Fimm þéttir, traustir hlauparar

Fimm af traustustu hlaupurum Hlaupasamtaka Lýðveldisins mættu til hlaups á þessum sunnudagsmogni, þeir Magnús, Þorvaldur, Jörundur, ritari og blómasali. Þetta var fljótupptalið. Þeir létu ekki læti í veðri aftra sér frá sunnudagsspretti á aðventu, enda var veður í raun með ágætum, smágjóla við ströndina og hiti 7-8 stig. Þó skal áréttað, og raunar er það bara til fyllingar spádómi ritara fyrir hátíðirnar, að sumir hlauparar eru þungir á sér þessar vikurnar. Hver veizlan rekur aðra, menn ganga milli jólaboða og kunna sér ekki hóf þegar maturinn er þeim að kostnaðarlausu. Af þessum sökum voru bæði ritari og blómasali belgmiklir í dag og þungir á sér. Við vorum þakklátir fyrir hvað félagar vorir voru reiðubúinir að fara hægt yfir.

Rætt var um stöðu hlutabréfa í FL Group og horfurnar framundan, hvernig bæri að skýra hið mikla verðfall bréfanna, hvers vegna blómasalinn eða VB hefðu ekki varað menn við þessari vá. Eiginlega var öllum í hópnum sama nema blómasalanum, því hann einn á hlutabréf í FL af þeim sem hlupu. Einnig var rætt um nýjan byskup kaþólskra á Íslandi, svissneska varðmenn sem viðstaddir voru vígslu og svo Mölturiddara, þótti þetta athyglisvert.

Mikið var rætt um fjarveru Vilhjálms frá hlaupum. Heyrst hafði að hann væri upptekinn við álitsgjöf út um allt samfélag. Aðrir fullyrtu að honum væri haldið í æfingabúðum fyrir spurningakeppni sveitarfélaga í ríkissjónvarpi, og áherzla lögð á að halda honum fjarri mönnum sem hlypu frá Vesturbæjarlaug og væru vitlausari en allt sem vitlaust er, gætu aldrei sagt satt orð , færu ævinlega með staðlausa stafi eða hagræddu sannleikanum. Slíkur félagsskapur gæti bara orðið til þess að skadda minni Vilhjálms og valda honum erfiðleikum þegar í harðbakka slægi.

Við hlupum hefðbundinn sunnudagshring með nauðsynlegum stoppum til þess að hvíla belgmikla einstaklinga og leyfa hinum að létta á sér. Gerður studdur stanz í Nauthólsvík, en engin kom sagan. Því var haldið áfram í kirkjugarð, en lítið stoppað; áfram upp hjá Veðurstofu og niður í Hlíðar, yfir Miklubraut og á Klambratún. Einar spyr alltaf hver eigi hús við Rauðarárstíg sem hann hefur áhuga á, aðallega vegna bílaeignar viðkomandi. Honum var bent á að fara nú bara og skoða nafnskilti á hurðinni, en hann er of óframfærinn til þess að seðja forvitni sína með þeim hætti. Björn kokkur hjólaði framhjá okkur þarna og spurði hvort við værum gönguklúbbur. Aldeilis ekki, var svarið og skeiðað áfram á Hlemm og þaðan niður á Sæbraut.

Pottur var vel mannaður, bæði Mímir og dr. Einar Gunnar. Menn voru spurulir um hvað ritari væri með í vatnsflösku sinni, ertu með gin í tóníkk, var spurt. Nei, vatn. Hér kom sælusvipur á blómasalann: Nú langar mig í gin og tóníkk! Áfram rætt um áfengi og gizkað á hvenær heppilegt væri fyrir fólk að byrja að drekka. Helst eftir tvítugt var sagt. Einar var með tröllasögur um að hann hefði verið kominn hátt á þrítugsaldurinn þegar hann byrjaði. Hann var spurður hverju hann hefði haft áhuga á. "Bílum" sagði blómasalinn. Við Jörundur horfðum hvor á annan og hristum hausana.

Þegar við höfðum setið góða stund í potti kom kunnugleg fígúra hlaupandi út í pott: sjálfur Ó. Þorsteinsson óhlaupinn og mátti ráða af fyrstu orðum hans að veður hefði haft áhrif á ákvörðun hans um að mæta ekki: Var ekki ægilega vont veður? En svo kom í ljós að þessi einnar messu maður var að framfylgja föðurlegum skyldum sínum í Neskirkju vegna fermingar á næsta vori. Hann sagði að brunahringing morgunsins hefði snúist um veðurhorfur og veðurspá, enda væri Vilhjálmur Bjarnason einhver veðurhræddasti maður sem hann þekkti. Nú var upplýst um helztu kirkjugesti, enda var margt ágætisfólk að kirkju á þessum degi. Hann kvaðst hafa fengið margar fyrirspurnir frá grandvöru fólki um það hvort VB væri kominn með eigin útvarpsstöð. "Nú, hvers vegna...?"  Jú, það má ekki opna fyrir útvarp eða skruna milli stöðva, alls staðar er Vilhjálmur í ádíens eða álitsgjöf. Aftur rifjaður upp samanburður milli flugtíma Minister ausser Dienst og útvarpstíma Vilhjálms. Að venju langur persónufræðikafli og skrafað um marga þjóðþekkta einstaklinga, sumir með skrautnefnum.

Kvartað var yfir að Fyrsti Föstudagur féll niður s.l. föstudag, enda hvorki próf. Fróði né ritari viðstaddir. Athuga má næsta föstudag hvort orðið geti af heimsókn á Mimmann.

Nú er ritari kominn í jólafrí og mun mæta samvizkusamlega til hlaupa fram yfir áramót og vinna gegn framgangi bumbunnar. Sjáumst á morgun stundvíslega kl. 17:30. Kveðjur, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrsti föstudagur féll ekki niður

Við vorum þar. Hvar voruð þið?

Jóhanna (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 00:07

2 identicon

Þetta hljómar furðulíkt því sem sagt var í sjónvarpsauglýsingu um daginn: Júdas, við erum hér! Hvar ert þú? Er þetta nokkuð hugsað þanninn? Ritari.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband