Vandur er vinlaus maður

Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins er viðkvæm sál og auðsærð eins og félagar hans vita. Og einföld. Hann var varla lentur eftir flug frá París þegar konan segir: "Farðu nú og finndu félaga þína þó þú sleppir hlaupi í dag! Þeir verða áreiðanlega glaðir að sjá þig!" Þetta hafði mér ekki dottið í hug sjálfum, en um leið og hún sagði það sá ég að þetta var snjallræði. Þannig stóð nefnilega á að ég hafði misst mig í hreindýrakjöti í vélinni og ekki beinlínis vel upp lagður fyrir hlaup. Brá mér því á bak hjólfáki mínum og hjólaði til laugar. Þar var geysilega fríður hópur kominn út á brottfararplan, og man ég að greina frá þessum: Hauki, Magnúsi, Ólöfu Þorsteinsdóttur, Rúnu, Brynju, Jörundi, Önnu Birnu, Sjúl, Ágústi, Benedikt, dr. Friðriki, dr. Jóhönnu, Kára og Einari blómasala. Ég gerði fólki strax ljóst að ég myndi ekki hlaupa í dag, en datt niður á það óráð að gefa misvísandi skýringar á hvers vegna það væri, einum sagði ég að hlaupagírið væri óhreint, öðrum að ég hreinlega hefði ekki haft tíma til að... og varð svo óskýr í máli þannig að afgangurinn tapaðist. Ég vissi sem var að menn myndu ekki sýna ástæðum mínum skilning. Aðeins Einari blómasala sagði ég sannleikann: ég réð ekki við fíkn mína í hreindýrakjöt. Vissi sem var að hann myndi sýna mannlegum breyskleika skilning, enda er hann einstakur mannvinur og skilningsríkur.

Þar sem ég stóð við inngöngudyr Vesturbæjarlaugar og ræddi við vin minn og sálufélaga Einar blómasala leit prófessor Fróði á klukkuna sína og sagði: "Mér sýnist ritarinn vera eitthvað rólegur í tíðinni, við erum að leggja í hann..." Þegar honum svo skildist að ritarinn hygðist ekki hlaupa að sinni sagði hann: "Er ÞESSI maður að æfa fyrir maraþon?" ÞESSI var skáletrað, undirstrikað, með hástöfum og fyrirlitningu. Sjaldan hefur ritara sárnað meira orð félaga síns, nýbúinn að hlaupa ALEINN upp að Árbæjarlaug, eina 22-23 km - og með fullan hug á að byggja sig vel upp fyrir Reykjavíkurmaraþon, búinn að senda hlaupaáætlun út á allan hópinn. Nei, þá er bara reynt að brjóta mann niður með andlegu ofbeldi og einelti.

Ég lét ekki bugast, kvaddi vin minn og hélt til potts. Hitaði mig vel upp og hreinsaði mig innra sem ytra eftir erfiða daga á erlendri grund. Hitti svo Hauk og Magnús er þeir komu tilbaka. Oss hafa borist nánari lýsingar á hlaupi dagsins, svofelldar (heimild: próf. Fróði):

Ágúst fór í sjóinn ásamt Kára, konunni hans Kára, Friðriki lækni, Einari blómasala og 1/4 x Ólöfu. Þar fór fram ítarleg myndataka og heimildasöfnun um sjósundsafrek félagsmanna af hálfu Pegasus
kvikmyndafyrirtækisins fyrir erlent orkufyrirtæki. Ljóst er að frægð og frami bíður allra þeirra er "opinberuðu" sig.

Sjúl og Benedikt hirtu ekki um frægðina og skunduðu saman í "Goldfinger og 69"

Eftir sjósund hélt hópur fólks (Rúna, Brynja, dr. Jóhanna, Kári, Jörundur, Einar og Ágúst) austur Fossvogsdal. Í nánd við Víkingsheimilið skildi Ágúst við hópinn og hélt í austurveg ... Goldfinger etc. ALEINN og einmana og hélt í humátt á eftir þeim félögum Sjúl og Benna. Náði þeim í heita pottinum. Aðrir fóru Stokkinn. Vegalengd gagnasafnara var ca 25 km.

Af Sjúl og Benedikt þetta (Sjúl hefur orðið): 
Við Benedikt hlupum Goldfinger og 69. Samtals 24,5 km. Hlaupið var frekar hratt og ekkert gefið eftir, sérstaklega í byrjun. Benedikt fann eitthvað fyrir vöðvatognuninni í lærinu í byrjun hlaups og var heldur varkár, tók ekki neina þéttinga og lét mig sjá um tempóið. En semsé, við urðum strax langfremstir og misstum allt samband við hinn hluta hópsins strax á Ægisíðunni. En sem sannur meðlimur Hlaupasamtaka Lýðveldisins lét Bensi þessi meiðsl sín ekki hafa nein áhrif á sig enda fór svo að um mitt hlaup voru verkirnir horfnir og hann orðinn miklu öflugri en ég. Hann lét mig enn ráða hraðanum enda skynsemispiltur og heildartíminn varð tæpir 2 tímar og 13 mínútur sem er mjög gott miðað við fyrri hlaup mín. Við litum inn í Árbæjarlaug og Olís við Glæsibæ rétt til að skvetta í okkur smá vatni.

Ritari hafði samvizkubit yfir því að hafa ekki hlaupið á miðvikudag. Af þeim sökum mætti hann til Laugar í dag kl. 17 og reimaði á sig skóna. Hann fór einn í prýðisveðri inn að Elliðaám, í gassandi hita í Fossvogsdal, fullt af hlaupurum út um allt. Á leiðinni varð honum hugsað til þess að víða á stígum eru hjólreiðamenn og fara hratt yfir. Það virðist óvarlegt að líta svo til að reiðhjólastígar séu ætlaðir undir æfingar keppnisfólks á reiðhjólum. Þarna ægir öllu saman á sama stígnum, gangandi vegfarendum, börnum, hundum, hlaupurum og eina reglan sem gengur upp er skynsemi og tillitssemi. Það er ekki hægt að ganga út frá að þó menn haldi sig þeim megin sem merkt er reiðhjólum leyfist þeim allt. Þá sé í lagi að setja allt á fullt og svo mega bara aðrir passa sig. Halló! Hér kem ÉG, ekki vera fyrir MÉR eða þið hafið verra af! Börn eru óútreiknanleg og alltaf að færa sig til og frá, hafa litla yfirsýn og fylgjast ekki með því sem framundan er. Eins og þessi hlaupari upplifði því minnstu munaði að hann yrði undir hlaupahjólum smæstu borgaranna í tvígang á hlaupi dagsins. Ég velti því sumsé fyrir mér hvort ekki væri nauðsynlegt að borgaryfirvöld settu einhverjar nánari reglur um það hvað má og hvað má ekki á útivistarstígum Borgarlandsins. Í þeim tilgangi að forða frá slysum, sem hljóta að gerast ef menn halda áfram að hjóla með því hugarfari að þeir eigi réttinn á þeim hluta stígsins sem er merktur hjólum og svo mega aðrir vegfarendur bara passa sig!

Mig dauðlangaði í sjóinn en lét ekki verða af því - einhver spéhræðsla eða aumingjaskapur. "Ég fer á Nesinu" hugsaði ég eins og Þórbergur í Framhjágöngunni. Fór yfir Elliðaárnar og öfundaði þar blessuð börnin sem busluðu í svölu árvatninu. Aftur yfir og tilbaka og hefðbundna 69. Var með nóga orku með mér að drekka. Mætti fleira fólki. Heyrði það síðar í fréttum að von væri á Stefano Baldini, gullmanni Ólympíuleikanna í Aþenu í maraþoni, á Reykjavíkurmaraþon, þar sem hann ætlar að hlaupa hálft. Norska hlaupadrottningin Grete Waitz kynnti þetta í Höfða í dag. Ég þurfti að leita lengi að þessari frétt á Moggavefnum, þar er ekki fjallað um annað en fótbolta. Ætla mætti að fóbbolti væri sterkasta keppnisgrein íslenzku þjóðarinnar - en því er nú aldeilis ekki að heilsa, ekki nema þá kvenþjóðarinnar!

Þegar upp var staðið lét ég nægja að fara 69 - sleppti Nesi og sjóbaði. 17,5 km eins og hlaupaáætlun gerði ráð fyrir. Á morgun er hefðbundinn föstudagur - minnt er á að ekki er enn búið að taka út Fyrsta Föstudag. Svo fer ritari í frí til Svíþjóðar í rigninguna, maður er orðinn langþreyttur á öllu þessu sólskini á Skerinu. Verð í 10 daga, en stefni að því að hlaupa af kappi á sléttum Uppsalaauðs og rapportéra daglega.

Vel mætt. Í gvuðs friði.
ritari


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ritara var sárlega saknað í miðvikudagshlaupi. Menn veltu vöngum um hvað ylli fjarveru hans.

Var þetta ekki hann sem kom gírlaus á hjóli rétt fyrir brottför? Hvað gengur að honum? Skyldi hann eiga við meiðsl að stríða?  Hvað var þetta rauða á hökunni á honum? Kannski fipaðist honum við raksturinn. Vonandi datt hann ekki á höfuðið í útlöndum. Datt hann kannski á rakhnífinn í útlöndum? Nú, var hann í Brussel? Nei, hann var víst í París.

Að lokum komumst við að sameiginlegri niðurstöðu um hvað henti ritara og varð til þess að hann treysti sér ekki til hlaupa. Ekki komu þar nein hreindýr við sögu. Ritari sat á torgi í Brussel og sötraði rauðvín. Á sama tíma var brusselsk húsmóðir að stíga úr baðinu heima hjá sér í húsi sem stendur við rauðvínstorg ritara. Brusselska konan þurrkaði sér og sté því næst á baðvogina. Svo mjög gramdist konunni niðurstaða þeirra mælingar að hún kastaði sökudólgnum, baðvoginni, umsvifalaust út um baðherbergisgluggann er snýr að rauðvínstorginu. Vogin strauk höku ritara, sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þar sem hann sat og átti sér einskis ills von, og skildi eftir sig smá far á andliti hans. Ritari vankaðist lítillega við höggið en er allur að koma til og hleypur líklega aftur á morgun - einn!

Svona var þetta.

Jóhanna

ps. við hlupum ekki stokkinn heldur afbrigði af 69, þar sem farið var af Kringlumýrarbraut á Sæbraut. Mjög góð leið.

Jóhanna Arnórsdóttir (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband