6.10.2013 | 17:58
Forgangsröðun
Menn forgangsraða ýmislega. Forgangsröðun þykir bera vott um siðferðislegt mat manna og ekki síður verðmætamat. Þegar skrifari vaknaði á þessum fagra haustmorgni, sunnudaginn 5. október, hugsaði hann með sér: "Nei, nú kemur ekkert annað til greina en hlaupa í vaskra sveina hópi þar sem menn ræða persónufræði og bílnúmer, setja af ríkisstjórnir og mynda nýjar." Hann tíndi saman reyfi sitt og hélt til Laugar. Þar voru fyrir á fleti Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar, og Þorvaldur Gunnlaugsson. Ólafur frændi minn var í djúpum samræðum við Jón Bjarnason, fv. ráðherra, um lífsgátuna. Seinna birtist svo Bjarni Fel. og þá var beint að honum spurningum um Tuliniusar-mótið, sem var undanfari Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu.
Jæja, við biðum til kl. 10:10 - en héldum þá af stað út í blíðviðrið. Heiðskírt, stillt, en þó kalt. Tölt rólega af stað. Rætt um nýlegan fjárhagsskandal í jarðvísindastofnun og prestkosningar í Dölum vestur. Ólafur hafði allar persónufræðilegar upplýsingar á takteinum, stúdentspróf í Tjörn, slitrótt nám í gvuðfræði, störf í akademíunni, feilspor í fjármálunum. Mannlegur harmleikur. Rætt um skólafélaga þeirra Ólafs og Þorvaldar í Reykjavíkur Lærða Skóla sem gerðu Þorvaldi grikk og hann hefur ekki enn jafnað sig á.
Þar sem við líðum áfram í blíðunni rennir upp að hlið okkar hjólreiðamaður þakinn hlífðarfatnaði svo vart sá í skinn. Þó fékk hann ekki klætt af sér líkamsfitu sína og sást gjörla að hér var þekktur blómasali í Vesturbæ Lýðveldisins á ferð. Hann var spurður hvers vegna hann hlypi ekki með félögum sínum á svo ágætum degi. Hann svaraði því til að nú væri þreytt Nauthólshlaup og væri þátttaka endurgjaldslaus og lyki hlaupi á miklum málsverði í boði Jóhannesar í Múlakaffi. Kom hér í ljós munurinn á forgangsröðun tækifærissinnans og prinsippmannsins, við prinsippmenn, hlauparar sem alltaf gerum allt eins og líður best illa, veljum sunnudag í föruneyti Formanns í stað þess að hlaupa eftir súpugutli úr Múlakampi.
Það var komið í Nauthólsvík og þar var Þorvaldur, bróðir skrifara, að hita upp. Menn tóku tal saman og blómasali slóst í hópinn. Er bróðirinn vék burtu spurði blómasali: "Af hverju getur þú ekki verið grannur eins og bróðir þinn?" Hér upplýsti skrifari blómasala um fyrirbærið holdarfar og holningu, þá sem er ásköpuð mönnum og þeir hafa enga stjórn á. Menn geta hlaupið ævilangt en þeir losna samt aldrei undan áskapaðri ásýnd.
Haldið áfram í Garð og upp úr honum, um Veðurstofu og Grænuhlíð, þar sem Villi Bjarna beið eftir okkur hér um daginn. Áfram um Klambra og Hlemm niður á Sæbraut og hún tekin með trompi. Við veltum vissulega fyrir okkur þar sem hlupum framhjá Alþingishúsinu hvar hann félagi okkar væri með skrifstofu og leist einna helst á að það væri í gömlu húsunum við hlið Alþingishússins. Þar ku vera skrifstofur.
Ekki varð tíðinda er við fórum upp Túngötu og tilbaka til Laugar. Mímir var á förum er við komum til Laugar, en dr. Baldur var á leið í Pott. Ekki sást til dr. Einars Gunnars. Í Pott komu Helmut og Jóhanna búin að þreyta Nauthólshlaup, frú Helga Jónsdóttir og Stefán verkfræðingur, Unnur Birgisdóttir, Haraldur Jónsson myndlistarmaður, svo komu Flosi og Einar blómasali. Einar fékk með naumindum slitið sig frá tarínunni hafandi sett þrisvar sinnum á diskinn. Umræður voru sem fyrr í endurvinnslufasanum og rætt um fyrrnefnt meint fjármálamisferli á jarðvísindastofnun, með tilheyrandi persónufræðum, og kyrrlátan prestskap í sveit.
Næst hlaupið á morgun, mánudag. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.