Barátta við aukakílóin - auglýst eftir Benz

Skrifari sá reyfið af blómasala í Útiklefa er komið var til Laugar í dag, á hlaupadegi. Skrifari hafði misst af heimilisbílnum og treysti sér því ekki til að mæta til hlaups, en mætti þegar hlauparar voru lagðir af stað. Hann hugsaði með sér að blómasali hefði náð hlaupi í dag og bölvaði honum í huganum. Það var þvegið sér og haldið í Pott. Þar blasir við hárugur og gildur skrokkur sem var kunnuglegur. Hver er ekki staddur í Potti nema blómasalinn að reyna að ljúga e-u í próf. dr. Svan Kristjánsson. Skrifari var fljótur að draga hann niður á jörðina og inna hann skýringa á fjarveru frá hlaupum. Hann bar því við að hann þyrfti að elda ofan í ómegðina og gæti því ekki fórnað tímanum í fánýta hluti eins og hlaup. 

Jæja, þar sem þeir fóstbræður hittast í Potti og upp hefjast kveðjur með kurteisi og elskulegheitum hefur dr. Svanur á orði að hlauparar hafi einkennilegan hátt á að tjá hverir öðrum umhyggju sína, þeir leggi lykkju á leið sína til þess að vera andstyggilegir og leitist við að brjóta niður alla góða viðleitni einstaklingsins til þess að bæta ráð sitt og verða léttari. Þetta gat skrifari aðeins staðfest, í þessari starfsemi væru félagar Hlaupasamtakanna sérfræðingar og merki um karlmennsku að vera ekki að sóa tíma sínum í uppbyggilegar umsagnir um félagana. Að vísu lét hann þess getið að hann væri sérstakur stuðningsmaður blómasala í vonlausri og fyrirfram tapaðri baráttu hans við kílóin, en glataði aldrei fyllilega voninni um að sigur ynnist. Einar hafði á orði Cadbury´s stykkið sem hann fékk að gjöf frá skrifara um daginn og kvaðst hafa eytt töluverðum tíma upp á síðkastið í að lesa milli línanna um þá gjöf. 

Svo birtist Helmut og það var skipt um Pott. Blómasali hvarf af vettvangi, en við tók langt spjall um erlend samskipti, fjallgöngur, maraþonhlaup, matreiðslu og fleira. Er komið var upp úr kom í ljós að hlauparar dagsins voru dr. Jóhanna, Frikki, Þorvaldur og Flosi. Þau hafa líklega hlaupið um 10 km.

Hérumdaginn spurði sundlaugarvörður um Benzinn, sagði vera langt um liðið frá því hann hefði látið sjá sig í Laug. Af því tilefni er spurt: hvar er Benz? Hvar er Villi? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband