Reykjafellshlaup 2009

Sunnudaginn 14. júní var þreytt Reykjafellshlaup að sumri samkvæmt hefð Samtakanna. Þá er hlaupið sem leið liggur frá Vesturbæjarlaug og endað við Varmárlaug. Safnast var saman við Vesturbæjarlaug og voru þessi mætt: Ágúst, Eiríkur, Rúnar, Benedikt, ritari, Helmut, dr. Jóhanna, Rúna, Friðrik og Þorvaldur. Mikill hugur var í fólki vegna hlaupsins og létt stemmning. Voru þó sumir nýbúnir að hlaupa Álafosshlaup (Jóhanna og Helmut) og Benedikt hafði hlaupið Sjötindahlaup í Mosfellssveitinni deginum áður. Og Eiríkur og Rúnar búnir að skottast eitthvað um bæinn í gær. Veður gott, sól öðru hverju, en dró líka fyrir. Ekki kalt.

Varla erum við komin af stað niður á Ægisíðu þegar gerir úrhellisregn, kalt og andstyggilegt. Við hugsum: hvað er Gísli að bralla núna? Líst ekki beinlínis vel á þetta, ef það á að rigna næstu tvo tímana. En svo styttir upp skömmu síðar og við förum lofsamlegum orðum um Gísla. Bregður þá svo við að ekki einasta hefst nýtt úrhelli, heldur fylgir haglél í kaupbæti. Þá var okkur eiginlega alveg lokið. Sem betur fer stóð þetta stutt og eftir það var veður gott alla leið.

Við fórum óskaplega hægt. Einhverjum hafði sýnst blómasalinn koma til hlaups á síðustu stundu, en við þessir helztu hlauparar skeyttum engu um það. Menn skulu mæta á réttum tíma. Einhverjir aumingjagóðir ætluðu þó að verða eftir og fylgja hlauparanum áleiðis í hlaupið. Af þeirri ástæðu vorum við nokkur fremst sem dóluðum okkur þetta án þess að vera að hugsa um hraða, við litum meira á þetta sem félagslega athöfn og það væri keppikefli að halda hópinn og eiga skemmtilegar samræður. Vissum sem var að líklega myndu þeir hinir ná okkur fyrr en síðar - "ja", sagði Friðrik, hugsi, "nema kannski Einar greyið". Enda fór það svo að hlaup hans varð sögulegt og svo flókið að enn hefur ekki tekist að greiða úr flækjunni.

Það var stöðvað víða á leiðinni. Við tókum myndastopp við Víkingsheimili þar sem smellt var af í gríð og erg. Svo náðu þeir hraðafantar okkur og haldið áfram yfir í Grafarvoginn. Þá var hraðinn settur upp. Þá skildu leiðir. Fremstir Friðrik, Eiríkur, Rúnar, Benedikt og Ágúst, ritari og Þorvaldur þar á eftir, hin þrjú fóru sér hægt einhvers staðar fyrir aftan okkur. Stöðvað við listaverkin í Grafarvogi og beðið þess að þau hin næðu okkur. Svo var orðið of langt um liðið og við héldum áfram.

Það var haldið af stað af nýju og fór fljótlega að draga sundur með mönnum. Víða var hafflötur spegilsléttur, svo fagur raunar á að líta að ritari stóðst ekki freistinguna, fór úr skóm og sokkum og óð út í svala ölduna sér til kælingar og andlegrar uppbyggingar. Hugsaði sem svo að næst þyrfti að byggja gott sjóbað inn í Reykjafellshlaup, það er óhjákvæmilegt. Ekki að láta hraðann vera í fyrirrúmi, heldur hið félagslega aspekt, náttúrufegurð, ilm gróðurs og sjó.  

Það var villugjarnt þar efra og farnir krókar og keldur, er komið var í Mosó villtumst við Þorvaldur inn í bæ og fórum lengri leið að laug þeirra Mosvellinga. Þar voru mættir Jörundur, Bjarni og Einar blómasali, og ýmsir fjölskyldumeðlimir aðrir. Hóf nú Einar að segja langa sögu af hlaupi sínu, sem var einhvern veginn þannig að hann hefði mætt á tilsettum tíma, hafið hlaup en hætt við sökum rigningar, snúið við til Laugar, ekið sem leið lá inn að Víkingsvelli. Þar hefði hann slegist í för með Jörundi sem fór á undan hópnum og var á undan okkur alla leið. Þeir hefðu hlaupið upp að Varmárlaug og komið fyrstir, en alltaf óttast að einhver úr hópnum færi fram úr þeim. Þangað komnir hefðu þeir síðan ekið aftur niður að Víkingsvelli til þess að sækja dótið í bíl blómasalans, sem hann treysti ekki ritara til þess að aka að Varmárlaug! Hver gæti flækt eitt einfalt hlaup með þessum hætti annar en blómasalinn?

Eftir heit og köld böð við Varmá var ekið að Reykjafelli, sveitasetri og vin þeirra Helmuts og Jóhönnu, og þar snædd indælis lasagna með salati og brauði og gnægð drykkja. Birgir og Kári mættir (óhlaupnir) og Biggi frumsamdi og -flutti lag á rússnesku tileinkað dr. Jóhönnu og Helmut. Makar bættust í hópinn, Vilborg, Þorbjörg, Ólöf o.fl. Kökur og kaffi á eftir. Frábær eftirmiðdagsstund sem vonandi er búin að vinna sér fastan sess í starfi Hlaupasamtakanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband