Gengið og hlaupið

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru íþrótta- og menningarsamtök í Vesturbænum. Félagsmenn iðka heilbrigða lífshætti með margvíslegum hætti og miðla þekkingu ómældri um hvaðeina, persónur og bílnúmer. Laugardaginn 16. ágúst var þannig skipulögð ganga frá Djúpavatni að Suðurstrandarvegi, einir 16 kílómetrar. 11 tóku þátt í göngunni í blíðskaparveðri. 6 hlupu svo gagnstæða leið frá Suðurstrandarvegi að Djúpavatni og mættust hóparnir á leiðinni. 

Á sunnudögum er hlaupið frá Vesturbæjarlaug kl. 10:10. Mættir í dag voru þeir frændur, nafnar og vinir, Ó. Þorsteinsson og Ólafur skrifari. Þeir lögðu upp í ágætu veðri, björtu, logni og ágætlega hlýju. Nú höfðu þeir ekki hlaupið saman um skeið og því af nógu að taka í umræðuefnum. Meðal umræðuefna var hin einkennilega þögn sem umlukið hefur V. Bjarnason þingmann frá því hann var kosinn á þing. Tækifæri gafst til að spyrja Gunnar Gunnarsson í Speglinum hvort þingmaðurinn væri ekki alltaf á snerlinum í Efstaleitinu, en Gunnar kvað svo ekki vera - lengur. Gunnar kvað fjölmarga hafa komið að máli við sig og spurt hvort V. Bjarnason væri dauður. Við slíkum spurningum hefur Gunnar klassískt svar: "Það kemur yður ekki við!"

Jæja, það var skyldubundin umfjöllun um Vigdísi Hauksdóttur og palladóm um hana í Fréttablaðinu þar sem einungis nánasta skyldulið hennar fékkst til að segja eitthvað jákvætt um hana.

Við ræddum um fjarstadda félaga, sem telja sér það skyldara að snudda í kringum fjölskyldur sínar en að spretta úr spori með góðum drengjum og hlýða á fallegar sögur. Var þeirra saknað og bundnar vonir við að þeir færu að láta sjá sig á hlaupum á næstu dögum. Voru sérstaklega nefndir til sögu Einar blómasali og Magnús Júlíus. 

Fyrsta stopp í Nauthólsvík var verðskuldað. Síðan var það bara Kirkjugarður, Veðurstofa, Hlíðar og Klambrar. Stoppað á öllum hefðbundnum stöðum. Þannig afber syndaselur eins og skrifari endurkomu til hlaupa. Sæbraut, Miðbær, Túngata og Laug.

Pottur vel mannaður. Auk hlaupara voru Flosi, Margrét, Helga Jónsdóttir Zoega, St. Sigurðsson, dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Ólafur Jóhannes og Felix sonur hans. Rætt um óperu Gunnars Þórðarsonar um hana Ragnheiði okkar, sem ku vera eitt snilldarverk.

Næstu hlaup mánudag. Hefðbundið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband