Sensitive Plant

Mér varð hugsað til þess hvort einhverjir Íslendingar hefðu náð í miða á tónleikana - gaman að Óli Palli komst inn. Hann verðskuldaði það.

Ég hafði efasemdir um að þetta gengi upp hjá þeim, virtist á Un-Ledded konsertinum að Page réði ekki lengur við rafmagnsgítarinn - það voru greinilega óþarfa áhyggjur ef marka má myndbrotin frá tónleikunum sem birt hafa verið.

Ég keypti miða á tónleika Plants í Laugardalshöllinni í apríl 2005, fyrir mig og 13 ára son minn og 17 ára dóttur mína. Þau hafa ótilneydd tileinkað sér ást á tónlist Led Zeppelin. Daginn sem tónleikarnir fóru fram gengum við í bæinn og hvað sáum við þar: sjálfastan Plant á rölti um Laugaveginn. Við vorum ekkert að ónáða goðið, en snerum við og römbuðum svo á hann í verzluninni Dogma, þar sem hann var hálfgert í felum fyrir menntaskólakrökkum sem höfðu uppgötvað hann. Hann skoðaði boli og við leituðum í paník að bréfmiða og penna til þess að biðja um eiginhandaráritun. Sonurinn var sendur fram til hans - og Robert brást vel við, spurði hann að nafni: Gunnar - ég get skrifað það, er það með einu eða tveimur n-um?

Á leiðinni heim sagði drengurinn: Þetta er einhver bezti dagur í lífi mínu! Um kvöldið var svo farið á konsertinn. Pabbinn var með þrettán ára klumpinn á öxlunum allt kvöldið svo að hann sæi það sem fram fór á sviðinu. En tók að sama skapi fullan þátt i gleðinni með öskrum og hoppum. Drengurinn fór lítillega hjá sér og sagði: pabbi, er ekki ástæða til að róa sig? En ég sagði: Gunnar, þetta eru rokktónleikar sem þú átt aldrei eftir að upplifa aðra eins aftur! Hér gildir að vera með!

Það var ekki þurr þráður á kroppi þessa hlaupara þegar út var komið.

Mér verður stundum hugsað til þess hvort Íslendingar hafi endurgoldið vináttuna sem þeim var sýnd þegar þessi mesta rokkhljómsveit sögunnar samdi lag um veruna á Íslandi: Come from the land of the ice and snow, from the midnight sun, where the hot springs blow, o.s.frv. Það hefur satt að segja stundum hvarflað að mér hvort ekki hafi verið ástæða til þess að sýna þakklæti okkar í verki með viðurkenningu af einhverju tagi, t.d. á Bessastöðum. En kannski er þetta bara ofstæki í brjáluðum og óforbetranlegum Zeppelinmanni.


mbl.is Flottasti söngvari rokksögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Skemmtileg saga. Nú er bara að vona að þeir fari á túr, fyrst þetta gekk svona vel.

Villi Asgeirsson, 11.12.2007 kl. 21:53

2 identicon

Þú spurðir hvort Íslendingar hefðu komist inn. Ég fór í gær og skemmti mér konunglega. Þvílík skemmtun!!!! Plantan fór hreinlega á kostum sem og þeir allir. Það var undarleg tilviljun sem réði því að ég fékk miða. Ég er námsmaður í Danmörku og það hafði hvarflað að mér að sækja um miða en þar sem ég vinn aldrei neitt í svona leikjum þá datt það uppfyrir. En einn morguninn er ég kem í skólann labba ég fram á grískan bekkjabróðir í uppnámi fyrir framan tölvuskjáinn, ég gat ekki orða bundist með að spyrja hvað amaði að. Hann tjáði mér að hann hefði verið dreginn út og fengið miða á Led Zeppelin. Ég samgladdist og kallaði hann helvítis fífl. Ég ætla að hann hafi lesið úr viðbrögðum mínum að mig langaði töluvert í miða, því nokkrum dögum seinna spurði hann mig hvort ég vildi með og ég þurfti að svara strax. AUÐVITAÐ KEM ÉG!!! þrumaði ég á hann. málið er að hann á grískan vin í London sem ætlaði með en taldi sig ekki eiga efni á miðanum, þar sem hann er að reyna fyrir sér sem tónlistamaður og ekki gengið vel. Semsagt ég og Dimitrios fórum í gær í þessa glæsilegu O2 arena og nutum veislunnar.

Hjörleifur Jónsson (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband