10.10.2007 | 21:04
Fjandinn hleypur í Gamalíel
Miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa. Ritari var búinn að lofa Gísla góðu, löngu hlaupi og sjóbaði. Mikið hefði nú verið gaman að geta nartað í forskot prófessors Fróða - einkum nú þegar hann er slasaður og fær sér enga björg veitt og ekki væntanlegur til hlaupa næstu þrjá mánuðina. Smátt og smátt má hala inn sjóbaðspunkta og fá ónefndan íbúa í Kópavogi til þess að byrja að svitna af ángist. En af þessu varð ekki, því miður. Ykkar maður var búinn að pakka niður í hlaupatöskuna, gefa síðustu leiðbeiningar um niðurlagningu flísafúgu og stefndi út úr húsi. En þá sló hann sú hugsun að hann hefði skyldum að gegna við fleiri en hlaupafélagana, staldraði við, lagði niður hlaupatösku, sneri við, fór inn í eldhús, á hnén og byrjaði að gluða út fúgujukki. Á því gekk þar til klukkan var langt gengin í sjö - þá loks datt inn hlé og færi gafst á að fara til Laugar.
Á leið í bíl mínum suður Hofsvallagötu tók ég eftir hópi fólks sem hljóp við fót, kannaðist við suma. Ég hraðaði mér í útiklefa og skveraði mér af, gekk til potts. Hitti þar fyrir Gísla og Magnús, þeir sýndu útskýringu minni á fjarvist mikinn skilning og töldu að ég hefði nælt mér í prik í æðra stað. Síðan voru sagðar sögur af mönnum sem fara til vistar í efra, en sæta misjöfnu atlæti. Magnús kann mikið af slíkum sögum, enda vel tengdur. Ég sagði þeim söguna sem prof. dr. Gunnar Helgi Kristinsson kann betur en ég, nefnilega að í helvíti annist Englendingar matargerðina og Norðmenn skemmtiatriðin. Einhverra hluta vegna kætti þessi saga Gísla meira en aðra viðstadda og heimtaði hann skriflega staðfestingu.
Svo birtist fólk í potti sem upphóf leiðindaumræðu um hlaup, vegalengdir, hraða og annað í þeim dúr, ritari gafst upp á leiðindunum og lét sig hverfa af vettvangi. Hann hitti fyrir Birgi jóga og heyrði þar að borist hefði í tal á hlaupum að það þyrfti að koma á framfæri upplýsingum hlaupalegs eðlis. Nefnt var blogg Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Var þá sagt: Nei, er það mögulegt, er nokkur ástæða til að skemma pistla ritara með hlaupaupplýsingum? Af þessu tilefni vill ritari taka fram að hann er auðmjúkur erfiðismaður, þræll og þjón Hlaupasamtakanna og kemur á framfæri öllum þeim upplýsingum er lúta að helztu iðju félagsmanna: hlaupum. Ef menn vilja viðhafa sérstakar ráðstafanir vegna Áramótahlaups þarf ekki annað en senda línu eða setja inn athugasemd við pistil.
Fullyrt er að Neshópur sé að hrynja úr öfund yfir þeim framförum í atgervi og afstöðu sem Hlaupasamtökin hafa sýnt, flótti sé brostinn í liðið og flestir á förum yfir til Hlaupasamtakanna. Deilt er um hvort það er vegna þess að þjálfunarprógrammið er betra í Vesturbænum eða hvort fólkið þar er einfaldlega skemmtilegra. Á föstudaginn kemur í ljós hverjar heimtur verða þegar Fyrsti Föstudagur verður haldinn í fyrsta skipti í langan tíma - gaman væri ef lasburða prófessorar og háls-, nef- og eyrnalæknar létu sjá sig, þeir sem lengi hafa lýst með fjarveru sinni.
Í gvuðs friði, ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.