Er það satt? Getur það verið?

Horfur góðar framan af degi, en svo snerust veðurhorfur gegn okkur, það dimmdi yfir, kólnaði og fór jafnvel að bera á snjókomu. Mættir í Útiklefa Þorvaldur og Ólafur ritari. Eðlilega varð þeim fyrst hugsað til Vilhjálms Bjarnasonar og áttu saman langt spjall um þann mæta meðborgara og félaga. Við ræddum einna helzt um líkindi þess að hann mætti aftur, en ansi langt er orðið síðan hann sást síðast í kátra sveina og meyja hópi á Sólrúnarbraut. Flogið hefur fyrir að hann hyggi á hlaup á ný með félögum sínum í Hlaupasamtökunum og er víst að honum verður tekið fagnandi er hann birtist. Eina sem getur truflað eru óheppilegar athugasemdir frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar, Formanns til Lífstíðar, en hann á það til að segja hluti við Vilhjálm í vikulegum samtölum þeirra sem verða til þess að hleypa illu blóði í Álítsgjafann. En við bíðum spennt eftir að sjá þennan ljúfling í hópi okkar á ný.

Mættir nokkrir valinkunnir hlauparar þrátt fyrir leiðindaveður. Flosi, Helmut, dr. Jóhanna, Kalli, Magnús, Brynja, Friðrik kaupmaður, Jón Gauti, Kári, Bjarni Benz og fyrrnefndir tveir hlauparar. Kári fór á undan hópnum og var bara frískur fyrsta kílómetrann. Aðrir voru frískir aðeins lengur, sumir allt hlaupið. Ritari var aldrei frískur, byrjaði að kveinka sér og væla þegar í byrjun og leið illa allt hlaupið, sem þó var ekki langt, Hlíðarfótur, 8 km. Aðrir fóru lengra, Klambratún og Blóðbanki, jafnvel Sæbraut.

Nei, það var hlunkast þetta af stað, maður var þungur eftir utanlandsferð og ólifnað. Það situr í manni. Kalt. Blés á norðan. Bærilegt út Ægisíðuna, en svo skall norðankyljan á manni við flugvöll og það var erfitt. Ég ætlaði að láta það koma í ljós í Nauthólsvík hvað ég færi langt, útilokaði sosum ekki hefðbundið - en svo sá maður að það var ekkert vit annað en stytta.

Eðlilega voru menn með hugann við hlauparann í Sahara. Honum fylgja góðar óskir að heiman og verður hugur okkar hjá honum á sunnudag þegar hann sprettir úr spori og lætur gamminn geisa í sandinum. Þó er brýnt fyrir honum að hann gleymi ekki að nefna Hlaupasamtökin á nafn þegar hann kemur fram í fjölmiðlum (t.d. í Fréttablaðinu í morgun).  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband