Farið hægt í norðangarranum - og núllstilling

Miðvikudagshlaup var óvenjulegt að því leytinu til í þetta skiptið að meginþorri hlaupara fylgdi hlaupaáætlun Nagamura, AKA Ágústs Kvarans. Það var lokaundirbúningur fyrir maraþonhlaup og aðeins hlaupnir 5 km, sem með lítilsháttar ágústínskri styttingu urðu um 8 km þegar upp var staðið. Einhverjir munu þó hafa farið eitthvað lengra, þeir sem ekki hyggjast fara heila porsjón í maraþoni á laugardaginn. Helstu staðreyndir þessar, mættir: dr. Friðrik, Vilhjálmur, Flosi, Gísli, Ágúst, Sjúl, Birgir, Eiríkur, Jörundur, ritari, Guðmundur, Magnús, Þorvaldur og sonur dr. Friðriks, ég man ekki nafnið, biðst forláts. Vilhjálmur í góðu skapi og var enginn kallaður framsóknarmaður fram að hlaupi. Í brottfararsal söfnuðust hlauparar og voru bara spenntir. Enn voru fimmtán mínútur í hlaup og þarna sátum við og fögnuðum hverjum nýjum hlaupara er bættist í hópinn. Það flugu glósur og kerskniyrði, en allir gengum við heilir og ómeiddir út á brottfararplan. Norðangarri, ca. 7 m/sek, en þó ekki kalt, líklega um 13-14 stiga hiti.

Það var fyrirfram ákveðið að fara stutt og hægt - ekki þörf fyrir Garmin-tæki. Samt gátu verstu nördarnir ekki skilið græjurnar eftir heima, laumuðust til þess að stilla á tungl. Kvartað yfir stuttleika síðasta pistils, prófessor Fróði var rétt búinn með 1/4 af poppinu þegar lestri var lokið - fjölskyldumeðlimir litu hver á annan - "hvað gerum við nú?, tala saman?" - fleiri raddir um viðlíka vanda á heimilum manna. Ritari baðst velvirðingar á þeim tæknilegu mistökum er urðu við ritun s.l. mánudag, þá hafði hann í þágu persónufræði og sannleika, hafandi lamið takkana í á aðra klukkustund, ræst netvafrann og gerði ráð fyrir að hann opnaðist í nýjum glugga, en það varð náttúrlega ekki þannig. Netið ruddist inn yfir margorðan og ítarlegan pistil ritara, þurrkaði hvert einasta orð út - margar skemmtilegar persónulýsingar og lýsingar á spaugilegum atvikum og uppákomum - frústrasjónin algjör, "ekki nenni ég að skrifa þetta upp á nýtt!" hugsaði ritari. Setti í staðinn á blað stutta frásögn í skeytastíl og vísu með. Hvað um það, maður lærir vonandi eitthvað á þessu.

Þeir Gísli og Flosi eru gamlir í hettunni, þeir eru þeirrar skoðunar að menn séu mættir til hlaupa til þess að hlaupa, en ekki kjafta. Áður en maður vissi af voru þeir komnir fyrir pylsuskúrinn, en við Gústi og fleiri stóðum enn á brottfararplani og ræddum málin. "Þeir eru farnir!" hrópaði einhver, og við tókum viðbragð, tættum af stað. Nú eru hlauparar komnir inn á kolvetnahleðslufasa undirbúnings fyrir maraþon og allflestir þungir á sér. Stirðir, flestir kveinkandi sér undan meiðslum í hásinum, mjöðmum, kálfum, baki - Gísli sagði að það væri eitthvað undarlegt ef allir væru meiðslalausir er drægi nær maraþoni, aldrei hefði hann hafið maraþon nema heyra kvartanir frá öllum um alls kyns kárínur. Flosi gladdist er hann heyrði hversu var komið heilsu manna og kvaðst sannfærast enn og aftur um gildi kjörfrasa Hlaupasamtakanna - Okkur líður bezt illa.

Jörundur rifjaði upp grasekkilsstand Birgis. Hann sagði okkur frá þeim grun sínum að Birgir sinnti ekki fyllilega foreldrisskyldum sínum meðan á þessu ófremdarástandi stæði, börnin virtust síhungruð - og kötturinn eilíflega vælandi, þessi lati köttur, sem aldrei nennir neinu! Þó svo hann væri sveltur og nánast hungurmorða, dytti honum ekki í hug að rölta niður í fjöru og veiða sér til matar.  

Það var farið afar hægt - þrátt fyrir þetta skiptist hópurinn fljótlega í tvennt. En að þessu sinni voru óvænt bandalög uppi - Gísli, Ágúst, Flosi, en að hinu leytinu Jörundur, Sjúl, Vilhjálmur. Aðrir flæddu þar á milli og flutu línur fram og tilbaka alla leiðina. Menn voru þungir og stirðir á sér - en það er víst ekkert óeðlilegt þegar svo nálægt er komið hlaupi og kolvetnahleðsla hafin. Rætt um hverjir færu hvað á laugardaginn, hvaða tíma stefnt væri að - ýmis ráð gefin um undirbúning, matarfræðilegs, hlaupalegs og andlegs eðlis. Áréttað að hlauparar Hlaupasamtakanna hafa yndi af hreyfingu í bland við strákslegan og galsafenginn félagsskap og voru margir sem töldu það innsta eðli þessara samtaka, auk einsemdar og þjáningarástar.

Skeiðað niður að rampi í Nauthólsvík. Þessir rifu sig úr fötum og böðuðust að fullu: Ágúst, Flosi, dr. Friðrik, Eiríkur,  Birgir, Gísli og ritari. Við Ágúst syntum út að flotbryggju og klifruðum upp (þurfti krafta í kögglum) - lituðumst um yfir Flóann og hentum okkur svo í svala Atlanzhafsölduna. Hinir syntu svolítinn spöl í átt til Bessastaða, en hurfu frá því ráði að heimsækja Il Presidente - komu tilbaka. Um svipað leyti sáum við til fólks sem gekk niður að ylströndinni, heil hersing, og hafði einhver á orði að þar færu sjósundssamtök Lýðveldisins. Áður hafði Jörundur beðið menn að fylgjast vel með því hvort e-r kæmu utan af Faxaflóa syndandi sem væru til þess fallnir að varpa rýrð á sund Hlaupafélaga. Sjósund var hressandi, sjávarhiti 8,5 gráður, og allir líkamlegir kvillar hurfu eins og dögg fyrir sólu. Menn gengu brattir af rampi með helztu græjur núllstilltar.

Við klæddumst í horninu hjá Siglingaklúbbnum, þar var gassandi hiti. Þar var ræddur ýmis dónaskapur sem ekki verður hafður eftir á bloggsíðu virðulegra samtaka, og öllu var jafnóðum snarað á latínu, enda læknar og lærðir menn útskrifaðir úr latínudeildum Reykjavíkur Lærða Skóla viðstaddir. Er hér komin sönnun þess að bloggsíðan sætir gæðatryggingu er uppfyllir alla helztu siðferðiskvarða sem þekktir eru á byggðu bóli. Við vorum gizka ánægðir með okkur er við héldum af stað af nýju, Ágúst spurði hvort ekki ætti að fara Goldfinger, alla vega 69 - þegar hann fann litlar undirtektir sagði hann - orðinn vonlítill - "við hljótum að geta farið Stokkinn?" - en menn voru einbeittir, nei, hér yrði engin vitleysa höfð í frammi. Farinn Hlíðarfótur. Meira að segja þá sagði Ágúst "eigum við ekki að fara Stíginn í Öskjuhlíð?" - menn létu sem þeir heyrðu þetta ekki. Stefndu áfram á Hlíðarfót - þá hrópaði Ágúst í angist - "en..., það er malbik!!!" - "já", sagði Jörundur ísmeygilega, "en engin lúpína", og glotti eins og Skarphéðinn á Þingvöllum. Hér kviknaði umræða um undirbúning fyrir maraþonhlaup, hvað á að éta, hvað á að drekka? Carboload var dagsskipunin og nefndar allar ingredíensur í slíkum kúr. Óvænt skaut ónefndur læknir inn ábendingu um að hann hefði aldrei náð betri árangri í löngu hlaupi en þegar hann innbyrti tvo bjóra kvöldið fyrir hlaup. Þetta var ekki takt við pólitíska rétthugsun hlaupara - og menn voru satt að segja eilítið slegnir út af laginu, en hristu svo af sér þessa ábendingu sem kom á skakk og skjön við alla kúra og áætlanir Nagamúra.

Nú brá svo við að við fórum ekki um Valsvöll enda ekki stætt á því sem KRingum - það yrði bara hlegið að okkur. Fórum þess í stað inn á svæði sem heitir "Private Property" og var það ágæt hlaupaleið, stígur alla leið upp á Hringbraut - og þaðan vestur úr. Á aðkomuplani var Kristján skáld Hreinsson, góðvinur Hlaupasamtakanna. Hafði hann góð orð um viðleitni okkar og var fluttur kveðskapur og þjóðlegur fróðleikur þarna á tröppunum eins og við var að búast. Birgir sýndi nýtt reiðhjól sem framleitt er í Kína úr títani eða einhverju álíka og þykir sérlega módern því maður finnur fyrir öllum örðum og ójöfnum (hvað er spennandi við það? spyr sá er hér pikkar). Teygt, spjallað, farið í pott. Þar sátum við góða stund og gerðist það helzt að Eiríkur var vígður inn í félagsskapinn með Vassily-brandaranum. Sumum fannst að vísu ekki við hæfi að segja brandarann í potti, eðlilegra hefði verið að segja hann í brekku, helzt í brekkunni á Álftanesi þar sem Geðlæknir Lýðveldisins sagði hann fyrst. En, ekki var seinna vænna að vígja svo ágætan hlaupara til virðulegra verka í hinum merku Samtökum. Enda Stórhlaup framundan, þar sem Eiríkur ætlar sér eigi ósmáan hlut.

Nú að því sem skiptir máli. Þeir hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem EKKI ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni mæta sem fyrr n.k. föstudag til hefðbundins föstudagshlaups kl. 16:30, og fara sinn kúrs. Aðrir eru í hvíld fyrir hlaup, en auglýst hefur verið að pottsamkunda verði í Vesturbæjarlaug upp úr kl. 17 á föstudag til þess að stilla saman strengi og skapa stemmningu. Síðan er mæting að morgni laugardags kl. 8:00 í útiskýli VBL, þar fer fram klæðning, smurning og pepping. Þaðan ganga síðan tvær sveitir Kommúnista til maraþonhlaups, en þær eru svo skipaðar: Kommúnistarnir I: Sigurður Júl., Birgir, Eiríkur; Kommúnistarnir II: Jörundur, Andreas, Ólafur og Haukur. Þeim möguleika var velt upp að mynda þriðju sveitina, Kommúnistarnir III: Vilhjálmur, Einar blómasali og Magnús, hlaupandi hálft maraþon, en undirtektir hjá Villa voru vægt til orða tekið - dauflegar.

Hvað um það, framundan er hvíld og andleg uppbygging. Á laugardaginn rennur upp stund sannleikans - Eiríkur er að fara sitt fyrsta maraþon og brýnt að hann finni hvatning félaga sinna. Á hjólum verða Gísli, Ágúst, Sigurður Gunnsteinss., og Einar blómasali, flytjandi drykki, orku, smurning, og hvatning, og er þeirra að vænta hvar sem við verðum. Gangi oss okkur öllum vel. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband