Rólegt hlaup á páskadagsmorgun

Ólafur Þorsteinsson var mættur á ný til hlaupa þennan páskadagsmorgun eftir fjarveru á Túndru. Hann var seinn fyrir og þurfti sem vonlegt er að ræða við nánast alla sem staddir voru í Brottfararsal, Pétur, Bjarna Fel., Atla þjálfara, og aðallega um horfurnar í dag þegar margir leikir voru á dagskrá í enska boltanum. Brottför tafðist og einhverjum varð á orði að nú kæmumst við ekkert áfram. Urðu þessi ummæli að áhrínsorðum.

Mættir Þorvaldur, og þeir frændur, Þorsteinsson og Kristjánsson. Hlaupinn hefðbundinn sunnudagur og farið afar hægt, stoppað óvenjuoft, og hvílt óvenjulengi, enda frá mörgu að segja þegar menn hafa dvalið í fjarlægum sóknum. Svo rammt kvað að þessum hvíldum að þessi hlaupari veigrar sér við að kalla þetta hlaup, manni hafði vart sprottið sviti er komið var aftur til Laugar. En svo brýn voru krufin málefnin að ekki tjóaði að vera skemur að "hlaupi" - tíminn hefði einfaldlega ekki dugað til. Þetta sýndi sig enn frekar er komið var í pott, þar var valmenni, m.a. Skerjafjarðarskáldið, og varð að sitja vel fram yfir Lýðveldisfréttirnar til þess að ná að kryfja það sem fyrir lá. Blómasalinn bættist fljótlega við og hafði þá aldrei farið norður á skíði.

Menn eru sammála um að hlaupa af nýju á morgun, annan í páskum. Laugin er sem fyrr opin frá 10-18 og er því lagt til að mæting verði 10:10 - og ef gvuð lofar, sprett úr spori á Nesið. Nema menn séu svo gjörsamlega forfallnir í að gera alltaf allt eins að við blasi enn einn helgidagahringurinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband