Kári mömmustrákur - Einar týndur - Biggi á batavegi - Þjálfari enn haltur

Mikið er ég feginn að Kári bloggvinur er ekki enn búinn að gera upp hug sinn um að flytja - þannig að vera kyrr er enn inni í myndinni. Auðvitað á hann að koma aftur heim og vera kyrr, hér er þörf fyrir brilljant hugsuði og vinnufúsar hendur. Tel ég sennilegt að mamma hans hafi hringt í hann í framhaldi af skýrslugerð minni um textagerð hans og talað við hann af umhyggju og umvendni. Ekkert spurðist til Einars blómasala, Biggi trúlega enn meiddur (skilji enginn orð mín sem afsökun honum til handa, hér hlaupa menn svo fremi fætur séu enn fastir við búkinn og hausinn á sínum stað). Margrét enn ein að tjónka við óstjórnlegan skríl, og ferst það furðu vel úr hendi.

Nú ætla ég að reyna að muna hverjir voru mættir (þeir sem ég hef nafnið á): Ágúst, Ólöf, Flosi, Þorvaldur, Friðrik, dr. Jóhanna, Benedikt, Björn, Eiríkur, ritari, Una, Jóhanna (ýmist kölluð "litla" eða "yngri" - ég veit ekki hvort er réttara), Ósk, Margrét, og einhverjir fleiri. Frjálst val um vegalengdir og leiðir. 8- 10 - 12 eða lengra, en meginatriðið að taka 5 km þétting e-s staðar á leiðinni. Áður en lagt var upp kom stutt anekdóta. Litli strákurinn var í skólanum og það var starfskynning. Hann var spurður að því hvað faðir hans starfaði. Stráksi gat ekki með nokkru móti viðurkennt að pabbi hans væri bankamaður, svo að hann svaraði: "Hann er strippari."

Við mættum Magnúsi þegar við lögðum af stað og hann hrópaði: "Haldið bara áfram, ég næ ykkur!" Svo bættist Friðrik í hópinn og það var farið rólega af stað skv. ráði þjálfara. Nú er farið að móta fyrir hjólabrautinni á Ægisíðu og verður gaman að sjá þegar hún verður fullgerð. Það er orðið alldimmt þegar lagt er í hann og hellist þunglyndið að sama skapi yfir hlaupara. Mikil umræða um Evrópusambandið, lýðræðið, nýjan forseta BNA og kassakrakkana á Alþingi.

Ritari þungur á sér eftir lítinn svefn undanfarnar nætur og eiginlega bara slappur, þetta hlýtur að fara að lagast! Datt því fljótlega aftur úr fremstu hlaupurum og hljóp lengi einn. Spurt var: á ég að fara Hlíðarfót, Hi-Lux eða lengra? Sjáum til. Aðrir höfðu gefið út yfirlýsingar um 69 (sem einhverjir eru farnir að kalla "Viktor") eða jafnvel lengra. Um síðir náði Ósk mér við Suðurhlíð og var því ákveðið að fara þá skemmtilegu leið. Við áttum langt spjall um kosningarnar í BNA, aðstæður íslenzkra nemenda í útlöndum, okkar eigin reynslu þar af og fleira. Fórum Hlíðina á góðu tempói, gáfum í á Hringbrautinni á fullu tempói - loks rifjaðist upp fyrir Ósk að hún væri með pott á hlóðum heima fyrir og hvarf hún til þess að huga að honum. Ég einn vestur úr.

Í potti var upplýst að margir hefðu farið Þriggjabrúahlaup, Benedikt og Eiríkur fóru 69 (þar af 6 km á 4:20). Björn fór venju samkvæmt á kostum með frásögum af Dettifossi, þar sem hann kokkaði um árabil. Skrautlegt líf um borð og fjöldi kynlegra kvista. Enn er minnt á Þingstaðahlaup og þó öllu heldur það sem mikilvægara er: Fyrsti Föstudagur n.k. föstudag. Auglýst er eftir venjúi, nánar tiltekið íverustað þar sem safna má nokkrum einmana sálum saman sem vilja reka tungur í mjöð og fagna. Skilyrði er að hann sé í námunda við Vesturbæjarlaug (með þessu er ég ekki að segja að hann ÞURFI að vera á Kaplaskjólsvegi).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband