27.5.2009 | 21:52
Loksins Ágúst - en enginn Helmut
Einmunablíða á miðvikudegi þegar hefðin býður að hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins hlaupi langt og fari jafnvel í sjó. Allnokkur fjöldi mættur og dr. Friðrik mættur fyrstur af öllum á Plan og gekk óþreyjufullur um eins og ljón í búri og beið þess að hlaup hæfist. Auk fyrrnefnds háls-, nef- og eyrnalæknis voru þessi mætt: Margrét og Rúnar, Flosi, Ágúst, Þorvaldur, Kári, Ósk, Stefán Ingi, Einar blómasali, Friðrik kaupmaður, Birgir, Kalli, Magnús, dr. Jóhanna og svo tíndum við Jón Gauta upp á leið okkar.
Engar ákveðnar línur gefnar upp um vegalengdir eða hraða, en nefnt Þriggjabrúahlaup, einnig 69. Máttu menn ráða hversu langt þeir færu. Hersing lagði hægt af stað, enda hiti allnokkur og eins gott að hafa sig hægan. Birgir hafði sig mjög í frammi framan af hlaups og talaði við hvern sem nennti að hlusta um Dalai Lama og hvort ætlunin væri að fara á fyrirlestur hans. Ég er Dalai Lama! sagði Friðrik kaupmaður og drap þar með umræðuna. Þetta sló Bigga næstum því útaf laginu, næstum því. Hann skrópaði á kóræfingu í kvöld og kvartaði sáran yfir saungvalinu á þeim bænum, eintómur einhver Sjúbert með endalausum þögnum. Hann hefði freistast til þess að taka undir með öðrum röddum í kórnum, sópran, tenór, bara til þess að þurfa ekki að þegja.
Friðrik læknir og Maggi ætluðu stutt töluðu um að það væri einhver leikur í sjónvarpinu sem þeir vildu horfa á. Þegar dró nær Nauthólsvík mættum við Birni hlaupara sem var snemma á ferðinni og virtist hafa hug á að horfa á þennan sama leik. Það skipti um við Borgarspítala, þá fóru einhverjir hlauparar upp brekkuna, og voru kennzl borin á þessa: þjálfarar, dr. Jóhanna, Ósk, Jón Gauti. Við Ágúst héldum áfram í Fossvoginn og líklega einhverjir á eftir okkur. Ágúst hafði spurt mig hvort ekki mætti treysta því að ég færi langt svo að hann hefði félagsskap. Jú, alla vega 30. Þá ljómaði Saharan.
Við áfram og mættum fjölda hlaupara á leiðinni, líklega Laugaskokki. Hneyksluðumst á fólki sem fórnaði góðu hlaupi til þess að geta hangið innandyra og horft á fóbboltaleik. Héldum þokkalegu tempói, en vorum samt báðir þreyttir og fórum ekki mjög geyst. Það komu ýmis gullkorn úr Sahara og jafnframt var á einhverjum tímapunkti rætt um hlaupara sem hljóp í tvo sólarhringa samfellt, í endalausa 1 km hringi. Brjálæði! Við Elliðaár var fjöldi barna að leika sér í veðurblíðunni, skvampandi í ánum. Við gerðum stanz öðru hverju til þess að drekka, enda þykir ritara óþægilegt að drekka hlaupandi. Ágúst er hins vegar vanur að drekka bæði og borða á hlaupum, en sagði að hann hefði á endanum ekki komið niður powerbarinu í Sahara, hann hefði þurft að hrækja því út. Hefði ekki verið með nægilega fjölbreytt þurrfæði í ferðinni góðu.
Á lengstu leiðinni var hlaupið í myrkri í 6 klst. og farið um stórgrýtt svæði. Hafði hann samfylgd tveggja annarra hlaupara, og annar þeirra var með gott vasaljós. Sá var Þjóðverji og þakkaði sjálfum sér fyrir að hafa komið þeim í gegnum svartnættið og stórgrýtið. Ágúst upplýsti jafnframt að vænta mætti ítarlegrar frásagnar í Fréttablaðinu um helgina af hlaupinu. Þá var rætt um Noregsdvölina og er ekki annað að merkja en Ágúst sé orðinn einn óþolandi Noregsvinur. Hann talaði hlýlega um dvölina í Björgvin og taldi staðinn ágætastan allra staða sem hann hefði verið á. Óþolandi!
Þá vorum við komnir yfir Miklubraut og prófessorinn farinn að hljóma eins og hestur sem er búinn að borða yfir sig af rúgbrauði. Svo kom viðkvæmt trúnaðaraugnablik og hann játaði að hafa verið fjarverandi sl. mánudag sökum leti. Ég hughreysti hann með því að maður með slíkt afrek að baki sem Sahara-hlaup mætti vel vera latur öðru hverju. Staðnæmst við vatnshana á Sæbraut og drukkið, við litum aftur fyrir okkur, en sáum engan. Reyndar stönzuðum við öðru hverju þar sem við vorum eilítið þreyttir (eða latir) sáum ekki ástæðu til þess að vera að spenna okkur. Gengum m.a.s. upp hluta Ægisgötu, en hlupum svo restina. Á Hofsvallagötu heyrðist kunnuglegt tipl að baki okkur og hlaupari geystist fram úr okkur eins og hann ætti stefnumót sem hann vildi ekki misssa af. Við sættum okkur ekki við þetta, gáfum í og tættum fram úr honum. Á Plani var leitað skýringa á þessu framferði og fullyrti viðkomandi að hann hefði fylgt okkur Ágústi eftir alla leið, við efuðumst um það og heimtuðum staðfestingu. Ja, að vísu þá fór klukkan mín ekki af stað fyrr en við Skítastöð, svo að ég get ekki sýnt sama kílómetrafjölda og þið. Hér setti hlátur óstöðvanda að prófessornum og þurfti hann að halda um magann til þess að verða ekki fyrir meiðslum. Vegalengd 17,31 km meðaltempó (með stoppum NB) 5:23. Í gvuðs friði. Ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.