24.6.2012 | 16:51
Paradísarheimt
Nú er búið að opna Laug á ný eftir endurbætur og auk þess farið að opna kl. 9 um helgar, lífið færist í samt lag á ný og félagslíf í Vesturbænum verður með eðlilegum hætti. Til áréttingar þessu hittust þrír hlauparar í Laug í dag til hlaupa: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur og skrifari. Eðlilega urðu fagnaðarfundir þar sem Formaður til Lífstíðar hefur ekki sézt á svæðinu um nokkurra vikna skeið. Það var tekið til við að fylla í göt þekkingarinnar sem eðlilega höfðu myndast þegar helsti persónufræðingur og sagnauppspretta Vesturbæjarins er fjarri.
Hluti af umræðunni var tileinkaður V. Bjarnasyni álitsgjafa eins og fara gerir og þeim símtölum sem farið hafa milli hans og Formanns upp á síðkastið. Þá var sagt frá ferð Formanns til Washington og New York, þar sem hann lenti í ýmsum ævintýrum og hitti þeldökka iðnaðarmenn að störfum sem báðu að heilsa VB. Enn var rætt um Holtavörðuheiðarhlaup og þær áskoranir sem því fylgja. Ljóst er að hlaupið verður erfitt og mikilvægt að menn byggi sig vel upp fyrir það. Að hlaupi loknu verður farið í sund á Hvammstanga, og grillað að Melum um kvöldið.
Afar heitt á Ægisíðu og svitinn lak af hlaupurum. Þetta skánaði er komið var á Veðurstofuhæð, þá blés svalandi vindur á norðan og kældi okkur eilítið. Hlupum sem leið lá um Hlíðar, Klambra, Hlemm og niður á Sæbraut. Hér skal viðurkennt að við gengum líklega oftar en alla jafna og í stað þess að fara hjá Hörpu beindi Formaður okkur inn á þá leið sem farin hefur verið samkvæmt hefð, hjá Sjávarútvegshúsi og þaðan í gegnum miðbæinn. Loks upp Túngötu og þá leið tilbaka til Laugar.
Í Potti var rætt um mannaráðningar í forsætisráðuneyti og forsetakosningar. Mætt: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, dr. Mímir, frú Helga, auk hlaupara.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.