Sól - en enginn sjór

Þá veit ég próf. Fróði tekur gleði sína á ný, alla vega getur hann andað léttar, það var sumsé ekki farið í sjóbað í kvöld. Einhvern veginn var alltof kalt, það var fallegt veður, heiðskírt, en blés af austri (segir maður "blés af..."?), og einhvern veginn var ekki stemmning þótt dr. Friðrik væri mættur, en hann er helztur hvatamaður sjóbaða í hópi vorum, þ.e.a.s. eftir að próf. Fróði og Gísli rektor hættu að láta sjá sig að hlaupum. Það var vel mætt til hlaupa, Vilhjálmur, Þorvaldur í nýjum skóm, dr. Friðrik, Helmut, dr. Jóhanna, Einar blómasali, Rúnar þjálfari og svo kom Una á síðustu stundu. Einnig var stödd dr. Anna Birna og saman ræddum við áhyggjur okkar af mataræði ónefnds manns í Franz, sem hefur uppi áform um mikið matarsukk um jólin, en átak í framhaldi af því. Rúnar var beðinn að stytta mál sitt á stétt því öllum var kalt, það var gefin skipun um hlaup út í Nauthólsvík og spretti þar og út að Kringlumýrarbraut.

Í dag fór það svo að ég hélt mig með öftustu hlaupurum, Einari, Friðriki og Helmut, rætt var um flugvélar, en Einar er sérfræðíngur í flugvélum, hann var spurður um Fokkerinn og vélarnar sem flogið er með núna. Hann veit hvaða vélar öll flugfélög á Íslandi fljúga með, Friðrik kvaðst hafa farið til Bandaríkjanna 1978 og spurði hvaða vélar voru í umferð þá: Einar kom með svarið strax, DC 6, fjórir hreyflar. Fjórir til þess að taka hana í loftið, tveir til að fljúga henni. Slökkt á tveimur á meðan. Hvílíkur hvalreki og fróðleiksnáma blómasalinn er, með "hvalreka" er ég á engan hátt að vísa til líkamsbyggingar blómasalans og frábið mér fyrirfram hvers kyns athugasemdir hér að lútandi. En talandi um hvali: lásuð þið bloggið hans Kára í dag, það er skondin mynd þar?

Við dáðumst að veðrinu á leiðinni inn eftir Sólrúnarbraut, himinninn var fagur og ekki var enn orðið alveg dimmt, súlan hennar Jófríðar í Viðey sást nokkurn veginn. Inni í Nauthólsvík urðum við að afsaka okkur þar eð sum okkar voru tímabundin og urðu að svíkja, fórum Hlíðarfót, en lofuðum á móti að taka spretti, og stóðum við það, vorum m.a.s. byrjuð á sprettum á Flugvallarvegi. Framhjá Loftleiðahóteli þar sem frú Merete Poulsen býður upp á ljúffengt jólahlaðborð. Rákumst þar á Vilhjálm og Þorvald og fylgdum þeim smáspöl. Þeir fóru nokkuð hratt yfir og hurfu svo undir Bústaðaveg, en við fórum hjá höll Gvuðsmanna, ég, dr. Jóhanna og Helmut, ræddum veikindi próf. Fróða, en dr. Jóhanna umgengst hann daglega og fylgist með honuml, en kvaðst forðast að ræða við hann um heilsufarið. Líklega verður einhver góður maður að fara að hringja í hann og athuga hvað stendur í vegi hlaupa.

Hlaupið var að öllu leyti hagstætt og fór vel með okkur, þótt kalt væri í veðri. Við töltum tilbaka til Laugar þar sem við hittum Magnús, sem var of heilsulaus í dag til að hlaupa. Teygt, farið í pott og svo fór ritari að telja dósir með sunddeild KR.

Nú líður senn að því að yfir okkur hrynja boð af öllum stærðum og gerðum, en reynum samt að halda haus og mæta til hlaupa. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband