Framtíðin björt

Fáir hlauparar mættir á föstudegi, nánar tiltekið próf. Fróði, Kári, Flosi, Bjössi, Benni, ritari og Magnús Júlíus. Eftir því var tekið að engin kona hljóp með okkur í dag. Rætt um Nes og sjó - mótmæli á Plani og óskað eftir hefðbundnu. Það er líka sjór í Nauthólsvík sagði einhver. Stelpur á Plani að reykja vindlinga. Bjössi sagði: "Stelpur, takið þið oní ykkur?" "Já," sögðu þær. Þetta kveikti einhverjar hugrenningar hjá einhverjum - enda menn afgamlir sem hlaupa með hópnum.

Farið af stað á hefðbundnu hægu tempói. Við mættum Aldursforseta hlaupara á Íslandi, Jóni hlaupara, sem tók feiknarsprett á Ægisíðu er hann sá okkur. "Flottur!" sagði einhver, Magnús hló við fót. Áður en langt um leið vorum við komnir á hratt tempó og héldum því út í Nauthólsvík. Þar var sveigt niður á ramp og farið af pjötlum. Fjórir hlauparar fóru að fullu í sjóinn: Björn, Flosi, Ágúst og ritari. Benni fór að takmörkuðu leyti í sjó, upp á læri eftir því sem gleggstu menn rak minni til. Svo var bara haldið áfram.

Það var beygt uppí Öskjuhlíð og tekinn sprettur upp brekkuna góðu. Svo áfram hefðbundið. Þrátt fyrir að þarna væru á ferð hlauparar með ójafna getu í hlaupum héldum við hópinn nokkurn veginn alla leið. Næsti sprettur var tekinn á Klambratúni. Þaðan út á Sæbraut, sprettur frá Sólfari. Þegar komið var að Ægisgötu ákváðu ofurhlauparar að halda áfram út í Ánanaust og þaðan um Grandaveg tilbaka í Laug. Vegalengd 12,7 km - meðaltempó nálægt 5 mín.

Í potti var Einar blómasali, kvaðst hafa mætt kl. 16:45 til hlaups og farið ótilgreinda vegalengd. Engar ábyggilegar mælingar voru til þess að staðfesta frásögn hlauparans og verður hann því enn að falla fórnarlamb óvissunnar. Í potti urðu gáfulegar umræður um stöðu mála og framtíð lands og þjóðar. Eftir ítarlega greiningu var niðurstaðan sú að staðan væri bara allgóð og framtíðin björt. Gengu menn úr potti með sól í sinni.

Á sunnudag fer fram hefðbundið Reykjafellshlaup, og er hlaupið frá SundLaug Vorri kl. 9:30. 22 km - vel mætt!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband