Hvaða Benni?

Eðlilegt var að menn spyrðu: hvar er Benni? Kemur hann. Menn skimuðu út í öll horn og skúmaskot, en Benni var hvergi sjáanlegur. Mættir: Magnús tannlæknir, próf. Fróði, Þorvaldur, Einar blómasali, ritari, dr. Jóhanna og Helmut. Fleiri voru ekki mættir, en miðað við fyrri afrek voru menn eftirvæntingarfullir fyrir hlaup dagsins. Í unnskiptingaklefa voru mættir Magnús, ritari og próf. Fróði. Við áttum langt samtal um Hlaupasamtökin, um eðli hlaupa, um karlmennsku, geðheilbrigði og skápa. Við vorum sammála um að hlaupin stuðluðu að krónólogískri hliðrun, frestun innlagnar m.ö.o.

Menn lögðu í hann, sífellt skimandi eftir Benna, verður þetta hratt hlaup, verður hlaupið af skynsemi? Þannig furðuðu menn sig á þessu merkilega hlaupi. Kona nokkur hafði samband við þáttinn og fullyrti að menn sem hlypu, og tilgreindi Ágúst Kvaran og Þórólf Matthíasson, væru einlægt með einhvern þjáningarsvip kringum munnvikin. Hún gat ekki skilið að menn hefðu gott af þessu.

Á Ægisíðu var enn skimað og hugað að hinum hraðfara hlaupara, en ekki bólaði á honum. Af þeirri ástæðu var hægt að fara rólega yfir og reyndist þetta því hið ánægjulegasta hlaup. Að vísu fór fljótlega að draga sundur með mönnum, enn og aftur kom það í hlut okkar Einars að hlaupa aftastir, en við létum okkur það vel líka. Rætt um stöðu efnahagsmála, gengisþróun og benzínverð. Ég fann fljótlega að síðasta utanlandsferð hafði slæm áhrif á hlauparann, 4 kíló höfðu bætzt við líkamsþyngdina og ökklinn tók það óstinnt upp, mér fannst sem ég heyrði hann segja: 4 kíló! Já, sæll! Kanntu annan? -- Við flugvöllinn var mig farið að verkja allnokkkuð í ökklann og varð að hvíla fótinn, fór að ganga. Blómasalinn áfram austur úr, fór á Flanir. Ég fór Hlíðarfót og gekk við fót, tölti inn á milli. Í lok hlaups var fóturinn hins vegar orðinn góður og ég gat hlaupið síðasta spölinn.

Mér skilst að þau hin hafi sprett úr spori, tekið fimm þéttinga og farið hratt. Við hittumst í potti og skröfuðum saman um stund. Hittum Kára óhlaupinn. Að því loknu var farið á Mimmann, enda Fyrsti Föstudagur. Þangað mætti dr. Jóhanna með Febrúarlöberinn, viðurkenningarskjal til handa hlaupara mánaðarins. Hann mætti hins vegar ekki á Mimmann og varð af verðlaununum - en mun geta nálgast þau í næstu hlaupum, sjái hann ástæðu til að mæta.

Í dag, laugardag, er hátíðisdagur. Ekki einasta er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, heldur á Formaður Vor til Lífstíðar sextugsafmæli. Er því ástæða til að bera höfuðið hátt og gleðjast. kv. ritari

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórt er spurt og bætifláki.

Aðalritari Samtaka vorra, sér ástæðu til að spyrja um undirritaðan í pistli föstudags. Ég hugsaði til ykkar með söknuði, þar sem ég sat á aðalfundi bankans. Fann að ég brann-innnanan í mér, eins og frambjóðandinn söng svo lipurlega hér um árið. Bæði var veður afar hagstætt og í mér mikið hlaupagalsi. Reyndar venju fremur mikill. Ég verð þó að nefna, að milli lína Aðalritara virðist mér hans feiginleiki falinn, vegna fjarveru minnar. Það er eins og hlaupið hafi verið honum miklu meira að skapi fyrir vikið. En það háttalag hans að vera ætíð síðastur, fer nú brátt að verða sérstakt rannsóknarefni. En þar liggur kannski hundur grafinn; það er enginn með honum þarna á lengri endanum, og því vitum vér ógjörla hvað hrjáir; táin, ökklinn, belgur, eða blómasali. Já, stefin eru mörg, en svarið eitt. Það er að hlaupa.  

Benedikt (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband