Blóðug barátta um völdin

Blóðug valdabarátta geisar innan Hlaupasamtaka Lýðveldisins þessi missirin, ef marka má heimildarmann ritara, hinn viðkunnanlega og velkynnta geðprýðismann, frænda og vin ritara, Ó. Þorsteinsson Víking. Margir Vesturbæingar munu kannast við sýnina þegar þessi geðþekki reykvízki aðalsmaður í kynslóðir ekur um á kampavínslitri jeppabifreið sinni og lítur hvorki til hægri né vinstri, nema þegar landslög kveða skýrt á um það, númerið hefur fylgt ættinni frá því bílaöld hófst í Reykjavík, R-158. Aumingi minn hafði krækt sér í flensu í Finnlandi og ekki mætt til hlaupa um skeið, en tók þá djörfu ákvörðun að mæta til sunds í hádeginu í dag, hættandi á það að mæta Vilhjálmi Bjarnasyni, sem lætur óhlaupna hlaupara gjarnan heyra það óþvegið. Ekkert skammaryrði veit hann ljótara en "Framsóknarmaður". Ég beitti taktískri innkomu, fór fyrst inn og rakaði mig, kom svo út og fór í heitasta pottinn, þaðan í gufu; þegar ég sá silúhettu Vilhjálms ganga hjá baði, lammaði ég mér út í Örlygshöfnina þar sem félagar mínir sátu og ræddu málin, þessir helztir: Ó. Þorsteinsson, Ó. Gunnarsson, Jörundur, Mímir, dr. Einar Gunnar Pétursson og dr. Baldur Símonarson.

Það bar sumsé helzt á góma að Ólafur Þorsteinsson telur öll teikn vera um valdabaráttu sem kraumar undir sléttu yfirborði kurteisi og gagnkvæmrar virðingar sem hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins alla jafna sýna hver öðrum. Um þetta hélt hann ekki færri en tvær þrumandi ræður á leið hópsins frá Vesturbæjarlaug, en aðal ræðustaður er í Nauthólsvík. Þar lét hann ónefndan viðskiptafræðing fá það óþvegið fyrir að trana sér fram í héraðsfréttablaði Vesturbæjarins, þar sem hann var ýmist titlaður heiðursforseti eða formaður Hlaupasamtakanna, meðan hið rétta er að Ó. Þorsteinsson er réttkjörinn formaður til lífstíðar, að svo miklu leyti sem kosningar eru viðhafðar um nokkurn hlut. Er fáheyrt að maður með fasta búsetu í öðru sveitarfélagi fái þann sess sem gerðist í þessu tilviki og verður ekki lagt út á annan veg en grímulaus gjallarhornssýki og sókn eftir mannvirðingum innan Hlaupasamtakanna og stól formanns til lífstíðar.

Á góma bar einnig Hlaupahátíð sú sem stendur fyrir dyrum næsta laugardag og það áberandi hlutverk sem sumum hlaupurum er fengið - meðan öðrum (les: Ó. Þorsteinssyni) er alfarið haldið utan við. Allt ber að sama brunni: baráttan kraumar undir yfirborðinu.

Nú er að segja frá því að Ólafur frændi minn og vinur átti leið í Melabúðina í gær til þess að sækja sér og fjölskyldunni eitthvað í svanginn. Nema þegar hann á leið þar um rekur hann augun í Audi Quattro, kolsvartan innan sem utan, og númerið VB-158. Nú þurfti ekki lengur vitnanna við - hér lyktaði allt af samsæri svo hörðu og ósvífnu að okkar manni rann kalt vatn milli skinns og hörunds.

Nú sátu menn sem lamaðir í potti er þeir ræddu þessa stefnu sem mál eru að taka viku eftir Reykjavíkurmaraþon. Hver dúkkar þá ekki upp í potti nema Einar blómasali, með raksápu í eyrum og blóðugur um kinnina svo jaðraði við heimsókn á Skadestuen: var mönnum nú alveg lokið, og einhver sagði: Et tu, Brute! Hér var þá kominn enn einn erfðaprinsinn sem gerði ósvífið tilkall til embættis formanns til lífstíðar. Viðbrögð hins viðkunnanlega blómasala voru þess eðlis að hér var greinilega eitthvað blandað saman við.

Áfram rætt um samsæri og valdabaráttu. Upplýst að blómasalinn er nýr flugmaður í hópi vorum eftir að hafa gleymt keðjunni góðu í Öskjuhlíð s.l. mánudag, þrátt fyrir að dr. Friðrik hefði hrópað upp: "Passið ykkur á keðjunni." Okkar maður tók flugið og skall með miklum dynk í jörðina, og bættist þar með í hóp Ágústs, Ólafs ritara og Þorvalds. Ekki munu þó hafa verið uppi hugmyndir um krossfestingu blómasalans.

Lýst yfir áhuga á að ganga á Fimmvörðuháls við tækifæri. Á morgun er væntanlega hefðbundið mánudagshlaup, ritari mun reyna að mæta ef heilsa leyfir og fara Aumingja. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband