Fjórir fundu sinn tíma fyrir hlaup

Í boði var að hlaupa kl. 16:00 í dag frá Vesturbæjarlaug. Það var Þorláksmessa og bæði skata og jólainnkaupastress herjaði á þjóðina. Fjórir valinkunnir hlauparar höfðu þó nóga nærveru sálar og innri frið til þess að geta kúplað sér frá stressinu til þess að helga sig aðaláhugamálinu: hlaupi. Þetta voru þeir Einar blómasali, Kári, Þorvaldur og Ólafur ritari. Það heyrir til sögu að sl. mánudag hittust þeir tveir fyrstnefndu sérstaklega til þess að telja kjarkinn hvor úr öðrum á degi þegar nístingsgaddur skar merg og bein og varð niðurstaðan sú að hlíta ráði Kára: "Einar minn, eigum við nokkuð að vera að hlaupa í dag?" Ekki þurfti miklar umræður til þess að sannfæra blómasalann. Olli það þeim mun meiri ánægjuhrolli í hópnum að báðir syndaselirnir skyldu mæta á degi þegar veður var sízt skárra en á mánudag.

Enn var gerð félagsfræðileg úttekt á klæðaburði þeirra Reynimelsbræðra, sem hafa mjög einkennilega siði þegar kemur að því að raða á sig fatnaði fyrir hlaup. Ég vakti athygli Þorvaldar á þessu sérstaklega og bað hann að gaumgæfa tilburðina. Hver flíkin af annarri rataði utan á skrokkana enda kalt í veðri og endað á balaklövum. Tókum góða rispu í Brottfararsal og létum finna fyrir okkur áður en lagt var í hann. Stefnan sett á Þriggjabrúahlaup, en áður en lagt var af stað þurfti að finna málamiðlun því að blómasalinn var á leið í skötu, snaps og bjór og varð að vera kominn tilbaka kl. 17. Þá var niðurstaðan Suðurhlíðar, en vegna þess að Kári var svo lengi að klæða sig í gírið var endað á að taka Hlíðarfót. Það var góð málamiðlun, enda var Kári að koma úr skötu fyrr um daginn og lét hún finna fyrir sér í hlaupinu.

Það var samhentur hópur afburðahlaupara og harðgerra einstaklinga sem hlupu og létu nístingsgadd ekki bíta á sér. Þeir veltu fyrir sér hvað þjálfarinn hefði átt við með að "finna sinn tíma fyrir hlaup" - en þessu hafði þjálfari lýst yfir þegar fyrir lá að farið yrði frá Laug kl. 16:00 skv. tilkynningu ritara. Hvatning til hlaupara um að "finna sinn tíma fyrir hlaup" - hvað merkir þetta? Er verið að ógilda hlaup sem þegar hefur verið ákveðið? Eða að ómerkja það á einhvern hátt. En þar sem við erum íslenzkir karlmenn ákváðum við að vera ekki að elta ólar við svona orðalag, halda áfram og gera það bezta úr hlaupi.

Saga var sögð af íslenzkum manni sem hafði í þjónustu sinni kínverskan mann. Sá kvartaði yfir höfuðverk og kvaðst eiga erfitt með að mæta starfsskyldum sínum þann daginn. "Veiztu hvað ég geri þegar ég fæ hausverk?" sagði sá íslenzki. "Ég fer heim og ... (óvðurkvæmilegt orðalag um samræði)... konu minni og ég verð allur annar á eftir." "Kannski ég prófi þetta" sagði sá kínverski og hvarf á braut. Síðar sama dag mætir hann að nýju til vinnu og kveðst hafa fengið bót meina sinna. "Þetta svínvirkaði, hausverkurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu - og þetta er fínasta hús sem þú býrð í."  Nokkuð dæmigerður Kirkjuráðsbrandari.

Jæja, skatan seig í hjá veslings Kára og hann fór að kvarta og dragast aftur úr. En enginn er skilinn eftir hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og við hægðum bara á okkur og hertum samræðurnar. Enginn á ferli og undruðumst við það að hvorki gangandi né hlaupandi skyldu vera á ferð á þessum tíma. Hvar er allt fólkið, var spurt. Eru allir svona yfirmátastressaðir að þeir geta ekki tekið sér stutt frí og horfið út undir bert loft?

Það var farið hjá Háskólanum í Reykjavík og litið til framtíðarvinnustofu Kára, sem mun vera vinnzlusalur í anda Hraðfrystihússins í Reykjavík og ekki einkaskrifstofa eins og við í Kansellíinu getum státað af, þar sem loka má að sér þegar einkaleg málefni eru til umfjöllunar. Blómasalinn var orðinn áhyggjufullur um að hann myndi koma seint til skötunnar, en einkum þó að hann myndi missa einhvers í drykk, snapsi eða bjór. Við hertum hlaupið og tókum brýrnar með látum,  en sem menn vita er búið að skera allt í sundur á Hringbraut í þágu einhverra óljósra framkvæmda.

Það var kalt í dag að hlaupa, en þó gekk þetta bærilega og var líðan góð við komu á Móttökuplan.  Hugmyndir voru uppi um hlaup á aðfangadag kl. 9:30 - og berast væntanlega boð um það. Næst er vitað um hlaup á annandag jóla kl. 9:30 frá Laug - en einnig munu einhverjir ætla að hlaupa frá Laugardalslaug kl. 12 þann hinn sama dag. Er bara að vona að menn "finni sinn tíma fyrir hlaup" eins og sagt er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband