegt að Helmut hafi verið sendur þangað fyrir einhvern misskilning.

Rúnar sagður haltur og mætti ekki, Margrét ein um að reyna að hafa stjórn á mannskapnum. Upplýst að Þingstaðahlaup verður þreytt n.k. laugardag. Rótgróin hefð er um Þingstaðahlaup, sem fer þannig fram að lagt er upp frá Lögbergi á Þingvöllum og hlaupið sem leið liggur alla leið til Höfuðborgarinnar um Mosfellsheiði og ekki numið staðar fyrr en við dyr Alþingis og tekið í dyrnar (ekki ósvipað því þegar próf. Fróði snertir snerilinn á Goldfinger á miðvikudögum). Þeir sem standa fyrir hlaupinu eru téður próf. Fróði, Sigurður Gunnsteinsson og einhverjir fleiri. Hlaupurum er frjálst að koma inn í hlaupið einhvers staðar á leiðinni, t.d. í Mosfellssveitinni, og ljúka því með prófessornum. Allt er þetta liður í undirbúningnum fyrir Sahara.

Dagsskipunin var rólega út að Skítastöð, svo þéttingar út á Nes, 1 mín. þétt, 1 mín. hvíld, 2 mín. þétt, 2 mín. hvíld o.s.frv. upp að 5 mín. og svo að trappa niður. Gerðum þetta prógramm víst í síðustu viku líka. Ritari getur viðurkennt að hann var illa upplagður í hlaupi kvöldsins - vansvefta vegna skemmtanahalds í götunni þegar tilkynningar um fjöldauppsagnir renna í þúsundatali inn til Vinnumálastofnunar. Ef það er ekki tíminn til þess að sletta rækilega úr klaufunum - hvenær kemur hann þá?

Það var farið um Víðimel og þá leið út á Suðurgötu og svo í áttina að Skítastöð. Ritari var sumsé þungur, þreyttur og ómótíveraður til hlaupa. Ætlaði sannarlega ekki að fara að taka þátt í einhverjum sprettum. Myndi líklega láta nægja að fara út að Hofsvallagötu. Er komið var út í Skerjafjörð var ég lentur með öftustu hlaupurum. Þetta var dapurlegt. Eg var lentur með Kalla og stúlku sem ég hef ekki nafnið á, svo kom Bjarni og fór fram úr okkur og skildi okkur eftir. Ég náði að hanga í Kalla og það var farið í Skjólin, of stutt að fara bara á Hofsvallagötu. Þegar þangað kom var ákveðið að lengja út að Vegamótum, og þegar við komum þangað ákvað ég að fara alla vega út að Eiðistorgi, en félagsskapur minn snöri til Laugar. Á þessum kafla var ég allur að koma til svo það var ekki hægt að fara styttra en á Lindarbrautina.

Ég var einn og yfirgefinn eins og venjulega, algerlega vinalaus, klukkulaus, og því ómögulegt að vita hvenær ég væri búinn með 1 mín., 2 mín., að maður tali ekki um 5 mín. Af þeirri ástæðu lét ég eiga sig að vera að rembast við einhverja þéttinga. Tók þetta bara með skynseminni og var ánægður með mína 12 km.

Í potti var aðeins valmenni. Þar var helzta umræðuefnið hvers vegna bankarnir sæktust frekar eftir verkfræðingum en viðskiptafræðingum til starfa. Staðreynd er (að sögn viðstaddra) að auðveldara er að kenna verkfræðingum viðskipti en kenna viðskiptafræðingum að reikna. Viðskiptafræðingar kunna (að sögn viðstaddra) að leggja saman, draga frá, margfalda og deila -- þetta sem allir kunna úr barnaskóla, en ekki meira. Ónefndur aðili í potti rifjaði upp að viðskiptafræðideildin í ónefndum ríkisháskóla hefði gjarnan verið kölluð "Ruslakistan" hér á árum áður, einhverra hluta vegna. Ekki er þetta sagt hér til ófrægingar heilli stétt manna, heldur til þess að endurspegla umræðuna eins og hún er hverju sinni í hópi málsmetandi einstaklinga. En eins og menn vita er samvizkusamlega greint frá helztu staðreyndum um hlaup og það sem fer manna á milli og ekkert dregið undan.

Á miðvikudag er langt hlaup. Í gvuðs friði. Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband