25.3.2013 | 20:52
Fótbrotinn og með lungnabólgu
Það er best að segja hvern hlut eins og hann er: þetta var einfaldlega frábær hlaupadagur hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, elsta og virðulegasta hlaupahópi landsins, en jafnframt þeim hógværasta. Prófessor Fróði mætti bæði fótbrotinn og með lungnabólgu í hlaup, bar sig illa og vildi bara fara stutt, helst ekki lengra en 12 km. Hafði farið 20 km á laugardag, fótbrotinn og með lungnabólgu. Aðrir mættir: Magga, Flosi, Þorvaldur, Benz, Blómasali, Pétur, Heiðar, Ólafur Gunnarss. og skrifari. Snaggaralegur hópur sem setti strax stefnu á Víðirmel. Hins vegar fór það svo að þau Magga, Pétur og Heiðar voru svo vinstrisinnuð að þau fóru vinstra megin út á Nes, en við hinir fórum út á Suðurgötu og þaðan út að Skítastöð.
Ekki gat Blómasalinn kvartað, hann hafði etið hrískökur og drukkið Nupo Létt fyrr um daginn, en var samt þungur. Hann útlistaði fyrir okkur allt sem hann ætlaði að eta og drekka um páskana, og það var ekkert smáræði! Meðan við hinir hugleiddum hvernig haga mætti hlaupum um páska þegar Laugin er meira eða minna lokuð. Ágúst gerðist lýrískur og sá fyrir sér Heiðmörk og fjöllin, helst ekki styttra en 90 km, aðrir voru raunsærri og gerðu tillögu um svo sem eins og einn 69. Verið er að grafa fyrir húsi íslenskra fræða og búið að rífa upp tré sem Einar vildi draga af vettvangi og hafa með sér í bústaðinn. En svo kom á hann hik og hann sagði sem svo: "Kenski ætti ég að spyrja fyrst."
Áður en við vissum af vorum við komnir út að Skítastöð á fínu tempói. Hér söfnuðumst við helstu drengirnir saman og héldum á Nes. Á var sól, stilla og hiti 6-7 stig (ágiskun), flott hlaupaveður, þannig að maður svitnaði en ekki um of og var ekki heldur kalt. Halldór bróðir var á ferðinni ásamt eiginkonu og Einar hreytti ónotum í þau. Honum var svarað fullum hálsi. Við mættum Nesverjum en þekktum fáa að þessu sinni utan hvað skrifari sá bregða fyrir skólasystur úr Reykjavíkur Lærða Skóla.
Við Hossvallagötu vildi Blómasali gefast upp og hverfa til Laugar. Ekki var honum gefið færi á því en drifinn á Nes. Ágúst og Þorvaldur á undan okkur, en Flosi, Benzinn og Ólafur hinn einhvers staðar í fjarskanum á eftir okkur, ósýnilegir. Við áfram og lofaði ég Blómasala að fara hægt. Reyndi að telja í hann kjarkinn og hvetja á alla lund. Stuttu síðar höfðum við hlaupið uppi þá Þorvald og Gústa og saman fórum við Nesveginn. Hér sagði Ágúst: "Það er næstum því nauðsynlegt að taka Lindarbrautina úr því að við erum komnir hingað, tekur því varla að fara styttra." "Já, þetta er rétt hjá þér," sagði Blómasalinn. "Næstum." Enda kom á daginn þegar komið var út á Suðurströnd að þá beygðu þeir Þorvaldur af og fóru hjá Haðkaupum, en við Gústi fórum á Nesið. Hlupum fram á þau Möggu, Pétur og Heiðar að sprikla í Bakkavörinni. Afþökkuðum gott boð um að sprikla með þeim. Áfram út á Lindarbraut sem búið er að leggja nýjum hellum gangstéttar, afar snyrtilegt. Yfir á Norðurströndina og þá leið tilbaka.
Nú þurfti skrifari að svala þorsta sínum og þá brá Ágúst ekki vana sínum, þegar hann er búinn að teyma menn eins langt í eina átt og komist verður, gefur hann í og skilur félaga sína eftir. Þetta gerði hann í kvöld, skildi skrifara eftir og setti upp hraðann. Þetta var nú allt í lagi, skrifari í fínu formi og kláraði gott 12 km hlaup á flottu tempói. Teygt á Plani og í Móttökusal og svo farið í Pott. Rætt um hlaup, Ágúst rifjaði upp gömul afrekshlaup eins og Comrade. Deilt um hvort suður-afríski herinn hefði stofnað til þessa hlaups eins og sumir vildu meina, eða hvort suður-afríski kommónistaflokkurinn hefði komið hlaupinu á laggirnar.
Nú þarf að fara að taka ákvörðun um árshátíð. Nefndin er hér með kölluð til starfa.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.