31.10.2012 | 21:24
Höfum séð það svartara
Það hristist allt og skalf utan á Vesturbæjarlaug þegar skrifari kom þar á Plan kl. 17:15 í dag, slík var veðurhæðin. Nú skyldi hlaupið. Skrifari hlakkaði til hlaups. Hann sá að fleiri voru spenntir, því að Einar leirskáld og blómasali var klæddur og kominn í Brottfararsal kl. 17:15! Segi og skrifa: seytján fimmtán. Maður sem er vanur að koma hlaupandi með símann límdan við eyrað tvær mínútur í hálfsex vælandi: á ekki að bíða eftir mér? Í Útiklefa stóð skrifari á Adamsklæðum þegar Bjössi aðalnagli kom inn og sagði:"Djöfull ertu sexí!" Stuttu síðar komu Flosi yfirnagli og Bjarni súpernagli og fljótlega fór að hitna í kolunum með skeytum í allar áttir. Þorvaldur sást rjátla. Aðrir mættir: Maggi, Heiðar, Gummi Löve, Ragnar, Rúna, René og svo einn í viðbót sem ekki fékkst nafn á. Það eru svo margir sem vilja hlaupa með okkur. Framangreindir eru allir réttnefndir NAGLAR, aðrir mega SÓLSKINSHLAUPARAR heita.
Ekki urðu neinar bollaleggingar um skynsamlegar leiðir í þessari veðráttu, menn settu bara hausinn undir sig og hlupu af stað. Stefnan sett á Ægisíðu, ekki bakgarða. Er þangað var komið létti mjög veðri og var eiginlega bara þolanlegt, ef ekki allgott alla leið. Hér voru þrír hópar: Gummi, Ragnar, Heiðar og hinn gaurinn fremstir, Þorvaldur að þvælast fyrir þeim,en hann slóst fljótlega í hóp með heppilegri félagsskap, skrifara og Magga. Þar á eftir komu aðrir, þó dróst enginn verulega aftur úr.
Við Maggi og Þorvaldur ákváðum að taka hlaup dagsins í félagsskap hver annars. Þetta fer nú að verða eins og gamalt, þreytt hjónaband. Það var rifist og kítt um hvaða leið ætti að fara. Hlíðarfót? Nei, það er alltof hvasst þar. Öskjuhlíð, nei, þar eru perrarnir. Veðurstofa, nei, þar fjúkum við um koll. Þorvaldur heimtaði að farið yrði inn í hverfi þar sem við nytum skjóls. Á endanum var ákveðið að fara í Kirkjugarð, upp að Bústaðavegi og undir hann, en snúa strax til vinstri. Ég verð að segja að það var nánast logn alla þessa leið.
En svo var framhaldið. Enn heimtaði Þorvaldur íbúðagötur, en við Maggi vorum bara brattir. "Förum niður Eskihlíðina og sjáum til." Þetta fannst Þorvaldi hið mesta glapræði. "Við fjúkum um koll við BSÍ!" hrópaði hann. En hún er opt lúnknari, músin sem læðist, heldur en sú sem stekkur. Kom á daginn er við fórum niður hjá Kristsmönnum að þar var blankalogn, sem hélst alla leið meðfram Hringbraut út að Tjörn. Þar gerði hæg gola vart við sig, en annars var þetta eins og á ljúfum síðsumardegi. Við sáum einkaþotu hefja sig á loft og dáðumst að því hvað hún fór bratt upp. Farþegar hljóta að hafa setið í 60 gráðu vinkli og hafa þrýstst niður í sætin. Magnús hafði áhyggjur af því að þeim myndi veitast erfitt að ná nærbuxunum út aftur millum kinnanna.
Þetta var glæsilegt hlaup hjá okkur og vorum við ánægðir að því loknu. Fórum líklega e-a 10 km á ágætistíma. Aðrir hlauparar voru komnir eða að koma á Plan um svipað leyti og við, utan hvað Flosi kom síðastur, fór enda Þriggjabrúa með lensi á Sæbraut.
Nú er upplýst að Kaupmaður heldur Fyrsta Föstudag hvers mánaðar. Hver lætur slíkt boð framhjá sér fara? Vel mætt!
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.