Líffæraverkfall við Elliðavatn

Hlaup dagsins var óhefðbundið, alla vega hvað þennan hlaupara varðar. Búið var að gefa út tilkynningu um 35 km hlaup í upptakti fyrir Reykjavíkurmaraþon. Þegar upp var staðið mættu þrír hlauparar til boðaðs hlaups. ritari, Sjúl og Birgir. Sjúl nýbúinn að fara 35 í Grímsnesinu og Birgir fús til þess að gera tilraun um mannslíkamann sem gekk út á að leiða í ljós hvað hann þyldi af hlaupum án þess að hafa orkuvökva með sér. Lagt í hann kl. 16:35, veður gott, 15 stiga hiti og léttskýjað.

Á leiðinni var aflað fregna af veizlunni miklu að Hesti í Grímsnesi um helgina hjá Sjúl og fjölskyldu. Þar hljóp semsagt Sjúl 35 km, einhverjir hjóluðu 10 km - aðrir gerðu minna. Síðan var slegið upp veislu og skemmtu menn sér vel lengi nætur.

Birgir talar mjög mikið - og hátt. Ekki gefur Sjúl honum mikið eftir, þótt á lágværari nótum sé. Ég held að nýtt samtalsmet hljóti að hafa verið sett, því að samtal féll ekki niður alla þá leið sem ég fylgdi þeim félögum, líklega eina 25 km. Við fórum hefðbundna leið inn Fossvogsdalinn, upp Elliðaárdal og að Breiðholtsbraut, þar undir og yfir í Elliðavatnshverfið. Um það leyti fór ég að finna fyrir þreytu í skrokknum og fór að hafa áhyggjur af leiðinni tilbaka. Þegar við fórum kringum vatnið byrjaði að rigna og var svalandi að fá úðann yfir sig. Tilraun Birgis gekk ágætlega og við náðum niður í Árbæjarlaug á skikkanlegu tempói. Þar splæsti Sjúl Powerade á línuna og viðurkenndi Birgir eftir á að það hefði bjargað honum að fá orkuna á þessum tímapunkti.

Við hlupum hjá félagsheimilinu hjá Rafstöðinni og sáum að verið var að sýna Dýrin í Hálsaskógi - Sjúl var með hugmynd um að við læddumst inn og kæmum inn í leikritið sem Kasper, Jesper og Jónatan úr Kardimommubænum - rifjuðum upp sönginn þeirra: Við læðumst hægt um laut og dal/og leyndar þræðum götur/á hærusekki heldur einn/en hinir bera fötur....

Er komið var í Fossvogsdalinn leyfði ég þeim að streyma áfram - ég varð að hvíla skrokkinn - einhvers konar líffæraverkfall var brostið á og líkaminn virtist ósáttur við að vera það flutningstæki sem honum er alla jafna ætlað að vera. Ég tók upp göngutakt milli þess sem ég reyndi að spretta úr spori þar til ekki varð lengra komist. Það voru vonbrigði að geta ekki lokið hlaupi á rífandi takti - og ekki gott að útskýra hvað gerðist hjá þessum hlaupara. En það verður að komast á hreint áður en lagt verður upp í heilt maraþonhlaup.

Félagar mínir voru enn í laugu er ég kom þangað - en engir aðrir hlauparar Hlaupasamtakanna og því ekki gott að vita hvað varð, ef nokkuð, úr hefðbundnu miðvikudagshlaupi.

Nú verður lagt í hann, farið á Mærudaga á Húsavík um helgina. Hlaupið í norðrinu. Kveðjur, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilldarpistill að vanda… langar að vita hver okkar hefði verið Kasper, hver Jesper, og hver Jónatan? Þú mátt líta svo á að líkaminn hafi verið að segja við þig… "þetta verður gott maraþon hjá þér 18. ág. nú verður þú að spara kraftana. Þökk fyrir að draga okkur í þessa unaðsskemmtan í undursamlegu hlaupaveðri.

kv,

Big

BIrgir Jóakimsson (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 00:34

2 identicon

Það er ekki spyrja að þessum kommunistum. Þeir standa sig vel. Bara staupa sig með orkugleði ( orkugeli). Ég mun styðja Ólaf i Glitnis Maraþoninu en Ólafur þú verður að spara powerið, engan bjór og góðan mat bara ávexti og grænmeti.

Afram Óli !!

Baráttukveðjur frá Kommunistum.

Einar Þór

Einar Þór Jónsson (IP-tala skráð) 30.7.2007 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband