Stórhríð á aðventu

Fimmtudagar eru einnegin hlaupadagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins og skal af þeirri ástæðu greint frá því helzta er gerðist á þessum degi. Alla jafna hefur ritari ekki tamið sér að hlaupa á fímmtudögum, því að þá heldur hann til gufubaða í iðrum Stjórnarráðsins, þar sem vísir menn ráða ráðum sínum og yrkja mönnum örlög. Nema hvað í dag var hann mættur heima heldur snemma, og gæti hafa átt þess kost að mæta til hlaups, ef ekki hefði komið til hávær krafa á heimilinu um að farið yrði til útvegunar kosts fyrir kvöldsnæðing. Vana sínum samkvæmur lét hann til leiðast að fara að vilja konunnar sem stjórnar lífi hans, enda veit hann að bræður hans eru sammála um að það er sársaukaminnst og affarasælast, stýrði knerri sínum á fund kaupmanna og höndlaði inn það sem á vantaði til að kvöldverður mætti fram fara með sóma. Af þessari ástæðu komst hann ekki til hlaups í kvöld að heldur. En mátti ekki við því að missa af hreinsun hins ytri manns og mætti af þeirri ástæðu til Laugar. Hafandi barist gegnum snjóstormi, er brast á fyrirvalaust, komst hann í sinn pott. Þar sat hann og lét snjódrífurnar dynja á sér - þessi sérstæða tilfinning að búa á Íslandi og vera pottormur: snjórinn fellur allt í kringum mann, en skrokkurinn hvílir í heitri laug. Yndislegt.

Nema hvað, þegar ég kem upp úr finn ég Eirík hlaupagarp aðframkominn í Móttökusal. Var hann kominn af hlaupi ásamt Þorbjörgu, Margréti þjálfara og fleira fólki, og virtust þau öll aðframkomin. Ég innti hann frétta af hlaupi, hann sagði að það hefði verið erfitt, veðrið hefði lamið þau í framan frá fyrstu stund og erfiðleikum var háð að rata rétta leið sökum óskyggnis.

Eigi er á það kosið að allir komist í Fyrsta Föstudag sökum mikilvægra embættisverka - en ég óska yður engu að síður góðrar stundar á morgun - og góðs hlaups. Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband