4.7.2012 | 21:08
Aulabandalagið - eða að hlaupa í sátt við sjálfan sig
Maðurinn þarf að vera sáttur. Hann verður að hlusta á líkamann, hlera öll aukahljóð og ískur, huga vandlega að öllum kvillum og verkjum, og umfram allt: ekki ofgera sér. Hafi menn þetta hugfast er hægt að hlaupa fram á gamals aldur, eins og Jörundur okkar er helzta vísbending um. Nema hvað, þegar mætt er til Laugar er á fleti að finna eftirfarandi: Flosa, Helmut, dr. Jóhönnu, Magga og skrifara. Aðrir voru ekki, eftir því sem mig rekur minni til. Hlýtt í veðri, 17 stiga hiti, skýjað og nánast logn. Í Brottfararsal heimtaði Helmut eitthvað stutt og Magnús var fljótur að fallast á tillögu hans, skrifari staðfesti að myndað hefði verið Aulabandalag - eða A Confederacy of Dunces, eins og hann John Kennedy Toole skrifaði um hér á árunum. Annað átti eftir að koma á daginn.
Lagt upp og ákveðið að stefna á Suðurhlíð, þau Helmut og Jóhanna fara Laugaveg eftir tíu daga og því væntanlega að trappa niður. Farið afar rólega af stað, minnti hópurinn eiginlega á líkfylgd fremur en hlaupahóp. Hins vegar vaknaði von með skrifara um að hér væru að endurfæðast hin eiginlegu Hlaupasamtök, fólk sem heldur hópinn og ræðir menningu, persónur og málefni líðandi stundar og enginn er skilinn eftir. Kom á daginn að það fór nærri sanni.
Magnús hitti mann með barnakerru og bað um að fá að kíkja upp í ungabarnið, menn verða að vera vakandi fyrir viðskiptatækifærum! Það truflaði hann ekki mikið og hljóp hann okkur hin uppi af alkunnri snilld þar sem við fetuðum Sólrúnarbrautina. En við fórum hægt. Mættum manni sem minnti á Sjúl, en við vorum ekki viss hvort það var hann. Á leiðinni náðu okkur Rúna, Ragnar og Kaupmaðurinn og voru bara spræk.
Í Nauthólsvík var skrifari kominn með verk í síðuna og dróst aðeins aftur úr, en þó þannig að Magnús hægði ferðina og fylgdumst við að það sem eftir lifði hlaups. Okkur varð hugsað til þeirra glöðu tíma þegar menn skelltu sér í ölduna í Nauthólsvík, en það er víst búið mál. Nú gerist endrum og eins að menn skoli af sér á Nesi.
Við áfram út að Kringlumýrarbraut og svo upp brekkuna. Brekkan leynir á sér og það er mikilvægt að halda áfram og fara ekki að ganga, við héldum áfram alla leið upp að Perlu, þar gengum við stuttan spöl og sáum þá enn til þeirra hinna. En eftir það voru þau horfin sjónum okkar og munu líklegast hafa snúið upp í 101 í Þingholtunum að skoða hús eitt. En við Maggi héldum áfram hjá Gvuðsmönnum og lögðum svo í Hringbrautina.
Á leiðinni varð okkur hugsað til hans Gústa okkar. Hvort karlgreyið saknaði nú ekki sinna gömlu hlaupafélaga mikið og yrði kátur að hitta okkur. Magnús sagði að það væri nú gustuk að heilsa upp á karlinn. Þá sagði skrifari: "Ja, þó hann megi ekki stíga í fótinn, þá getur hann kannski fengið sér í tána." Upp úr því fæddist sú hugmynd að halda Fyrsta í Lækjarhjalla, en eins og menn gera sér vonandi grein fyrir brestur Fyrsti á á föstudag. Hér leið skrifara eins og sönnum mannvini og hugsaði sem svo: "Mikið held ég að prófessorinn verði glaður að hitta okkur."
Með þessar góðu hugsanir liðum við í Hlað á Laug og vorum glíkastir grískum goðverum. Þrátt fyrir allt höfðum við átt ágætt 10 km hlaup og vorum engir aumingjar, hvað þá aðrir sem höfðu lýst yfir aumingjaskap. Þannig gera hlaupin fólki gott: því líður vel á eftir. Nú gafst stuttur tími til bollalegginga, skrifari hafði heimilisskyldum að gegna og varð að hraða sér, tími í Potti varð því enginn. Hann mætti öðrum hlaupurum við brottför. Eftir stendur spurningin: Fyrsti?
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.