Fyrsta hlaup eftir Brú

Hlauparar óskuðu dr. Jóhönnu til hamingju með frábæran árangur í Brúarhlaupi, 1:34 í hálfu maraþoni. Venju samkvæmt var fjöldi hlaupara mættur á mánudegi og virtust vera jafnmargir karlar og konur. Eldri hlauparar stóðu á Brottfararplani og undruðust þessa þróun: hvað er að gerast, spurðu menn. Enn var rifjaður upp sá tími þegar Sif Jónsdóttir langhlaupari var ein kvenna í hópi vorum og tregðaðist við að láta karlrembusvín flæma sig í burtu. En nú eru breyttir tímar og karlrembusvín fjarri hópi vorum, nú hlaupa aðeins jafnréttissinnaðir nútímamenn og fagna þeim fjölda hlaupasystra sem sópast að okkur. Sem fyrr var fjöldinn slíkur að nöfn verða eigi nefnd, nema sérstakt tilefni gefist til.

Tilefni gafst til að rifja upp velheppnaðan Fyrsta Föstudag að Jörundar. Einhver mundi eftir að Bjarni hefði hirt ritara upp á Ingólfstorgi, hent honum og reiðskjóta hans aftur í Benzinn og ekið sem leið lá vestur í bæ og heim til Jörundar. Þar var mikil veizla, matur á borðum, fram reiddur af borgfirzkum myndarskap. Slík voru herlegheitin að ónefndur blómasali fékkst ekki til að líta upp úr matardisknum sínum, heldur grúfði sig yfir hann og gúffaði sleitulítíð upp í sig gómsætan matinn. Ritari stóð við hlið Helmuts, sem fyrir vikið lenti í áfengisþoku svo mikilli að hann gleymdi hjólatösku sinni í veizlunni.

Nema hvað, nú stóðu hlauparar á Plani og hugðust taka á því. Að vísu ætluðu sumir stutt og hægt, eins og ritari, dr. Friðrik og dr. Jóhanna, en aðrir vildu spretta úr spori, heimtuðu fartleik. Má þar nefna blómasalann, Flosa og fleiri hættulega menn. Þjálfarar lofuðu sprettum í Öskjuhlíð.

Hlaup var ungt þegar eineltið hófst. Blómasalinn byrjaði að hæða ritara fyrir það að vera meiddur, nánast einfættur. „Hvernig er að hlaupa á einum fæti?“ Síðan sneri hann sér að næsta hlaupara og fór að lofsyngja nýju fæturna frá Össuri. Hér upplýsti ritari að Önundur tréfótur hefði í Grettis sögu verið sagður fræknastur og fimastur einfættra manna á Íslandi. Blómasali gerðist fjarrænn í augntilliti, benti út á sjóinn, og sagði: „Sjáið! Þarna koma skipin, færandi varninginn heim!“ Búið að skipta um umræðuefni þegar það hentaði ekki lengur að halda áfram. Ritari vakti athygli manna á þessari ábendingu Grettlu og velti fyrir sér hvernig menn hefðu getað dregið þessa ályktun: Var þetta kannað sérstaklega?

Hlaupahópurinn lagskiptur venju samkvæmt, en nú virtist hann skiptast í konur og karla. Við Jörundur fórum rólega enda er ritari að ná sér eftir meiðsli. Einhverra hluta vegna vorum við þó komnir á 5 mínútna tempó í Skerjafirði. Drógum uppi blómasalann, sem ku vera í fantaformi þessi missirin, og fórum jafnvel fram úr honum. Í Nauthólsvík var yfirleitt farin neðri leið í Öskjuhlíð, sumir fóru Hlíðarfót, aðrir stefndu á hæðirnar í hraðaspretti. Ritari hélt í humátt á eftir Þorvaldi, Magnúsi og Jóhönnu – sem fóru Hlíðarfót. Lauk hlaupi þokkalega ánægður.

Björn á leið í Ermarsund og svo Berlínarmaraþon. Ljúf stund í potti, en stutt.


  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband