Þar sem þögnin ein ræður ríkjum

Það fór þá aldrei svo að maður fyndi ekki hina fullkomnu hlaupaleið. Hún liggur frá Hótel Djúpavík, inn víkina og fram eftir, í átt til Norðurfjarðar, hvar bæði er hægt að komast í banka og kaupfélag. Reyndar er kaupfélagið lokað í hádeginu, en það breytir nú fáu, því afstæði tímans er einn af fjölmörgum kostum þessa staðar. Þá er ég hljóp frá Hótel Djúpavík á dúnmjúkum, rökum, leirbornum malarveginum, fannst mér eins og asfaltið borgarinnar væri snökktum síðra undirlag. Og þótt náttúrufegurð Vesturbæjar sé viðbrugðið, jafnast hún ekki á við Djúpuvík. Og það sem kannski var stærsta upplifunin; það var ekki kjaftur á ferðinni. Og þá meina ég það bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ég tel til dæmis alveg víst að Big Joke þyrfti í umhverfismat ef hann ætlaði að trufla náttúruna á Ströndum í hlaupagírnum! Hlaupnir 10 kílómetrar í miklum vindi, sem jók enn á ánægjuna, og "...kætti hjartað í vöskum hal".

Var síðan haldið til Agureyris, með viðkomu í Vestur-Hún. á Gauksmýri, þar sem áð var. Einhverskonar hátíð var á Hvammstanga, miðvikudagskvöldið; gefin fiskisúpa og rabbabarapæ og hægt var að kaupa gamla, notaða hluti fyrir lítið fé. Svolítið torræð hátíð sem ég skildi ekki hvar byrjaði og hvar endaði.
Á Agureyris var farið í hlaupagírinn og haldið inn fjörð. Að sjálfsögðu mætti ég þar eina manninum sem alltaf er með "dótið" í bílnum. Svo var einnig nú. Það vantaði ekki að hann var skrafhreifinn en með öllu óhlaupinn. Til að deyfa samvizkubitið kjaftaði á honum hver tuska og komst ég hvergi í brekkusprettina mína í Kjarnaskógi, þaðan sem hann var að koma. Sjálfsagt búinn að hnoða í sig ómældu af grillkjeti. Spurður hvort hann kæmi ekki til hlaupa, sagðist hann vera á heimleið. Nema hvað; alltaf að koma eða fara; alltaf með gírinn óþveginn í aftursætinu. Saga sumra er endurtekning. Nú verður enn hlaupið nyrðra, fram í næstu viku og ég ekki væntanlegur til Laugu fyrr en á föstudaginn. Það eru góðir tímar framundan, hlaupin löng, í þögn. 
Því miður hafa engar fregnir, hvorki góðar né slæmar borist frá Lýðveldinu syðra.
Í fjarveru Aðalritara, en í hans náðuga umboði;  
Benedikt Sigurðsson  
vararitari

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband