"Lífið er svo stutt að maður getur ekki eytt því í að drekka vont kaffi."

Alltaf hrjóta spakmæli af vörum félaga í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Þessi féllu í Potti að loknu átakahlaupi (fyrir suma), höfundur: Dr. Jóhanna. En upphaf þessarar sögu var að fjöldi valinkunnra hlaupara mætti til Laugar í þeim góða ásetningi að þreyta hlaup á mánudegi. Þessir voru: fyrrnefnd dr. Jóhanna, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Bjarni Benz, blómasali, skrifari, Pétur, Gummi, Karl Gústaf og S. Ingvarsson. Gríðarlegt mannval. Nú heyrir það til sögunni að menn hafi í frammi ónot í Brottfararsal, en þó var eftir því tekið að Þorvaldur kom að borði Hlaupasamtakanna við gluggann þar sem fyrir á fleti voru útlendingar með hafurtask á borðinu, og kona sat og gaf barni sínu brjóst. Þorvaldur ruddi burtu dóti þessa fólks, enda átti það engan rétt á að hafast við á borði Samtaka Vorra, og lagði á borðið ýmsar miður frambærilegar hlaupaflíkur. Fór svo að gera teygjur sínar sem hann er þekktur af.

Dr. Jóhanna ákvað að farinn yrði Neshringur og teknar Bakkavarir. Hér æjuðu miðaldra menn og eldri, sögðu að þetta væri ekkert fyrir þá. "Við fylgjum þá bara í humátt á eftir hinum og förum stutt." Hefðbundin þróun hlaups, fremstir fóru þekktir afrekshlauparar, en við hinir lakari þar á eftir. Nú er hlaupið í myrkri og verður að varast allan þann fjölda bíla sem þvælist fyrir hlaupurum. Það var vitanlega rætt um hann Vilhjálm okkar og þann óhróður sem andstæðingar hans í eigin flokki hafa í frammi um hann. Einhver sagði það mat flokksforystunnar að Villi væri ekki nógu vitlaus til þess að sæma sér á lista Sjálfstæðisflokksins.

Upp á Víðirmel, út í Ánanaust og svo vestur úr. Fljótlega var vesalingur minn orðinn aftastur, hafði snætt fiskbollur í hádeginu sem reyndust vond undirstaða fyrir hlaup. Og eitthvað þreyttur í ofanálag. Bjarni aumkaði sig yfir mig og fylgdi mér alla leið, gekk með mér þegar við átti, og hvatti áfram eftir atvikum. En þar kom að honum blöskraði og hann sagði: "Nei, nú verður þú að herða þig upp!"

Farið út á Lindarbraut og yfir á Suðurströndina, þaðan austur úr og að Bakkavör. Þar var hópur vaskra hlaupara að búa sig undir að fara 8 brekkuspretti. Aðrir fóru bara þrjá, enn aðrir sex "Borgarneslega séð" eins og það var orðað. En við Bjarni, Maggi og Þorvaldur héldum bara áfram og skeyttum ekki ókvæðishrópum félaga okkar. Niður á Nesveg og stystu leið tilbaka. Teygt í Móttökusal og svo inntekinn Pottur. Ljúf stund með umræðu um mat, svoldið um hlaup, kaffidrykkju, en einnig efnahagsmál.

Vonandi verður þetta eitthvað skárra á miðvikudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband