Kærleiksheimilið

Freud sagði það að fyrstu fimm ár mannsævinnar væru mikilvægustu mótunarárin, þá væru sett þau mörk á mannssálina sem upp frá því væru ekki burtu máð. Allt sem gerðist eftir það væri endurspeglun hinnar fyrstu meitlunar atgervisins og skaphafnarinnar.

Allir sem mig þekkja og umgangast vita að ég er beygður og bugaður maður. Brotinn, vesæll, vinafár, ef ekki beinlínis vinalaus. Það var ekki alltaf þannig. Ég átti sólskinsríka æsku, var glatt barn, eðlilegt, átti fjöld vina og yfir endurminningunni hljómar söngrödd söngdrottningar Íslands um alla tíð, Ellýjar Vilhjálms. Þegar ég var fimm ára eignaðist ég fallegt þríhjól, þetta var fallegasta þríhjólið í götunni, með marglitum plastböndum út úr handföngunum. Ég var mjög stoltur af þríhjólinu, það var mjög drifmikið, eins og það var kallað í þá daga. Það fór hikstalaust í gegnum alla drullupolla, allar brekkur og allar ójöfnur.

Nú bjó ég við þær aðstæður, sem víða þekktust, að ég var umkringdur ættingjum, umfram allt bræðrum. Að mörgu leyti var ég stoltur af bræðrum mínum, þeir voru allir stærri og sterkari en ég, en dugðu illa til götubardaga sem gjarnan brutust út í Mosgerðinu, kannski meira um það seinna. Þó sættu þeir lagi, á einn eða annan hátt, að níðast á yngsta bróðurnum: mér.

Ein helzta aðförin að mér fimm ára gömlum var að grípa þríhjólið mitt fína og renna sér á því inn eftir steyptri stétt heim að húsi okkar sem faðir okkar hafði byggt. Gerðu menn þetta til þess að auka sér leti og létta sér ferð heim í hús að næla sér í næringu. Með tímanum hafði þetta þau áhrif að þríhjólið fallega var ekki svipur hjá sjón, plastböndin slitin, hjól og legur að slitna svo að hjólið fór allt að jagast til og endaði sem óttalegur garmur; eitt sinn gómaði faðir minn einn skemmdarvarginn, síðar ónefndan aðstoðarskólameistara ungdómsakademíu við Hagatorg, hellti sér yfir hann og spurði: Og ertu svo borgunarmaður fyrir skemmdunum sem þú hefur valdið á þessu ágæta þríhjóli? Fátt varð um svör, sem von er, enda er téður skólamaður að því leyti ólíkur okkur frændum Ó. Þorsteinssyni og Ó. Kristjánssyni að honum svipar meira til sveitamanna, meðan við frændur erum synir borgarinnar og fáum heimþrá ef leið okkar liggur fyrir einhverja slysni austur fyrir Snorrabraut.

Nú á efri árum verður mér æ sem oftast hugsað til þessara ára og þeirra varanlegu menzla sem mér voru ásömkuð af illri meðferð á því tæki sem mér þótti vænst um á þessum árum. Mér finnst mikilvægt að eiga þess kost að fá útrás fyrir því sem hefur þjakað mig öll þessi ár og getur útskýrt hvers vegna ég er það ólíkindatól sem góðir menn hafa bent á að ég er. (Finnst ykkur eins og mér að inntak eða merking orðsins "útrás" hafi breytzt?)

Meðan ég man: maður nokkur drykkfelldur var stöðvaður í þriðja skipti ölvaður á bíl sínum. Löggi gerði honum ljóst að nú væri komið að stórum ákvörðunum: hætta að drekka eða hætta að keyra, hann fengi tveggja daga umþóttunartíma. Maðurinn orti:

Eilítið ég á mér finn,
ekki er það meira.
Ekki á morgun heldur hinn
hætti ég að keyra.

Til samanburðar, hin vísan, um manninn sem var stöðugt drukkinn, kom heim til konu sinnar á laugardagskvöldi drukkinn, og hún setti honum úrslitakosti: nú verður þú hættur að drekka á mánudagskvöld, annars fer ég.

Eilítið ég á mér finn,
að mér setur kvíða,
ekki á morgun, heldur hinn,
hætti ég að drekka.

Hún er eiginlega betri þessi.

En að atburðum kvöldsins, ég komst ekki í hlaup vegna embættisverka í Lýðveldinu, og veit að svipað var ástatt með blómasalann, en mættir voru Helmut, dr. Jóhanna, Eiríkur, Björn, bifreiðarstjórinn og einhverjir fleiri. Ég mætti í pott, þangað mættu framangreindir, auk blómasala og aðstoðarmeistara ungdómsakademíunnar nýskorinn og á batavegi, og svo dr. Einar Gunnar, velunnari Hlaupasamtakanna. Var þar legið í góða stund og rætt um þá atburði sem framundan eru, einkum þó jólahlaðborðið að frú Marentzu n.k. sunnudag. Ritari getur staldrað við í 15 mín. - er á leið utan til mikilvægra starfa í þágu Lýðveldisins. Útlit er fyrir góða þátttöku, viðstaddir hugðust taka með sér fjölskyldumeðlimi, enda kvað vera útbreiddur áhugi fyrir því að berja augum ýmsa kynlega kvisti Hlaupasamtakanna, svo sem blómasalann, ritarann, Kalla kokk, Bjössa kokk, Magnús, Þorvald, og þannig má lengi áfram telja. Svo sem kunnugt er tilkynnti Einar að verðið væri 3.700 kr. ÁN AFSLÁTTS, gengið var á hann um það hvort afsláttur væri inni í myndinni - hér færðist blómasalinn undan að svara og virtist ekki hafa mikinn áhuga á að auka velferð Hlaupasamtakanna með því að berjast fyrir afslætti hjá frú Marentzu.

Jæja, við hittumst vonandi að hlaupi á föstudag, og svo aftur á sunnudagsmorgun, stutt hlaup í aðdraganda jólagleði á hinu hamingjuríka kærleiksheimili sem rekið er að Vesturbæjarlaug. Ritari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband