24.2.2013 | 15:06
Stólfóturinn
Mönnum er minnisstæð frétt í Ríkissjónvarpinu um afhendingu stólfótar á Árbæjarsafnið er notaður hafði verið sem barefli í Gúttóslagnum 9. nóvember 1932. Tildrög málsins voru þau að verkalýðurinn í Reykjavík vildi mótmæla launalækkun í atvinnubótavinnunni og burgeisarnir siguðu lögreglunni á fátæklingana. Nema hvað menn slógust fyrir utan Gúttó og notuðu hvaðeina til þess að vinna andstæðingnum mein. Þar með talið stólfætur úr sal bæjarstjórnar.
Er liðið var á dag kom lögreglumaður inn á lækningastofu Ólafs Þorsteinssonar, háls-, nef- og eyrnalæknis í Skólabrú, með stólfót fastan við haus sér. Skrúfa eða nagli tryggði að stólfóturinn sæti fastur. Nú kom það í hlut læknisins að losa stólfótinn. Eftir það var fóturinn settur inn í skáp og var þar næstu 80 árin eða allt þar til sonarsonur læknisins og nafni, Ó. Þorsteinsson, Formaður Vor til Lífstíðar, kom stólfætinum á Árbæjarsafn.
Við athöfnina þótti eðlilegt að bjóða fulltrúa réttvísinnar, Herði Jóhannessyni, yfirlögregluþjóni, og fulltrúa verkalýðsins, sem var sveit vaskra einstaklinga frá Eflingu stéttarfélagi, eina verkalýðsfélaginu þar sem verkafólk er enn við völd. Ætlunin var að bjóða Jörundi Guðmundssyni prentara að vera fulltrúi hinna börðu, hafandi verið barinn sjálfur af lögreglu, en það fórst fyrir. Við þetta þótti Jörundi svo við Ólaf Þorsteinsson að hann kom þeim sögukvitti á kreik að stólfóturinn væri falsaður, raunar hefði hann séð stólfót með nákvæmlega sama mynstri undir mublu á heimili Ólafs.
Jæja, þá var komið að þætti V. Bjarnasonar, en eftir því sem Ó. Þorsteinsson segir varð Vilhjálmur æfur er hann frétti að Spaugstofan hefði með það sama tekið upp Stólfótinn í þætti, en VB sjálfur hangið á húninum hjá ríkisfjölmiðlinum síðasta áratuginn án þess að úr því yrði efniviður í Spaugstofu.
Um þetta og önnur dæmi var rætt í Potti eftir Sunnudagshlaup sem var fremur fámennt.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt 1.3.2013 kl. 22:43 | Facebook
Athugasemdir
Margnefndur VB hefur aldrei sóst eftir frægð í Spaugstofu eða öðrum dagskrárþáttum í sjónvarpi. VB hefur komið fram í sjónvarpi vegna eftirspurnar en ekki vegna framboðs.
Þar skilur á milli vb og annarra sem koma fram á vopnasýningum.
Með vinsemd, VB
Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 1.3.2013 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.