Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Heill þér, Haukur!

Í fyrsta sinn í samanlagðri sögu Hlaupasamtaka Lýðveldisins hefur það gerzt að félagi í hópnum hefur látið svo lítið að geta félaga sinna í fjölmiðli. Það gerðist í þættinum "Í vikulokin" sem er milli 11 og 12 á laugardagsmorgnum í Ríkisgufunni. Í þættinum í morgun hafði Haukur félagi vor Arnþórsson orð á því að hann væri meðlimur í Samtökunum, Reykjavíkurmaraþon væri framundan og liður í undirbúningi þess væru vandlega undirbúin hlaup þessar vikurnar. Þetta var mjög óeigingjarnt framtak af hans hálfu og til mikillar fyrirmyndar í alla staði. Að sama skapi hefðí það ekki átt að koma neinum á óvart að ónefndur álitsgjafi og skoðanahafi - einnig félagi í fyrrgreindum Samtökum - kom fram í útvarpsfréttum skömmu síðar og nefndi þau ekki á nafn! Svona eru nú mennirnir ólíkir! Ritari.

Hreinar sálir fara um Flanir

Hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins elska hreinlæti - þeir mæta með hreinan fatnað til hlaupa, eru þrifalegir sjálfir til líkams og sálar, og þrífa sig svo vel að hlaupi loknu. Af þeim sökum gýs upp mikill hreinlætisilmur þegar hlauparar mæta til brottfarar í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar, "kirkjan ilmar öll" dettur manni í hug, þar hnusar hver af öðrum, "umm, en gott!, hvaða þvottaefni notar þú?" eða "hvaða Kölnarvatn ertu með í dag?" og þannig fram eftir götunum. Þannig var og dæmið í dag, almennt hreinlæti í heiðri haft og ilman með bezta móti. Mætt til hlaupa þessi: Magnús, Gísli, Ágúst, Haukur, Ólafur ritari, Einar blómasali, Andreas hinn danski, Þorvaldur, og Rúna, sem náði okkur á Ægisíðunni.

Þær viðbótarupplýsingar bárust um væntanlega kvenlega viðbót við hlaupaskarann að hún hefði gefið upp á bátinn fyrirætlanir um hlaup með Hlaupasamtökunum fyrir um 10 árum síðan að þar tíðkaði ónefndur hrekkjusvínafræðingur komur sínar og sér hefði ekki litizt á að vera í svo vafasömum félagsskap. Hún var fullvissuð um að sá aðili hlypi að jafnaði ekki með samtökunum lengur og henni væri algjörlega óhætt.

Það var, satt bezt að segja, fremur dapurlegt ástand á fólki. Blómasalinn með kvef, Gísli og Magnús óhlaupnir eftir Noregsdvöl, Ágúst óhlaupinn eftir mjög dularfulla slæmsku sem byrjaði í vinstra kálfi en hljóp svo í hægra læri (óhlaupinn, ef frá er talinn 34 km hringur sem hann fór í Heiðmörkina í gær), ritari með líffærin öll í e-m frígír og verkfalli, annað eftir því. Eitthvað er farið að fækka í hópi þeirra sem munu þreyta Reykjavíkurmaraþon af hálfu Hlaupasamtakanna og er nú einna helzt að binda vonir við Sjúl og BigJoke. En við lögðum í hann engu að síður.

Menn voru almennt hægir á sér framan af, ekki að undra þegar tillit er tekið til heilsu mann, einna helzt að Ágúst og Andreas væru eitthvað að sperra sig. Við Magnús og Þorvaldur héldum þó í við þá allt þar til er komið var á Klambratún, þá hurfu þeir. Áður en þangað var komið lýsti þó Ágúst yfir því að hann hygðist stofna Malbikshatarasamtök Íslands, líkt og Jörundur hefur stofnað Lúpínuhatarasamtök Lýðveldisins. Tilefnið er það að búið er að eyðileggja fullkomlega frambærilegan hlaupastíg í Árbænum, norðan við vatnið, með malbiksklæðningu. Hafin er sama eyðilegging í Öskjuhlíðinni, trúlega verður búið að eyðileggja alla skógarstíga með malbiki innan fárra ára, og eftir það verður tekið til við Heiðmörkina. "Nei! Gegn þessu verður að berjast," sagði prófessorinn, og var í uppnámi. Honum til upprifjunar má bara benda á að "Græna Byltingin" Birgis Ísleifs gekk út á að malbika öll grænu svæðin í Reykjavík sem menn höfðu af veikum mætti reynt að byggja upp á sjöunda og áttunda áratug seinustu aldar - er við öðru að búast þegar íhaldið er tekið við Borginni af Nýju?

Fórum um Flanir, þar sér afraksturs hlaupa félaga Jörundar allt sumarið, breiðir flekkir af lúpínu hafa verið rifnir upp eins og eftir sláttuvél - hvílík afköst! Allnokkur hraði, Ágúst og Andreas þó enn fremstir, við Magnús og Þorvaldur hægari en þó á hröðu tempói. Rúna, Gísli, Haukur og Einar einhvers staðar langt á eftir. Það voru engir þéttingar, enda Ágúst nýkominn úr löngu hlaupi, og ekki heldur staldrað við - bara haldið áfram, upp Hi-Lux og áfram hefðbundið framhjá kirkjugarðinum, Veðurstofuhálendið, austan við MH, Hlíðar og Klambratún. Nema hvað, þar sem við félagar skeiðum um Hamrahlíðina, hver koma þá ekki niður vestan við MH nema fyrrnefnd Rúna, Haukur og Einar blómasali, sek um styttingu af verstu sort, en sem betur fer lentu þau á eftir okkur og varð styttingin ekki til þess að setja þau fram fyrir okkur félagana.

Það var skeiðað áfram og bara gefið í ef eitthvað var. Ég var stoltur af okkur félögunum, við sýndum karaktér, einurð og styrk á hlaupinu, enginn aumingjaskapur. Það var keyrt á fullu út Sæbrautina, framhjá grunni tónlistarhússins og Hótel Arnarhóli, sem byggt er með svikum verktaka við erlenda starfsmenn og er til háborinnar skammar fyrir siðmenntað samfélag á Íslandi, þannig áfram hefðbundið og ekki slegið af.

Við komum nokkuð jafnsnemma til Laugar þeim Ágústi og Andreasi, töluvert síðar komu aðrir hlauparar. Það var setið í potti og rætt um mikilsverð málefni - þegar blómasalinn nefndi að það vantaði bara mojito - risu allir á fætur og sögðu: "Mimminn - Fyrsti Föstudagur". Á Mimmanum kom fram síðbúin staðfesting frá frú Ólöfu um að blómasalinn hefði fullkomnað sjósund s.l. miðvikudag - vér vitum eigi hvers vegna þessi tími þurfti að líða til þess að fá staðfestingu þess.

PS - er ritari sat að kvöldverði með fjölskyldu sinni sagði dóttir hans upp úr eins manns hljóði: "Ég sá blómasalann og Rúnu - á LAUGAVEGINUM" - hún hafði sumsé verið á rúntinum og séð téða hlaupara stytta sér leið niður Laugaveginn! Hlaupurum er hollt að vita að með þeim er fylgst og allar styttingar skráðar.

Nú er óljós áætlun framundan - það þarf að huga vel að undirbúningi fyrir maraþon. Hlutaðeigandi munu fá allar upplýsingar um þau hlaup sem vænta má að farin verði. Í gvuðs gleði, ritari.


Trappað niður fyrir maraþon...

Þessa dagana eru hlauparar að tínast til byggða úr sumarleyfum og fer hópurinn æ meira að taka á sig mynd. Kunnugleg andlit birtust í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar upp úr kl. 17 í dag. Mátti þar bera kennsl á Magnús, dr. Friðrik, Ólöfu, Hauk, Eirík, Sigurð Júl., Guðmund, Einar blómasala, Jörund og ritara. Það kom á óvart að kunnir hlauparar, sem vitað var að væru innan Borgarlandsins og við þokkalega heilsu (nefni engin nöfn), skyldu ekki sjá sóma sinn og mæta, einkum þegar Reykjavíkurmaraþon færist óðum nær. Ekki laust við að þessari spurningu lysti niður í hug manns: "hvað eru þeir  eiginlega að hugsa?" Í Brottfararsal var rætt um Hinsegin daga sem framundan eru og með hvaða hætti Hlaupasamtökin ættu eða gætu tekið þátt þar. Upplýst að þeim yrði falið það ábyrgðarfulla starf að selja sleikibrjóstsykra. Enn er óljóst hver einkennisbúningur þeirra verður. Óþekkt kona kom að máli við okkur og spurðist fyrir um hlaupahópinn - voru henni veitt greið svör og jafnframt boðið að taka þátt. Hvað um það, Garmin-tæki voru löngu stillt þegar við töltum af stað í góðviðri, sólskini, þokkalegum hita og andvara.

Enn þykir ástæða til þess að brýna fyrir hlaupurum að tæma hlaupatöskur sínar að hlaupi loknu og setja í þvottavél - svo ágengur fnykur sótti að nefjum sómakærra hlaupara að menn fengu ekki orða bundist. Ónefndur blómasali gekkst við óþefnum, en bar við þeirri ástæðu að þvottavélin hans væri biluð. Óskað var eftir að ritari brýndi fyrir hlaupurum að gæta hreinlætis og þvo ávallt vel allan hlaupafatnað eftir hlaup, en geyma hann ekki í hlaupatöskunni til næsta hlaups. Einnig bent á að flestir eiga fleiri en eina treyju til þess að hlaupa í...

Skeiðað eftir Ægisíðu - einhverra hluta vegna virtust Haukur og Friðrik alsælir með að hlaupa í vímunni af treyju blómasalans - köllsuðu jafnvel um málið við ritara - Einar tók á rás og vildi leyfa ritara að njóta ilmsins, en sjaldan hefur ritari verið jafn viðbragðsfljótur eða fótfrár og þá, tætti í burtu á firnahraða og kom ekki í nálægð við skyrtuna fyrr en í Nauthólsvík. Fremstir fóru Sjúl, Eiríkur, Guðmundur og Magnús, aðrir á eftir.

Í Nauthólsvík var farið niður á rampinn, enda fyrsti dagur ágústmánaðar og komið að sjóbaði. Þessir fóru í sjóinn: ritari, dr. Friðrik, Einar blómasali (að 3/4) og Ólöf (að 1/4). Blómasalinn kvaðst vera lasinn, með þungan verk fyrir brjósti, en þó ekki hita. Þrátt fyrir að dr. Friðrik sé almennt þeirrar skoðunar að sjóböð séu af hinu góða fyrir veika menn, féllst hann á að leyfa blómasalanum að snúa við og ljúka stuttu hlaupi. Aðrir héldu áfram, Sjúl og Eiríkur fóru 26 km (Goldfinger með slaufum), Jörundur og Ólafur fóru 69 með lengingu niður á Sæbraut (18 km), aðrir eitthvað styttra.

Ástand var gott eftir hlaup, þrátt fyrir að við Jörundur hefðum haldið stíft tempó. Þeir Sjúl og Eiríkur voru ekki alveg jafnsprækir, en þurfa núna að fara að trappa alvarlega niður fyrir maraþon. Taka bara stutt hlaup eða meðallöng hlaup. Á föstudag verður farið hefðbundið, rúmir 10 km, en á laugardag er stefnt að 27 km - ef veður leyfir. Áhugasamir verði í sambandi við ritara. Á föstudag er jafnframt Fyrsti Föstudagur - en nokkuð er um liðið síðan sú hátíð hefur verið haldin heilög.

Í gvuðs gleði. Ritari.



 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband