Sótt hart að Formanni

Sjö voru mættir í hefðbundið sunnudagshlaup Hlaupasamtakanna á fögrum vordegi, sólskin, hægur vindur og 6 stiga hiti. Þetta voru Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur, Magnús tannlæknir, Jörundur prentari, Flosi barnakennari, Þorvaldur hvalafræðingur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Varla var Jörundur fyrr stiginn út úr bíl sínum en hann heimtaði skýr svör frá Formanni: Er Víkingur með hlaupahóp? Já. Er þjálfari á launum við hópinn? Já. Hver greiðir honum launin? Nú, Víkingur. Hvaðan fær Víkingur peninga til að greiða launin? Hér komu vöflur á Formann og hann fór að japla og jamma. Spurt var: er það rétt að ÍSÍ hafi yfir sjóðum að ráða sem aðildarfélög geta sótt í til þess að efla almenningsíþróttir hjá sér, t.d. hlaupaklúbba? Aftur fór Formaður í vörn og neitaði að gefa skýr svör. En Jörundur gaf ekkert eftir, neitaði að gefast upp og hélt áfram að pressa Formann um svör allt hlaupið. Það sjá allir sem vilja úr hvaða átt Jörundur var að koma: það eru starfræktir tveir öflugir hlaupahópar sitthvoru megin við KR-heimilið og hafa verið í 27 ár: hvað gengur fólki til að vera að stofna nýjan hóp í stað þess að efla þá sem fyrir eru? Péningar!

Vel á minnst: hlaup. Það var hlaupið. Einar að koma af Nesi hafandi farið eina 9 km og hélt svo áfram með okkur. Eitthvað voru plönin öðruvísi hjá þeim Flosa, Þorvaldi og Einari því að þeir skildu okkur hina bara eftir, meðan við dóluðum þetta eftir Ægisíðunni. Þeir ku hafa hlaupið alla leið, aldrei gengið, og jafnvel farið á tempói nálægt 4:30. Næg voru umræðuefnin hjá okkur hinum. Ísland í dag: forsætisráðherra er kona, verðandi forseti er kona, byzkup Íslands kona. Þetta er búið hjá okkur strákunum og ekkert eftir annað en krókurinn. Þannig gekk dælan í dag.

Veðurblíða mikil og menn jafnvel of vel klæddir á köflum, sem kom ekki að sök því að það blés á móti er komið var yfir Veðurstofuhálendið. Jörundur sór þess dýran eið að hlaupa aldrei framar í hlaupum sem skipulögð eru af íþróttafélögum. Jörundur er svo mikill andkapítalisti. Fyrstu lúpínurnar að skjóta upp brúskinum og Jörundur réðst á þær af heift og sleit upp. Í Kirkjugarði fór hann með vísu um Brynleif og Skjaldborgina.

Maggi fór í Krónuna um daginn og ætlaði að kaupa sér lambalæri. Við kassann hvíslaði kona að honum: "Ekki kaupa lambalærið hér. Ég eldaði læri úr Krónunni um daginn og það rýrnaði um 30% í ofninum." "Ertu að segja satt?" sagði Magnús. "Sérðu þessa lopapeysu, ég þvoði hana um daginn og þegar ég tók hana úr vélinni hafði hún skroppið saman um 30% - þetta hlýtur að vera af sömu rollunni."

Okkur tókst að draga Ó. Þorsteinsson með okkur hjá Hörpu, sem hefur aldrei áður gerst. Hann hefur alltaf farið yfir Sæbraut hjá Sjávarútvegshúsi og verið óhagganlegur í þeirri hefð. "Það þarf að vera agi og system í galskabet" sagði Formaður. Jæja, á þessu varð breyting í dag. Það auðveldaði umskiptin að hann var sjálfur í miðri sögu er kom að þessum kafla og átti ekki gott með að stoppa.

Þetta var nú rólegt hjá okkur, meira eða minna gengið, svo að maður var orðinn hálfstirður af hreyfingarleysi. Komið til Laugar og teygt á Plani. Í Potti voru lögð drög að Holtavörðuheiðarhlaupi sem áætlað er að fari fram í lok júlímánaðar. Hlaupið verður frá Fornahvammi yfir að Melum í Hrútafirði, 25 km leið. Þaðan verður haldið í laugina á Hvammstanga þar sem menn skola af sér. Svo verður ekið tilbaka sem leið liggur að Melum, grillað kjöt og skemmt sér. Nánar um hlaupadag og tilhögun síðar. Ennfremur var spurst fyrir um Jónsmessugöngu, en hugmyndir eru uppi um að ganga á Skarðsheiðina þá.

Framundan er bara gleði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband