13.7.2007 | 21:30
Vindlareykingar
Þema dagsins var vindlareykingar. Vilhjálmur Bjarnason lagði línurnar þegar í upphafi þegar hann gekk að Gunnlaugi Pétri og sagði: þú ert mikill lærdómsmaður úr því að Ólafur Grétar gat kennt þér vindlareykingar á ungum aldri. Gunnlaugur kom af fjöllum og var greinilega búinn að gleyma orðræðu fyrra árs um vindlareykingar. Ég rifjaði upp fyrir honum fyrstu kynni hans af launhelgum vindlareykinga í Rottuhúsinu á Hjarðarhaga 19 einhvern tímann 1968-69 og það kviknaði dauft ljós - jú, mig rámar í eitthvað í þessa veru.
Mætt til hlaupa á þessum fagra föstudegi: Ágúst, Jörundur, Birgir, Kári, Brynja, Magnús, Rúna, Vilhjálmur, Gunnlaugur Pétur og ritari. Góður, þéttur hópur. Vilhjálmur kvaddi þegar í upphafi - og virtist sáttur við að skilja við okkur. Ágúst var ánægður með sig, hann þakkaði ritara góð orð í sinn garð, lýsti yfir því að framkoma hans s.l. miðvikudag hefði haft tilætluð áhrif, brotið hlauparann niður, lætt inn samvizkubiti og skömm og verið hvati að löngu hlaupi á fimmtudaginn. Þetta hafi verið það sem vakti fyrir þjálfaranum. Það verði enginn góður hlaupari á því að sitja heima og vorkenna sjálfum sér. Vitnaði í Nagamura. Jörundur lýsti yfir samstöðu með ritara og þakkaði honum fyrir að segja sannleikann um próf. Fróða.
En Jörundur kom færandi með frekari upplýsingar. Hafði verið að hlusta á Úbbartið og heyrt þar kunnuglega rödd, félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, í debatt við Eyjajarl, sæúlf og útgerðarjálk, sem er nýbúinn að hirða Toyota-umboðið af fátækum Dönum. Og hvert var umræðuefnið? PÉÉNINGAR! PÉÉNINGAR! Var minnst á Hlaupasamtökin? Nei, aldeilis ekki. Var mætt til hlaupa að því loknu? Nei, aldeilis ekki. Hlauparar sem þannig hegða sér setur niður meðal félaga sinna og þurfa að bæta ráð sitt.
Geysilega stemmndur hópur, Birgir nýkominn frá Svíþjóðu, eitthvað hlaupið, en ekki skipulega ef ég skildi hann rétt. Veður eins og bezt verður á kosið - kjaftað fulllengi úti á stétt eins og menn væru ekki æstir í að fara af stað. Loks komst hreyfing á hersinguna og það var kjagað af stað. Forystu tóku Gunnlaugur, Ágúst og Ólafur ritari - og fljótlega bættist Birgir í hópinn. Við sáum ekki til hinna eftir það, nema hvað Magnús náði okkur Birgi einhvers staðar, líklega í Nauthólsvík. Einhverra hluta vegna duttum við inn í umræðu um áfengi, áfengisstefnu, aðgengi að áfengi - og fleira í þeim dúr. Upplýst að þessi umræða fari gjarnan af stað á föstudögum og virðist sem sumir hlauparar séu knúnir áfram af tilhugsuninni um bjórglasið sem bíður þeirra er heim verður komið. Sannarlega ekki íþróttamannslegt hugarfar - en svona erum við! Öðruvísi.
Það var hratt tempó á fremsta hópi, Gunnlaugur ólmur að taka sprett, Ágúst þreyttur og vildi fara hægt, við Birgir náðum að hanga í þeim, og síðar Magnús líka. Þeir komu gjarnan aftur og sóttu okkur hina lakari hlaupara. Ég færði í tal sjóbað, en fékk litlar undirtektir. Hefðbundið um Nauthól og Hi-Lux - sprettur upp brekkuna. Rætt um vindlareykingar, Birgir hafði fjárfest í Kúbuvindlum á leið til Svíþjóðar og taldi þá vera mjög til þess fallna að bæta heilsuna. Hér hafði ég dregist aftur úr og heyrði ekki hverjar undirtektir voru. En svo gerðist það að á þessum tímapunkti fann ég fyrir auknum krafti og gat vel fylgt eftir fremstu mönnum, skeiðað um Hlíðar, Klambra, Hlemm og út á Sæbraut, þá var ég skyndilega orðinn fremstur og fékk mér að drekka vatn á vatnshana við Sæbraut. Missti af fremstu mönnum fram úr mér. Þrátt fyrir að ég hefði lagt til lengingu á Nes og sjóbað þar kusu félagar mínir að stytta um Ægisgötu - ekki skil ég hvers vegna þegar lenging er í boði. Á Sæbraut var tekið eftir manni er ók bláum Toyota jeppa, HY-060, og flautaði einhver ósköp á okkur - kunnugir töldu sig þekkja þar ónefndan blómasala sem var að koma heim úr vinnu kl. 18:30 - akandi alla leið úr Havnefjord. Mörg ljót orð um það byggðarlag féllu á þessum stað í hlaupi.
Skeiðað niður Hofsvallagötu - það angraði mig að hafa ekki komist í sjó í einhvern tíma. Var orðinn mjög heitur og sveittur. Birgir sagði: nú væri gott að komast í sjó. Ég lagði til sjóbað við Ægisíðu. Hann bar við veikindum. Þegar til Laugar var komið greip ég hjólfák minn og hjólaði niður á Ægisíðu, fann þar góða baðströnd, svipti mig klæðum og henti mér í svala Atlanzhafsölduna - þvílík tilfinning! Er tilbaka var komið kom áhyggjusvipur á próf. Fróða: hvernig ætlarðu að skrá þetta? Þú varst einn, ég var ekki á vettvangi, sjóbaðið var ekki boðað fyrirfram, engar reglur höfðu verið samþykktar... Prófessorinn klóraði sér í hausnum yfir þessu, en var greinilega mjög irriteraður yfir að menn væru að búa til nýjar sjóbaðskategóríur án þess að nokkurt samráð væri haft við hann.
Það var legið lengi í potti og rætt um málefni efnafræðilegs eðlis. Ekki tókst að efna til Fyrsta Föstudags, sem út af fyrir sig er teikn um bindindissemi félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins nú þegar menn kjósa að njóta veðurblíðu og samveru við fjölskyldu og ættmenni.
Félagar verða vítt og breitt næstu vikur, Gísli og Magnús í Noregi, ritari í Svíþjóð - pistlar munu áfram berast af afrekum á slóðum Heimskringlu í Gömlu Uppsala þar sem Þórgnýr Þórgnýsson hélt ræðuna frægu sællar minningar til þess að fá Ólaf hinn sænska Eiríksson konung að sættast við konung Noregs, Ólaf digra Haraldsson helga.
Í gvuðs friði. Ritari, over and out.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.