Magano spyr: "Af hverju er hann kallaður prófessor Fróði?"

Einfalda svarið er: af því hann er prófessor. En veruleikinn er, eins og við vitum, alltaf eilítið flóknari. Tilefnið var hefðbundið hlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins frá Laug Vorri á föstudegi kl. 16:30. Valinkunnir hlauparar mættir, Flosi, Helmut, Benzinn, skrifari, Kalli, og svo Maggie okkar. Það var rigningarlegt, vindasamt, en hlýtt í veðri. Þegar hópurinn var kominn saman í Brottfararsal steðjaði skrifari út og hóf hlaup, ekki eftir neinu að bíða, ekki boðið upp á gáfumannahjal á Plani um rafrænt einelti.

Skrifari sosum sprækur framan af, en hann vissi að þau hin myndu ná honum. Furðu þótti honum þó langur tími líða þar til hann heyrði másið í Flosa og Benzinum, en Maggie stígur fram létt eins og hind og blæs ekki úr nös. Helmut ekki langt undan. Flosi og Maggie tóku forystuna í Skerjafirði og héldu lengst af, en við þrír héldum hópinn svona nokkurn veginn. Það blés á móti okkur á Ægisíðunni og ekki fyrr en við flugvöll að við fengum hlé. Eftir það var þetta ekki óbærilegt.

Í Nauthólsvík var beðið eftir okkur, Maggie kom á móti okkur og vildi hvetja til dáða. Fyrir hlaup hafði verið rætt um Hlíðarfót, en er hér var komið kom ekkert annað til greina en fara fulla porsjón. Áfram á Flanir, hjá Hofpresti þeirra Ásatrúarmanna, Hi-Lux og upp brekku. Nú voru þau hin löngu horfin, en við kjöguðum þetta áfram félagarnir. Ekki fer miklum sögum af því sem fyrir augu bar á leiðinni, það var Veðurstofa, Saung- og skák, Klambrar og annað eftir því.

Kláruðum flott hlaup á góðum tíma og í hellirigningu á Plani. Maggie spurði okkur hvað hjólastólar og göngugrindur væru að gera í Laug Vorri. Við sögðum henni að félagi okkar, prófessor Fróði, hefði verið að hjóla í Sviss, séð steinvölu á leið sinni og fyllst skelfingu, hemlað fast og flogið á hausinn. Heimfluttur væri hann farinn að sækja sundæfingar gamalmenna í SVL, kútur væri reyrður um mitti honum og hann látinn troða marvaða.

"Af hverju er hann kallaður prófessor Fróði?" spurði Maggie. Spurningar Maggiear eru beinskeyttar og ekki víst að alltaf séu svör við þeim. Við reyndum okkar besta að útskýra andlegt sem líkamlegt atgervi þessa félaga okkar sem ku mega fara að hlaupa af nýju 9. september nk. kl. 15:00. Sem er heppilegt, því að Reykjafellshlaup verður þreytt laugardaginn 15. september og ekki seinna vænna að sá gamli fari að stíga í fótinn. Frekari upplýsingar er nær dregur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband