30.4.2012 | 20:20
30. apríl 2012: dagurinn þegar Hlaupasamtökin voru lögð niður
Skrifara skildist að Hlaupasamtökin hefðu verið lögð niður í dag. Forvitnin rak hann þó til að mæta til Laugar 17:15 til að sjá hvort þessir þvergirðingar hefðu tekið mark á tilmælunum. Nei, það er sem ég hef alltaf sagt: Íslendingar eiga einhverja samleið með sauðkindinni í andlegu atgervi sínu, sauðþráir og þverari en andskotinn! Haldiði ekki að það hafi mætt hátt í tuttugu manns sem ákváðu að hunsa fyrirmæli um að leggja niður starfsemina, en halda henni áfram og margefla í staðinn. Þarna voru Ólafur Gunnarsson og bróðir hans, Flosi, Jörundur, Þorvaldur, Helmut, Pétur, Bjössi, Benzinn, skrifari, dr. Jóhanna, Ósk, Hjálmar, Magnús tannlæknir og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að segja má að sama daginn hafi Samtökin verið lögð niður og vakin til lífs á ný - og það án hjálpar auðmagnsins!
Eðlilega urðu fróðlegar samræður í Brottfararsal, en frá þeim verður ekki greint hér af tillitssemi við viðkvæma. Dr. Jóhanna tók þegar að sér liðsstjórn af miklum myndugleik og lýsti hlaupi dagsins: út á Suðurgötu, út að Skítastöð, snúa þaðan í vestur og taka 1 km spretti, fjóra talsins, með mínútu hvíld á milli. Ha ha hæ, sagði skrifari og klappaði á kvið sér. Þetta er nú aðeins of mikið fyrir mig. Þá horfðu viðstaddir á bumbuna á skrifara og sögðu að þetta væri NÁKVÆMLEGA það sem skrifari hefði gott af. Hann fyrtist við.
Athygli vakti að blómasali var ekki mættur, maður sem er á leið í Kaupmannahafnar-maraþon. Út var steðjað og stefnan sett á Víðirmel og þaðan í austur á Suðurgötu. Það var þetta venjulega, maður var skilinn eftir og lenti með svona mönnum eins og Jörundi og Magga. Jæja, það var svo sem allt í lagi. Kjellinn eitthvað þungur á sér og þreyttur, enda er það ekkert sældarbrauð að vera ríkisstarfsmaður. Það rigndi svo ekki sá út úr (gler)augum og erfitt að fóta sig af þeirri ástæðu. En þetta gekk sæmilega. Helmut og Bjarni komu inn í hópinn við Hótel Sögu, voru seinir fyrir.
Það var barist út að Skítastöð og þar setti liðið sig í stellingar, en við snörum við og héldum í vestur átt. Fljótlega komu hraðfarar fram úr okkur og létu dólgslega. Við héldum stillingu okkar og vonuðumst til þess að sjá vini okkar af Nesi, en þau voru greinilega ekki á hlaupabuxunum í dag, svo af vinafagnaði varð ekki.
Skrifari lét nægja að hlaupa að Hofsvallagötu, en aðrir héldu áfram, sumir alla leið að Eiðistorgi og þaðan tilbaka um Lýsi og Víðirmel til Laugar. Pottur þéttur og langur. Rætt um fjallgöngur sumars og skemmtanir framundan, en Kári og Anna Birna hafa boðið til Fyrsta Föstudags 4. maí nk. með BYOB formerkjum.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.