Hrikaleg átök - farinn Stokkur

Það var orðið tímabært að fara að hreyfa sig eftir jólahlaðborð og hvers kyns sukk undanfarinna daga. Mæting góð í Brottfararsal, og mátti þar bera kennsl á þá dr. Friðrik og Magnús tannlækni, fremsta meðal jafningja. Ótuktarskapur fauk á milli manna sem vonlegt var og eðlilegt er þegar boðið er upp á stráksskap. Veðrið leikur við okkur sem fyrr, 8 stiga hiti um miðjan desember, logn, en myrkur algjört. Þjálfari með fyrirmæli um Bakkavarir. Við Flosi og Ágúst gerðumst liðhlaupar, enda með metnaðarfyllri hugmyndir en skokk á Nesi, við stefndum á langt, eða alla vega millilangt. Við vildum fara Stokk. Létum verða af því þrátt fyrir óheyrilegan jafningjaþrýsting frá öðrum hlaupurum. Þetta sýnir einbeitni og karaktér.

Af þessari ástæðu segir fátt ef nokkuð af þeim sem fóru á Nes né afrekum þeirra. En þeim mun meira af þeim sem lögðu í langferð og gerðust hetjur. Skilyrði ritara fyrir því að fara Stokk var að vera ekki skilinn eftir. Lofuðu þeir tveir öllu fögru, en hafa líklega verið með lygaramerki á tánum, meira um það seinna. Það skal viðurkennt að í fyrstu skrefunum var ritari afar þungur á sér og eiginlega ekki að nenna að fara svona langt. "Hvernig fer þetta? Þetta endar ábyggilega illa!" En lét sig hafa það enda félagsskapurinn góður og umræður allar léttar. Myrkur var á og mættum við ýmist reiðhjólafólki sem var með háu ljósin á hjólfákum sínum, eða alls engin ljós, og mikill munur þar á.

Það var farið fetið og frekar rólega að því er þessum hlaupara virtist. Við mættum stórhlaupurum á leiðinni, Halldóri bróður og konu hans, og síðar Kristínu Andersen. Svo lentum við  í hópi sem var með sprettæfingar í Fossvogi, ekki veit ég hvaða fólk það var. Við skimuðum eftir nýju skrifstofunni hans Kára í HR við Nauthólsvík og gizkuðum á hvar hún mundi vera. Ég hékk í þeim að Víkingsvelli, en þá var gullfiskaminnið búið að ræna þeim loforðinu af Plani og þeir skildu mig eftir. Þó sá ég til þeirra alllengi, og þeir gerðu sér far um að staldra við öðru hverju og gá að því hvar ég væri, en hirtu ekki um að leyfa mér að ná sér. Héldu bara áfram. Á endanum var þá hvergi að sjá. En mér var alveg sama. Þetta var lengsta hlaup sem ég hafði farið lengi  og ég var sáttur við að vera á hreyfingu, taka vel á því og svitna vel. Einhver sælutilfinning sem altekur mann þegar maður finnur ódauninn af sjálfum sér!

Þetta gekk vel, en framkvæmdir á Hringbraut tefja eðlilega framrás hlaups og maður þarf að fara yfir á nyrðri hlutann á kafla, svo aftur yfir á þann syðri við Vatnsmýri. Þaðan áfram um Háskólasvæði og Hagamel. Þeir félagar mínir voru á Móttökuplani þegar ég kom þangað og hófu þegar að mýkja skap mitt með fagurgala talandi fallega um þann mikla þroska sem ég sýndi með því að formæla þeim ekki fyrir svikin loforð. Ég sagði þeim á móti að ég væri nú ekki byrjaður á pistlinum.

Í Útiklefa blómasali beygður af því að hafa ekki hlaupið með okkur hetjum og náð af sér skvapi svo einhverju næmi. Í potti hittum við þann einasta sem hljóp á Nes, Friðrik kaupmann.  Var legið lengi og spjallað um menn og málefni, málleysingja og minnihlutahópa. Nú er hægt að fara að taka á því, næsta miðvikudag er stefnt á langt, Stíbblu hið minnsta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband