15.3.2013 | 19:27
Þorvaldur lánar buxurnar sínar
Kalli var gómaður þar sem hann kom upp úr kjallara Laugar Vorrar og ætlaði að lauma sér í burtu og koma sér hjá hlaupi. Skýringin eða afsökunin sem hann bar fyrir sig var að hann hefði gleymt buxum. Við bentum honum á Þorvald, sem viðhafði hefðbundnar teygjur sínar í Brottfararsal, og fullyrtum að hann myndi fúslega ljá Kalla buxur. Hláturinn korraði ofan í skrifara þar sem hann gekk til Útiklefa, því hann vissi sem vonlegt er að enginn maður með sjálfsvirðingu myndi hlaupa í lánsbuxum frá Þorvaldi. Honum brá því er hann snöri til Brottfararsalar á ný og sá Kalla íklæddan lánsbuxum sem minntu meira á austurrískar fjallgöngubuxur en hlaupabuxur. Buxurnar áttu eftir að leika aðalhlutverk í hlaupi dagsins. Meira um það seinna.
Aðrir mættir: próf. Fróði, Benz og Maggie. Hópur sem er settur saman af slíkum einstaklingum breytir ekki til, hann fer hefðbundið. Við fórum hefðbundið, ja, allir nema skrifari. Hann fór Fót. Það reyndist kaldara utan dyra en við var búist og blés köldu. Farið allhratt út, á 5:30 tempói. Maggie stýrði hraðanum og spanaði prófessorinn upp. Fljótlega var tempóið komið í 5:15 og dró sundur með hlaupurum. Tekinn Trekant við Strætóstöð í Skerjafirði svo að hópurinn sameinaðist um stund, en svo fór allt í sama farið. En í Nauthólsvík náðum við saman á ný og þau hin héldu á Flanir, en skrifari beygði af.
Sosum tíðindalítið til Laugar, en mér varð hugsað til hans Gísla okkar sem setti svo fallega pælingu á Facebook í morgun að loknu morgunhlaupi á Nes. Einstakur maður, hann Gísli og mikið saknað í hópnum.
Eftir hlaup var upplýst að bílar hefðu forðast Kalla eins og pestina, virðast kannast við buxurnar af reynslu eða orðspori, en þó var ekki ljóst hvort hann hefði reynt að hlaupa fyrir þá með sambærilegri tímasetningu og Þorvaldur og frægt er orðið í umferðarheiminum.
Næsta hlaup: sunnudagsmorgunn kl. 10:10.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.