20.7.2008 | 19:01
Hlaupið í Jafnaskarðsskógi við Hreðavatn
Á sumarleyfistímum reima hlauparar skóna á fæturna og leggja land undir fót. Svo skemmtilega vill til að félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins eru staddir í sumarbústöðum við Hreðavatn. Hér ræðir um Kára og Önnu Birnu, annars vegar, og Ólaf ritara með fjölskyldu, hins vegar. Við höfum verið hér síðan á föstudag og notið borgfirzkrar veðurblíðu, sólar og 20 stiga hita. Í dag dró hins vegar fyrir sólu og fór að rigna, og því tímabært að fara að spretta úr spori. Kári og Ólafur fóru út að hlaupa eftir hádegið í dag, en Anna Birna gekk á Grábrók. Það var hlaupið úr Hraunvéum, þar sem Flosi ku einnig eiga sér athvarf, og farið norðan með vatni og inn í Jafnaskarðsskóg, ægifagra leið, skógi vaxna, en undirlagið var erfitt, grýtt og hætt við að menn misstígi sig. Þarna voru brattar brekkur og erfiðar - en það var bara gaman að takast á við þær og svitna svoldið. Ummerki eftir brúðkaup sem haldið hefur verið við vatnið. Fórum samtals 10,8 km - skelltum okkur í kaldan pottinn hjá Kára eftir hlaup í öllu gírinu. Ljúft! Kveðjur á malbikið úr Borgarfirði, ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.