Blíðlyndi, hæglæti og hógværð

Fáir hafa komizt betur að orði en Pétur Zophoníasson ættfræðingur er hann lýsir langömmu Formanns til Lífstíðar, Valgerði Ólafsdóttur, bæjarfulltrúa og fátækrafulltrúa í Reykjavík, Ólafssonar, búsetts í Lækjarkoti, fæddrar 1. jan. 1858 í Viðey, er seinna var gefin Þorsteini Tómassyni járnsmið, hverra sonur var Ólafur Þorsteinsson, háls-, nef- og eyrnalæknir, afi Formanns. Hún fékk þessa umsögn hjá Pétri: "Hún var blíðlynd, hæglát og hógvær." Efast menn um hvaðan Formanni er komið upplag og geðslag? Ellegar tenging við Viðey, þar sem Hlaupasamtökin héldu eftirminnilega árshátíð sína á liðnu vori?

Jæja, tilefnið var hlaup á fögrum föstudegi í ágúst, degi fyrir Þonið. Þá mættu helztu syndaselir Samtakanna til hlaups. Þetta voru Bjarni Benz, Þorvaldur, Helmut, Flosi, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Ákveðið hafði verið á rafrænum sýndarfundi um morguninn að hlaupa á Nes og fara í sjó. Ekki var breyttur ásetningur manna. Það eina sem var breytt var að Biggi var ekki mættur. En það var hluti af attraksjóninni að fara með Bigga í sjóinn. Við lögðum upp léttir og kátir í bragði.

Létt skokk upp á Víðirmel, þaðan vestur úr og niður í Ánanaust. Þar blés eilítið og við héldum á Nes. Ekki höfðum við lengi farið er við mættum hlaupara á grænum sokkum. Það reyndist vera Karl G. Kristinsson og slóst hann í för með okkur. Stuttu síðar mættum við svo þeim Nesverjum, Denna og Kristjáni, þeir vildu ekki fylgja okkur svo að við létum þá sigla sinn sjó. Helmut sá sel í sjónum og gátum við hinir staðfest að ekki var um missýningu að ræða. Selurinn sækir í makrílinn sem syndir um allan sjó á Höfuðborgarsvæðinu og verður helzt að lemja aftur niður í sjóinn til þess að fá frið fyrir honum. Makríllinn var mjög ágengur í morgun er Helmut og Jóhanna fóru í sjó í Bakkatjörn.

Það var tekið á því hjá Gróttu og alla leið út að baðstað. Flosi á hjóli þar sem hann ætlar að hlaupa á morgun. Við skelltum okkur í hásjávaða ölduna, Helmut, Flosi, Benzinn, blómasali og skrifari. Aldan var há og yndislegt að skoppa upp og niður eins og korktappi. En alltaf sama vesenið þegar kemur að því að þurrka sand af fótum og fara í sokka og skó.

Haldið áfram og farið hefðbundið. Blómasalinn með einhvern rembing og þeyttist fram úr okkur, við hinir tiltölulega rólegir. Við Helmut og Benz fórum niður í skjólin, en blómasalinn stytti. Allir hittumst við þó á Plani og teygðum saman. Pottur stuttur - mönnum er falin sú sýsla að annast matargerð á heimilum sínum.

Á morgun er Reykjavíkurmaraþon, þá verðum við nokkrir á ferð og fylgjumst með okkar fólki: S. Ingvarssyni, Jörundi, Snorra, Magano, Pétri, Bigga, Unni, Flosa - og hverjum þeim sem hlaupa í nafni Samtaka Vorra. Gott gengi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband