Hvað gengur mönnum til?

Ritari var seinn fyrir í dag sökum brýnna embættisverka í Lýðveldinu og missti því af hlaupi með félögum sínum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. En trúr venju sinni mætti hann til Laugar kl. 18:15, og brá mjög við að sjá í Móttökusal þau Helmut og dr. Jóhönnu, Magnús Júlíus og próf. Fróða. Öll teygjandi skanka í allar áttir. Fátt varð um svör þegar spurt var hvar ég hefði verið, en um  þetta leyti sá ég hvar frændi minn og vinur, Ó. Þorsteinsson, hljóp tindilfættur framhjá glugga laugarinnar á leið í pott. Ég vakti athygli viðstaddra á þessu, og þá sagði Magnús íbygginn: fór ekki Ólafur Þorsteinsson í sjó í dag? Mér brá skiljanlega illilega við þetta - og hrópaði: Fóruð þið í sjó, skammirnar ykkar? Já, já, meira að segja dr. Jóhanna fór í sjó, var sagt. En svo sá ég á skelmislegum svip Magnúsar að verið var að hrekkja mig.

Ég hraðaði mér í pott til skrafs og ráðagerða. Fann fljótlega Ó. Þorsteinsson, en jafnskjótt og við höfðum komið okkur fyrir í potti Samtakanna, fylltist hann af erlendum konum og körlum sem virtust ekki átta sig á að þau væru að þrengja að menningar- og persónufræðilegri starfsemi Samtakanna. Ég innti menn eftir mætingu og hlaupaleiðum. Ólafur og dr. Friðrik fóru upp Hofsvallagötu, niður Túngötu, Aðalstræti, Hafnarstræti, Pósthússtræti, Tryggvagötu og vesturúr. Seljaveg, Framnesveg, og líklega Hringbraut, Kaplaskjólsveg og tilbaka til Laugar, eina 6 km. Geislaði frændi minn af ánægju yfir þessu velheppnaða hlaupi, sem allt var farið á lensinu. Aðrir fóru aumingja, hugsanlega eitthvað lengra. Þjálfari mættur, en ekki var upplýst hver fyrirmæli hans um hlaup voru þennan daginn.

Það fékkst upplýst að auk framangreindra hefði mætt til hlaups Þorvaldur, en ekki Einar óheiðarlegi. Ég fræddi viðstadda á því að Einar hefði nýlega keypt sér sjampóbrúsa fyrir 99 krónur - og að hann hefði samt þegið ókeypis sjampó hjá pensjóneruðum lækni í morgunlaugu á þessum degi. Það eru svona menn sem pluma sig! Próf. Fróði kvaðst vera hættur að borða, enda hefði ummálsaukning hans verið slík að hann rúmaðist ekki innan ramma spegilsins á heimilinu.

Lýst áhyggjum yfir fram komnum hugmyndum á Alþingi um að þrengja kost embættismanna á ferðum þeirra erlendis, fækka skemmtunum þeirra, auka leiðindi þeirra, og annað eftir því. Voru þessar hugmyndir taldar lítt til þess fallnar að efla hag Lýðveldisins.

Næstkomandi föstudag er Fyrsti Föstudagur desembermánaðar og er þá boðið til samdrykkju að Mímis. Eru hlutaðeigandi vinsamlega beðnir að gera viðeigandi ráðstafanir svo að gleðskapurinn megi fara löglega fram. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna er afar óvarlega farið af ritara. Leiðarlýsing á hlaupaleið gærdagsins er honum til lítils sóma. Reyndar mætti gaumgæfa það, hvort ritari eigi yfirhöfuð að hafa svo opið skáldskaparleyfi sem hann tíðum tekur sér. Sumir hlupu í gær með fullri reisn. Eins langt og augað eygði austur úr, gegn rigningu og slagviðri, og síðan Hlíðarfót og vestur og norður úr. Eigi skemur en tæpra klukkustundar hlaup. Vissulega á lensi, hluta leiðar, eins og stundum vill verða þegar farin er hringur, þótt óreglulegur sé. Sjá mátti í augum kvenna er við mættum, blik aðdáunar (þarna voru engöngu karla-menn á ferð) og hafa þær vart í annan tíma séð svo glæsilegan hóp; af tillitsemi nefni ég hér enginn nöfn, fyrir utan sjálfan mig. Það er á svona dögum sem skiljast sauðirnir frá höfrunum; suðaustan 18-30 metrar á sekúndu.

Benedikt Sigurðsson (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband