Hert á hlaupi - hert á kröfum, hlaupari tekur flugið

Er Vilhjálmur Bjarnason mætti í Brottfararsal spurði hann ritara hvort hann væri "mjög svip-aður" - eða eins og segir í íslenzku kvæði:

Hanar eru hérlendis
herfilega graðir.
Íslendingar erlendis
eru mjög svip- aðir.

Gagnrýni á fjölmiðlafólk. Það birtir óbreyttar eða lítið breyttar fréttatilkynningar frá ónefndum fyrirtækjum, hnýta með mynd af yfirstrumpum, setjast svo og bíða eftir að verða kallaðir í ráðningarviðtöl með von um að enda sem blaðurfulltrúar téðra fyrirtækja. Ónefndum fjölmiðlafulltrúa sem með okkur hleypur var ekki skemmt, hann lýsti yfir því að hann myndi ekki hlaupa með VB í dag.
Þjálfarinn fullur miskunnar. Stefnt á hefðbundið og svo undan vindi á Ægisíðu. Mætt: Vilhjálmur, Ágúst, Benedikt, Magnús, ritari, Una, Þorbjörg og Margrét þjálfari. Farið stíft út - hópurinn hélt hópinn framan af. Á Suðurgötunni fór ritari fyrir myndarlegum hópi á hröðu skeiði. Svo fóru þeir sperrileggir Ágúst og Benni að derra sig, fóru fram úr og skildu okkur hin eftir. Á Suðurgötu við flugvöll tók Þorbjörg flugið er hún rak fótinn í ójöfnu, og hætti hlaupi. Við Dælustöð var gefið í, ég heyrði tiplið í þeim Unu og Möggu líkt og blómasalinn væri þar sjálfur kominn. Ég gaf í til þess að reyna þolrifin í þeim og freistaði þess að brjóta þær niður eins og maður gerir svo létt með blómasalann. Það virtist ætla að virka, allt þar til kom að síðustu húsum í Skerjafirði, þá sigu þær fram úr og skildu mig svo eftir.

Mættum Neshópi, nú var maður farinn að kannast við sig. Guðrún Geirs, Denni, Sæmi, Friðbjörn, Rúna o.fl. góðir félagar á fínu stími austur úr. Hér vorum við enn í fullum þéttingi, en það teygðist á milli vina. Er ég kom í Skjólin voru allir horfnir, og ef mér skjöplast ekki var vík milli þeirra vina er áfram héldu. Er þetta skemmtilegt? Ég hélt áfram á Nesið, en lét nægja að fara á Eiðistorg, fór Nesveginn tilbaka beinustu leið til Laugar. Það var kalt.

Ekki hafði ég lengi dvalið í potti er þangað kom Jörundur, Stórhlaupari og Stolt Hlaupasamtakanna, nýorðinn 67 ára og þar með löggilt gamalmenni, þótt enginn trúi því þegar menn berja manninn augum, sólbrúnan, stæltan og sællegan. Svo komu þeir, Einar blómasali óhlaupinn, og Magnús. Magnús kom í fullum klæðum og í skóm sem ég kannaðist við. Einar var kankvís þegar hann tilkynnti að hann væri búinn að selja Magnúsi nýju hlaupaskóna mína á 5000 kall. En í reynd var Magnús að máta skóna, hann langar í svona skó og vildi vita hvernig þeir pössuðu.

Í júní er skipulagt 100 km hlaup. Menn hafa áhyggjur af því að reynt verði að hnekkja meti próf. Fróða - en hann var góður með sig í potti og sagðist hafa ráð við því. Hann væri búinn að ráða Kalla kokk til þess að fylgjast með hlaupurum og ef einhver gerði sig líklegan til að hnekkja metinu færi hann út með sprautu og krukku að heimta blóð og þvag af hlaupurum.

Á miðvikudag verður lengt enn meir, Goldfinger, Stíbbla, Árbæjarlaug - við vorum á þeim slóðum í fyrra. Tímabært að rifja upp kynnin nú er vorar. Vel mætt, í gvuðs friði, ritari.

PS - ritari er verulega irriteraður yfir þessum misheppnaða miðli, bloggi sem virkar þannig að ef músin fer óvart yfir á annan hlekk, t.d. finnskt flugfélag, meðan á ritun stendur, þá dettur allur ritaður texti út og er glataður að eilífu - þetta gerðist fyrr í kvöld, ég var búinn að eyða heilum klukkutíma í að slá inn innblásinn texta, upplýstan og mergjaðan, uppfullan af níði um fólk, og lenti þá í þessum andskota - það sem ég bölvaði! Manni finnst að þeir sem standa fyrir svona appírati eigi að búa svo um hnútana að texti týnist ekki þótt maður fari eitthvað annað í Netheimum. Ég biðst því afsökunar á texta dagsins, hann er langt frá því að vera af þeim kalíber sem hlaup dagsins kallar á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrst praktíkin: Aðalritara er bent á að klappa leiftrandi pistla sína í Word-skjal og afrita síðan á blogg síðuna. Með því móti er öllu til haga haldið. Við skapdægur goðanna, ragnarök netsins, þá á ritari þetta allt í öruggri geymslu.  En svo að hinu mikilvæga. Blómasalanum eina. Hann steðjaði í brottfararsal að loknu hlaupi og sagðist ekki hafa fundið hlaupaskóna. Nýhlaupnir urðu vandræðalegir sem von var. Blómasalinn var í skónum, og því ekki von að hann hafi ekki fundið þá. Lagt er til samskot honum til handa, keyptir skór sem geymdir verða á hillu í fordyri VBL. 

Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband