Sannleikurinn leiddur í ljós

Viðbót við frásögn gærdagsins: þetta var verra en það virtist. Blómasalinn mætti fimm mínútum eftir ákveðinn brottfarartíma. Búið var að læsa bíl ritara og helztu hlauparar farnir af stað í hlaupið. Blómasalinn skildi dótið sitt eftir í bíl sínum, þorði ekki að skilja draslið eftir hjá bíl ritara, treysti ekki að eiginkona ritara myndi skilja að þarna væru verðmæti á ferð sem bæri að flytja í Mosfellssveitina. Blómasalinn hljóp af stað, lenti í sömu brjáluðu rigningu og aðrir, sneri við í Skerjafirði, hljóp að nýju til Laugar og ók bíl sínum sem leið lá inn að Víkingsvelli. Eftir það var sagan að mestu eins og hún var sögð í gær.

En þá að hlaupi dagsins. Björn með fyrirlestur um mannauðsfræði í útiklefa. Menn voru stirðir eftir afrek gærdagsins. Það aftraði ekki þjálfurum frá að leggja drög að hlaupi með sprettum, ég sá Rúnar setja tölur á blað, 3:30, ekki leist mér á það. Magga hló að áhyggjum ritara yfir þessum áætlunum. Fjöldi hlaupara mættur, nýjar stúlkur bætast við í hvert skipti. Jörundur stórhlaupari mættur, Helmut líka.

Lagt í hann í ágætu veðri - en fljótt áttuðum við okkur á því að það var kalt og blés. Hlaupið upp á Víðimel og þaðan út á Suðurgötu, svo út í Skerjafjörð á ágætu tempói. Það var stoppað við Skítastöð og lögð á ráðin um spretti. Ég, blómasalinn, Kalli og ung stúlka sem mig vantar nafnið á hlupu tilbaka án þess að bíða eftir leiðbeiningum. Það var farið rólega yfir og spjallað um viðburði gærdagsins.

Þegar upp var staðið vorum við nokkrir sem töldum Eymingja vera nóg. Aðrir fóru á Nes og tóku spretti, einhverjir hlupu út á Lindarbraut og lentu í roki á heimleiðinni. Hittum Magnús þar sem hann reyndi að laumast óséður í hlaup, löngu á eftir öðrum. Gómuðum hann og heimtuðum skýringar. Hann hafði verið í Byko að kaupa það sem ekki fæst.

Næstkomandi miðvikudag er 17. júní og lokað í SundLaug Vorri. Engu að síður stendur vilji þjálfara til þess að hitta okkur þar á hefðbundnum helgartíma, 10:10. Klofningshópur útúr Samtökum Vorum mun hittast við Laugardalslaug á sama tíma og eiga hlaup um Dalinn og e.t.v. víðar. Í gvuðs friði. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Fríða Kristinsdóttir voru með í hlaupi. Eru úr árgangi Þórhalls Arnar í Hagaskóla

Flosi Kristjánsson, 16.6.2009 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband