Glaðværð á laugardegi

Í gær, föstudag, átti ritari þess ekki kost að hlaupa með félögum sínum sökum anna, var að útrétta ýmislegt í aðdraganda jólaboðs að Holti, ekki meira um það. En mér var tjáð að sjö hefðu hlaupið: Kalli, Einar blómasali, Magnús, Þorvaldur, dr. Jóhanna, Rúna og Denni. Einnig var upplýst að rætt hefði verið um mat, en ekki gefnar neinar uppskriftir, hins vegar var lofað að send yrði út uppskrift að humarrétti. Hún er ókomin. Áhyggjur af því að hlaup yrði ekki fært í annála - þær voru óþarfar.

Ritari var hins vegar mættur í pott og átti þar góðar stundir ásamt með nokkrum félögum, vöngum velt yfir dagsetningu jólahlaðborðs að Hlíðarfæti - blómasalinn hefur pantað salinn hinn 2. desember þegar ritari hverfur af landi brott. Ekki vil ég verða til vandræða og heimta aðra dagsetningu, það er nánast sama hvaða dagur er nefndur, þeir eru allir erfiðir í desember sökum annarra boða og ferða.
Denni spurði hvort ekki væri öruggleg Fyrsti Föstudagur. "Tuttugasti og þriðji?" spurðu menn. "Tæplega." Nú hefur komið í ljós að kona sem frændi minn, Ó. Þorsteinsson, kallaði Merete, heitir í reynd Marentza, en rétt er að hún er færeysk. Ég velti fyrir mér hvort þessi ónákvæmni frænda sé vísvitandi, hann að prófa mannskapinn, hvort skilaboðin séu lesin eður ei. Maður veit það ekki.

Laugardagspottur var langur og letilegur. Ég tók eftir hlaupurum í öðrum potti, voru þar á ferð þær Ernstsdætur og systur, Martha og Bryndís, ásamt fleiri hlaupurum. Hún sló mig glaðværðin sem hvíldi yfir þessum hópi, einlæg gleði ríkti og brosið fór ekki af andlitum, eindrægni, samstaða, vinátta og innileg gleði yfir velheppnuðu hlaupi. Ég viðurkenni það að ég öfundaði þau eilítið yfir þeim þéttleika sem einkennir þennan hóp og mættum við margt af þeim læra, þessir einmana, vinalausu aumingjar sem eigum ekkert til annað en vinfengið við þær systur, öfund og afbrýðisemi, stöðugt baktal og einelti.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband