30.12.2013 | 19:41
Prófessorinn hleypur einn
Þar sem skrifari haltrar með bólginn ökkla niður í búningsklefa Vesturbæjarlaugar verður fyrir honum prófessor Fróði að klæða sig í hlaupagírið. Klukkan var langt gengin sex - en þó ekki runninn upp lögbundinn hlaupatími á mánudegi. "Það lítur illa út með þátttöku í hlaupi dagsins," sagði prófessorinn. "Þú hleypur áreiðanlega einn," sagði skrifari. Hér beygði prófessorinn af og varð dapur í bragði. Hann kvaðst hafa lítið hlaupið upp á síðkastið vegna tognunar í kálfa. Skrifari lýsti sömuleiðis meiðslum sínum og sýndi bólginn ökkla. Prófessorinn tók hann trúanlega við yfirborðslega skoðun.
Rætt var um ókosti þess að hlaupa á Íslandi þar sem er kalt og dimmt og einkum vært fyrir ísbirni, en ekki mannfólk. Heppilegra væri að halda sig við suðlægari gráður þar sem er heitt og þurrt. Nú var spurt um ÍR-hlaupið á Gamlársdag og hvort prófessorinn myndi ekki setja sér það markmið að bæta tímann frá því í fyrra: 66 mínútur. Nei, hann hélt nú ekki, helst var hann á því að fara á lakari tíma, ekki undir 69 mínútum. Sixtínæn.
Skrifari óskar félögum sínum velfarnaðar í hlaupi morgundagsins og þakkar ánægjulegar samvistir á árinu sem er að líða.
Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 23:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.