Trappað niður fyrir maraþon...

Þessa dagana eru hlauparar að tínast til byggða úr sumarleyfum og fer hópurinn æ meira að taka á sig mynd. Kunnugleg andlit birtust í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar upp úr kl. 17 í dag. Mátti þar bera kennsl á Magnús, dr. Friðrik, Ólöfu, Hauk, Eirík, Sigurð Júl., Guðmund, Einar blómasala, Jörund og ritara. Það kom á óvart að kunnir hlauparar, sem vitað var að væru innan Borgarlandsins og við þokkalega heilsu (nefni engin nöfn), skyldu ekki sjá sóma sinn og mæta, einkum þegar Reykjavíkurmaraþon færist óðum nær. Ekki laust við að þessari spurningu lysti niður í hug manns: "hvað eru þeir  eiginlega að hugsa?" Í Brottfararsal var rætt um Hinsegin daga sem framundan eru og með hvaða hætti Hlaupasamtökin ættu eða gætu tekið þátt þar. Upplýst að þeim yrði falið það ábyrgðarfulla starf að selja sleikibrjóstsykra. Enn er óljóst hver einkennisbúningur þeirra verður. Óþekkt kona kom að máli við okkur og spurðist fyrir um hlaupahópinn - voru henni veitt greið svör og jafnframt boðið að taka þátt. Hvað um það, Garmin-tæki voru löngu stillt þegar við töltum af stað í góðviðri, sólskini, þokkalegum hita og andvara.

Enn þykir ástæða til þess að brýna fyrir hlaupurum að tæma hlaupatöskur sínar að hlaupi loknu og setja í þvottavél - svo ágengur fnykur sótti að nefjum sómakærra hlaupara að menn fengu ekki orða bundist. Ónefndur blómasali gekkst við óþefnum, en bar við þeirri ástæðu að þvottavélin hans væri biluð. Óskað var eftir að ritari brýndi fyrir hlaupurum að gæta hreinlætis og þvo ávallt vel allan hlaupafatnað eftir hlaup, en geyma hann ekki í hlaupatöskunni til næsta hlaups. Einnig bent á að flestir eiga fleiri en eina treyju til þess að hlaupa í...

Skeiðað eftir Ægisíðu - einhverra hluta vegna virtust Haukur og Friðrik alsælir með að hlaupa í vímunni af treyju blómasalans - köllsuðu jafnvel um málið við ritara - Einar tók á rás og vildi leyfa ritara að njóta ilmsins, en sjaldan hefur ritari verið jafn viðbragðsfljótur eða fótfrár og þá, tætti í burtu á firnahraða og kom ekki í nálægð við skyrtuna fyrr en í Nauthólsvík. Fremstir fóru Sjúl, Eiríkur, Guðmundur og Magnús, aðrir á eftir.

Í Nauthólsvík var farið niður á rampinn, enda fyrsti dagur ágústmánaðar og komið að sjóbaði. Þessir fóru í sjóinn: ritari, dr. Friðrik, Einar blómasali (að 3/4) og Ólöf (að 1/4). Blómasalinn kvaðst vera lasinn, með þungan verk fyrir brjósti, en þó ekki hita. Þrátt fyrir að dr. Friðrik sé almennt þeirrar skoðunar að sjóböð séu af hinu góða fyrir veika menn, féllst hann á að leyfa blómasalanum að snúa við og ljúka stuttu hlaupi. Aðrir héldu áfram, Sjúl og Eiríkur fóru 26 km (Goldfinger með slaufum), Jörundur og Ólafur fóru 69 með lengingu niður á Sæbraut (18 km), aðrir eitthvað styttra.

Ástand var gott eftir hlaup, þrátt fyrir að við Jörundur hefðum haldið stíft tempó. Þeir Sjúl og Eiríkur voru ekki alveg jafnsprækir, en þurfa núna að fara að trappa alvarlega niður fyrir maraþon. Taka bara stutt hlaup eða meðallöng hlaup. Á föstudag verður farið hefðbundið, rúmir 10 km, en á laugardag er stefnt að 27 km - ef veður leyfir. Áhugasamir verði í sambandi við ritara. Á föstudag er jafnframt Fyrsti Föstudagur - en nokkuð er um liðið síðan sú hátíð hefur verið haldin heilög.

Í gvuðs gleði. Ritari.



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæri ritari.

ÉG vil mótmæla sjósundi að 3/4 hluta. Slíkt er móðgun við undirriritaðan og er óskað eftir að það verði leiðrétt með því sama. Báðum fótum var sleppt og telst það til fullra stiga.

Varðandi fnykinn hefur hlaupagírnum verið komið fyrir í klórblönduðu sápuvatni með sérstakri ilmoliu.´

Á morgun er fyrsti föstudagur og hver veit nema unaðslegir tónaslættir gítarleikara  með barkaröddina kyrji nokkur lög á gítarinn´á gamla Mimmanum ( Radisson SAS)

Með kveðju til allra hlaupara. Ykkar einlægur

Einar Þór ( kenndur við blómasölu)

Einar Þór Jónsson (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 08:51

2 identicon

1. Það er af undirrituðum og sundafrekum hans að frétta að tekin var æfing í "River Dancing" í Kaldaklofskvísl á Fjallabaksleið. Dansinn er þannig framinn að maður fikrar sig á hlið út í ána þangað til straumurinn hrífur mann með. Síðan er kúnstin fólgin í því að tipla á steinum og ýta sér í átt að hinum bakkanum um leið og maður flýtur niður ána.  Verulega athyglisvert! Æfingin var framin í lágmarks udstyr, þ. e. hommabuxum einum fata. Einnig var þar staddur Halldór "bróðir" Guðmundsson og sýndi sannfærandi taxta í sömu kúnst.

2. Andremma og hvers konar skítalykt af iðkendum hlaupa hefur gjarnan verið látin liggja á milli hluta, enda sé ekki um að ræða gagngera umhverfisvá. Ætla má, af lýsingum sectetatus, að téður hlaupari hefði átt að fara í umhverfismat, svo sem gert er við loðnubræðslur áður byggðar eru. Annars er svitalykt bara til þess fallin að draga fram margbreytileika mannlífs, í okkar tilviki mannlífs í Vesturbæ. Henni ber að fagna í hæfilegum skömmtum. 

Flosi Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband