Á afmæli sessunnar

Ritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins biður fyrir kveðju Guðs og sína héðan úr Svíaríki, daginn eftir að Viktoría krónprinsessa hefur fyllt þriðja tuginn. Hér var gott veður í gær, sól og 20 stiga hiti. Í dag er hins vegar dumbungur, þótt ekki sé kalt. Kjörveður til hlaupa enda voru skór reimaðir á fætur þessa hlaupara og hann af stað. Þeim, sem kunnugir eru í Uppsala til fróðleiks, skal upplýst að lagt var af stað  frá skógivöxnu íbúðahverfi sem heitir Malma, farið um götur sem leið liggur til Eriksberg og Flogsta, þaðan inn í miðbæ, framhjá Höllinni og út á Dag Hammarskjöldsveg og tilbaka þá leið, framhjá Botaniska. Þetta var túr upp á tæpan einn og hálfan klukkutíma á góðum Jörundartakti, sem sagt hægt. Ritara þykir gott að hlaupa í Svíþjóð og hafði á tilfinningunni að hann gæti hlaupið endalaust. En það er hundleiðinlegt að hlaupa einn, fátt sagt, engar sögur af einkennilegu fólki né nokkur ættfræði að ráði. Þess vegna er pistill með styttra móti í dag - en ég skrepp til Brussel á morgun og hleyp því ekki fyrr en á miðvikudag næst - ég ætla að reyna að komast út í Gömlu Uppsala sem er sögusvið eins kafla í Ólafs sögu helga, eins og fram hefur komið á þessum blöðum áður. Læt ykkur fylgjast með.

Góðar stundir. Ritari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband