15.8.2012 | 20:42
Hlaupasamtökin að rísa úr ösku
Í morgun sté þekktur blómasali í Vesturbænum á stokk í Útiklefa og lýsti yfir því að nú yrði farinn Þriggjabrúahringur og ekki feti skemur og mætti hann ella hundur heita! Blómasali þessi er einn af þeim félögum Hlaupasamtakanna sem kljást við illviðráðanlega og óútskýrða þyngdaraukningu sem torveldar árangursrík hlaup. Skrifari tilheyrir sama þjóðfélagshópi. Saman hafa þeir reynt að horfast í augu við vandann og finna lausn við honum, en baráttan virðist vera fyrirfram töpuð. Þó er baráttuhugur þeirra óbugaður og áfram skal reynt að berjast við umframkílóin.
Þegar skrifari mætti til hlaups í dag var það því með eftirvæntingu því nú skyldi tekið á því. Því voru það ákveðin vonbrigði að blómasalinn mætti ekki í hlaupið, en skýringar á því fengust í lok hlaups. Þessir voru mættir: Flosi, Helmut, Frikki, Benzinn, Kalli, Maggi, dr. Jóhanna, Gummi, skrifari og líklega einhverjir fleiri sem gleymast. Þannig að helstu hlauparar eru farnir að flykkjast til hlaupa og héðan eftir batnar það bara.
Af meðfæddri skynsemi ákvað skrifari að fara Hlíðarfót og var fljótur að rekrútera Magga og Kalla til þeirrar ferðar, aðrir ætluðu lengra, Helmut nefndi Suðurhlíð. Sjálfsagt hafa einhverjir ætlað eitthvað lengra. Eðlilega var rætt um maraþonið hans Kára Steins í Lundúnum og sagði Kalli okkur gjörla frá því ævintýri. Hersingin silaðist af stað og voru flestir bara rólegir framan af.
Skrifari fór fetið með þeim Magga, Bjarna og Kalla. Aðrir voru fyrir framan okkur, en fóru þó ekki mjög hratt yfir. Hlýtt í veðri, 16 gráður, skýjað og algjör vindstilla. Skrifari þungur á sér og reyndi á hnén við þau skilyrði, en góð hreyfing og mikill sviti. Rætt um RM og þá staðreynd að afar fáir hlauparar í Samtökum Vorum eru skráðir til þátttöku. Sumir af þeirri prinsippástæðu að vilja ekki mylgra undir Íslandsbanka-auðvaldið, aðrir vegna þess hve verðið er orðið hátt fyrir það eitt að fá að renna 10 km skeið.
Jæja, þegar við komum í Nauthólsvík er Helmut búinn að planta sér við leiktæki og farinn að teygja á vöðvum. Maðurinn sem leiddi hópinn fimm mínútum fyrr! Qué pasa? Jæja, karlinn var yfirspenntur fyrstu kílómetrana "af því mér leið vel" eins og hann skýrði eftir á. Vellíðanin entist ekki nema tæpa fjóra kílómetra svo tóku kálfarnir yfirráðin. Þarna stóð hann sumsé og teygði meðan þau hin héldu áfram, ýmist Þriggjabrúa eða á Kársnes á 4:30.
Við aumkuðum okkur yfir Helmut og leyfðum honum að fylgja okkur Hlíðarfót. Hérna hafði Biggi bæst í hópinn og samkjaftaði ekki það sem eftir var leiðar. Við fórum Flugvallarveg, hjá Gvuðsmönnum og Hringbrautina tilbaka. Hann upplýsti m.a. að hann hefði heyrt í blómasalanum fyrr um daginn og sá upplýst að hann kæmist ekki í hlaup því hann þyrfti að sigla. "Á skútu?" spurði Biggi. "Nei," sagði blómasalinn. "Á spíttbát?" spurði Biggi. "Nei," sagði blómasalinn. "Nú, ætlarðu að róa til fiskjar?" spurði Biggi. "Nei," sagði blómasalinn, "ég ætla að dóla í hafnarkjaftinum á jullu." Hér kvaðst Biggi hafa misst allt álit á blómasalanum og aumari afsökun fyrir fjarveru frá hlaupum hefði líklega ekki heyrst. Óskaði hann eftir því að fá samtalið fært til bókar.
Við mættum Kára á Plani, hann var á reiðhjóli. Hann var glaðbeittur sem endranær. Það entist ekki lengi. Einhver sagði skemmtisögu og Biggi rak upp hláturroku sem lenti í ytra eyranu á Kára og olli pirringi. Biggi kvaðst vera með reikning í innheimtu hjá blómasalanum fyrir eymslum sem hann hefði orðið fyrir af því að hjóla í sveitina til hans á afmælinu í sumar. Hann gaf upp nákvæma lýsingu á eymslum þessum, en um þau verður ekki fjallað frekar hér á þessum blöðum af virðingu fyrir fjölskyldu og vinum þess meidda.
Nú er spurt: hvað verður að kveldi RM? Munu menn koma saman og fagna?
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.