Eygðu góðan dag...

Í morgunpotti hitti ritari fyrir þau heiðurshjón frú Línu og Magnús. Hann rifjaði upp tíma Magnúsar í hálfu maraþoni 18. ágúst s.l., 1:46:26. Magnús var alveg hissa, hélt hann hefði farið þetta á rúmum tveimur tímum. Lína var ánægð með sinn mann og sá að það var alveg þess virði að reka hann út að hlaupa öðru hverju. Svo hurfu þau á braut og Lína kvaddi með orðunum: Eigðu góðan dag! Þótt vel væri meint kveðjan sat hún nokkuð í ritara og honum varð bæði hugsað til ættjarðarinnar og fjallkonunnar. En þegar hann kom í hinn margfróða morgunpott, lærðan og lýrískan, var þessi kveðja útskýrð fyrir honum: hún sagði ekki "eigðu góðan dag" - heldu "eygðu góðan dag" í merkingunni: vonandi sérðu ljósið í dag. Ekki fannst mér þetta verra en hvað annað og gekk glaður í bragði til starfa minna í Lýðveldinu í dag.

Miðvikudagur, langt hlaup, mikil þátttaka. Búið að boða fund í barnapotti. Svo virðist sem fundarboð hafi fælt frá og fáir mættir: dr. Friðrik, Gísli, Ólafur ritari, Haukur, Þorvaldur og Benedikt. Guðmundur úti á stétt. Við sáum Pétur guðfræðiprófessor standa úti á plani og ræða þar við mann klæddan í ljósan rykfrakka með svartan, barðamikinn flónelhatt á höfði. Höfðu þeir staðið þar drykklanga stund í djúpum samræðum um æðri efni þegar e-r uppgötvaði að hattprýddi maðurinn var sjálfur Vilhjálmur Bjarnason. Loks kom að því að er honum þóknaðist að færa persónu sína nær brottfararsal VBL kom í ljós að VB var án hlaupafatnaðar. Inntur eftir þessari anómalíu kvaðst hann hafa ruglast á dögum, hefði átt að vera á fundi í HÍ - og því ekki tekið hlaupafatnað með til höfuðborgarinnar. Nú gerðist ritari forvitinn um hattinn og spurði: Er þetta Stetson-hattur? Hér skipti Vilhjálmur litum og jós óbótaskömmum yfir ritara, þótt ekki hefði hann gengið svo langt að kalla hann Framsóknarmann - en líkast til öll önnur skammaryrði þjóðtungunnar voru notuð til þess að útmála ritara sem argasta aumingja, drullusokk og fávita. Svo sagði VB: "Þetta er Borsolino-hattur." Þegar ritari vildi vita úr hvaða forlátaefni svo ágætur hattur væri gerður, varð fátt um svör og Vilhjálmi datt ekki einu sinni í hug nafnið á skepnunni sem framleiddi hráefnið í hattinn - en úti á stétt kom einhver tilgáta um flónel eða flannel-ullarefni eða eitthvað í þá veru - en flottur var hatturinn, því er ekki að neita.

Lagt af stað í rigningarúða og samstaða um að fara í sjóinn - en stutt að öðru leyti. Menn fóru sér í engu óðslega, enda hlaupatímabilið búið og ekkert annað framundan en að hafa gaman af mislöngum hlaupum. Á leiðinni inneftir var rætt um margt fróðlegt er lýtur að þroska mannsins og því hvernig áhugamálin þróast eftir því sem líður á mannsævina. Hraut margt spaklegt af vörum þeirra dr. Friðriks og Gísla - enda menn margreyndir og fróðir.

Það gladdi okkur innilega að koma í Nauthólsvíkina og vita að Ágúst myndi ekki fara í sjóinn í dag. Þar var krani að hífa ýmis flotildi úr sjónum, en við gerðumst heimafrekir og heimtuðum okkar pláss í sjónum þennan dag: dr. Friðrik, Gísli og ritari skelltu sér í sjóinn og syntu rekspöl frá landi. Við ræddum það hver áhrif sjósund gætu haft á heilsu manns eins og ritara sem er nýstiginn upp úr flensu - sem fyrr fullvissaði doktorinn viðstadda um að sjósund væri bara til bóta fyrir veika menn. Ég er ekki frá því að hann hafi á réttu að standa. Hér komu fram hjá Gísla ýmsar framsæknar hugmyndir um tilbrigði við hlaup n.k. laugardag - og verður fróðlegt að sjá hversu til tekst.

Nú var snúið við - enda ástæðulaust að vera að sperra sig þegar hlaupatímabili er lokið. En viti menn - þar sem við skeiðum fyrir flugvallarendann mætum við tveimur syndaselum, þeim Magnúsi og Ágústi, engar skýringar fengust á seinkomu þeirra og mér var létt í geði er ég upplýsti Ágúst um að farið hefði verið í sjóinn og sjóbaði væri lokið þennan daginn. "Nei, nei - ég er á leið í sjóinn" æpti prófessorinn og vildi ekki hlýða á hverjir hefðu þegar farið í sjóinn. Benedikt snöri við með þeim Magnúsi og Ágústi (og á ég bágt með að trúa að hann hafi LÍKA beðið eftir að hann baðaðist) - Magnús fór Hliðarfót að ég tel - hinir fóru að sögn Stokkinn, um 16 km.

Við hinir fórum á góðu tölti tilbaka, tókum á leiðinni fram úr tveimur ungum konum sem hlupu á Ægisíðu - skyndilega vorum við komnir á blússandi fart og Gísli sagði: Hvað! voðalega erum við frískir í dag! Þá heyrðum við hlátrasköll að baki okkur - það var víst séð í gegnum þetta. Menn rifjuðu upp ýmis afrek eða áföll í maraþonhlaupum síðustu áratuga, var margt lærdómsríkt að hafa þar.

Aldrei þessu vant tóku menn sér góðan tíma í að teygja á stétt. Loks farið í pott - en þar var fámennt og varla stætt á því að taka stórar ákvarðanir um laugardaginn. Inni í brottfararsal birtist prófessor Fróði alblóðugur - hafði tekið enn eina flugferðina og skaðast stórlega, það er sannarlega skammt stórra högga milli í hópi vorum. Svo birtist Birgir ábúðar-, ábyrgðar- og ásetningsfullur - en laus við alla hlaupalöngun og vildi aðeins funda um laugardaginn. Honum var bent á barnapottinn, þar stæði enn fundur og þangað skyldi hann hraða sér. Ágúst sagður vera að undirbúa mikið ávarp - en áhyggjur af því að Ó. Þorsteinsson hygði á hefndir og jafnvel upphlaup á brottfararplani á hlaupadegi.

Næst: föstudagur, þá megu menn sjá fréttina úr Héraðsfréttablaði Vesturbæjarins um hlaupahátíðina Miklu. Vel mætt. Í gvuðs friði. Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband