Fyrirsát

Eftir glæsilegt Reykjafellshlaup sl. föstudag í fallegu haustveðri með tilheyrandi baði í Varmárlaug var gerð mikil veisla að Reykjafelli. Þar buðu Helmut og Jóhanna upp á chili con carne og þáðu fjölmargir boðið auk hlaupara, en þau sem hlupu voru Magga, Biggi, Einar blómasali, Frikki Meló, Flosi, og svo fyrrnefnd Helmut og Jóhanna. Jörundur hjólaði og svo fréttist af S. Ingvarssyni. Ólafur skrifari var trússstjóri. Í boðið að Reykjafelli mættu auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir Þorvaldur Gunnlaugsson, Magnús tannlæknir, Ragna, Rúna - og svo dúkkaði þingmaður Lýðveldisins upp, sjálfur V. Bjarnason. Skiljanlega var mikill gleðskapur og leikið af fingrum fram á gítara og mandólín. 

Nú rennur sunnudagur upp bjartur og fagur og til hlaupa mæta Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir, Þorvaldur og Ólafur skrifari. Skrifari lélegur sem fyrr, en þeir hinir kváðust fara rólega. Fyrst var tekin fyrir breyting á húsi G. Löve hlaupara, sem ku hafa valdið e-m nágrönnum hugarangri. Ákveðið að láta úttekt á framkvæmdinni verða fyrsta verk dagsins. Sem við líðum áfram um stíginn fram hjá téðu húsnæði fáum við ekki betur séð en að framkvæmdin sé hin smekklegasta og eigi ekki að þurfa að trufla nokkurn mann. 

Næst gerist það að á vegi okkar verður fyrrnefndur þingmaður, V. Bjarnason, á reiðhjóli í gulum jakka. Kveðjur voru sem fyrr í þekktum skeytum: "Ég hélt þér væruð dauður!" "Ég var að vona að þú værir dauður." Magnús rifjaði upp söguna úr Kirkjugarðinum þar sem þeir ganga níræðir öldungar, hann og Ó. Þorsteinsson. "Hvers son var aftur hann Vilhjálmur Bjarnason, sem hljóp með okkur? Er hann ekki örugglega dauður?" Og annað eftir þessu. Fluttur pistill um flugvélar og afdrif þeirra. Svo var okkur farið að verða kalt og það varð að halda áfram.

Ekki varð tíðinda á leið okkar inn í Nauthólsvík, utan hvað umræðan gekk um forstjórastöðu LSH og um stöðu Landsbankans sem þykir ótrygg. Menn spurðu hvort við værum að rata í sömu ógöngur og fyrr með fjármögnun bankanna okkar. Staldrað við og gengið í Nauthólsvíkinni eins og hefð er fyrir. Sagðar nokkrar fallegar sögur. Svo haldið áfram í Kirkjugarð, Veðurstofu, Hlíðar - og hvað gerist þar? Dúkkar ekki fyrrnefndur þingmaður upp á veginum fyrir framan okkur á sama reiðhjóli og í sama gula jakka og fyrr. Á barndómsgötunni sinni, Grænuhlíð! Ef þetta er ekki fyrirsát þá þekki ég ekki hugtakið.

Jæja, hvað um það. Þarna upphefst mikil uppfræðsla um götuna, húsin, grindverkin - og síðast en ekki síst, íbúana. Villi benti á húsið, hæðina og herbergið þar sem hann  bjó frá fimm ára aldri til 22ja ára aldurs. Hinum megin bjó Hörður Ágústsson og Sigríður sú sem reyndi að berja frönsku inn í hausinn á okkur frændum í Reykjavíkur Lærða Skóla með umdeilanlegum árangri - "og þarna bjó hann Haukur Guðmundsson, afi hennar söngkonu, hérna." Við spurðum hvaða söngkona það sé. "Jú, það er hún þarna dægurlagadrottning." "Sigga Beinteins?" spurði skrifari. "Nei, ekki hún, þetta er hún hérna..." "Emiliana Torrini?" "Nei, ekki hún, þetta var hún þarna í Sykurmolunum..." "Björk?" spurðum við. "Já, Björk Guðmundsdóttir." Það var nú ekki fallega gert af okkur vinum hans V. Bjarnasonar að skella upp úr fyrir framan hann á barnæskugötunni fyrir hádegi á sunnudegi, en við gerðum það nú samt. Líklega hafa hlátrasköllin borist um allt hverfið í morgunkyrrðinni. Okkur þótti kynlegt að Vilhjálmur myndi ekki nafn þekktasta Íslendings samtímans. 

Jæja, áfram haldið og farið hefðbundið um Klambra og Hlemm, niður á Sæbraut. Vestur úr og hefðbundið um Miðbæ, Austurvöll og Túngötu tilbaka til Laugar. Í Potti sat Mímir drjúgur með sig, búinn að ráða nýjan forstjóra fyrir LSH. Svo bættust við dr. Baldur, Helga Jónsdóttir og Stefán og Jörundur auk þess sem Helmut og Jóhanna komu úr Hjartahlaupi. Mörg voru álita- og umræðuefnin og dugði ekki minna en klukkutími til þess að reifa þau.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband