Afbrigði þegar Fyrsti er haldinn með undanþágu

Enn voru umræður um nýstofnaðan hlaupahóp í Vesturbænum, KR-sporthlaup ehf., sem ku vera knúinn áfram af hugsjónum Mammons og ekki heilbrigðum lífsgildum eins og þau eru ræktuð með félögum Hlaupasamtaka Lýðveldisins og hafa verið um 27 ára skeið. Hvað rekur fólk til þess að efna til samkeppni um þessar fáu sálir í Vesturbænum sem nenna að leggja braut undir sóla og stunda hlaup? Follow the money, segir Jörundur. Það er péninga að hafa ef menn geta pakkað ásetningnum inn í réttar umbúðir. Hvað veit skrifari, hann er bara einföld sál.

Jæja, það var föstudagur og ekki margir mættir. Þó hafði skrifari gefið út instrúx um úttekt á ónotuðum Fyrsta. Vitað var að Denni myndi mæta, enda er hann félagslyndur og menningarsinnaður. Aðrir mættir: Þorvaldur, Flosi, Benzinn, Bjössi, Einar blómasali og skrifari. Jörundur hljóp líka en ekki með okkur. Jæja, það varð að láta þennan félagsskap duga.

Bjössi, Flosi og Benzinn biðu ekki eftir öðrum hlaupurum og héldu af stað. En við vinir blómasalans biðum eftir honum, enda var hann seinn að vanda. Við dóluðum okkur af stað, ég, Denni, Þorvaldur og blómasalinn. Það var ætlunin að halda hópinn og fara nógu rólega til þess að Denni næði að hanga í okkur. Hann virtist vera þeirrar skoðunar að það væri fyrirfram glatað plan. Við hinir vorum bjartsýnni. Það var ekki raunsætt. Denni gafst nánast upp áður en hlaup hófst, veit ekki hvort hann náði Skerjafirði áður en hann bað okkur hina að halda áfram, hann myndi ná okkur á Klömbrum.

Jæja, Einar les slúðurblöðin og upplýsti okkur um nýfætt barn lögmanns sem hann átti með stúlku sem er einu ári yngri en dóttir hans af fyrra hjónabandi. Hér fór móralistinn skrifari á flug og útmálaði svona fólk sem óverjandi og óferjandi. Nema hvað Þorvaldur hleypur við hlið okkur og þá hvarflaði að skrifara að hann hefði betur haft aðgát í nærveru sálar. En stundum hleypur manni svo kapp í kinn af hugsjónaástæðum að maður sést lítt fyrir. Þorvaldur brást snilldarlega við fram komnum sjónarmiðum með því að snúa þeim upp í umræðu um hvalavísindi, sléttbak, sem er með hreðjar upp á mörg tonn og mikla sæðisframleiðslu, svo mikla að af verður "sperm competition" meðal kvendýra. Mátti af þessari útleggingu skilja að það væri nánast náttúrulögmál óviðráðanlegt að þegar konan fer í eggjaframleiðslu verði ekki við neitt ráðið og hún skipi sér undir fyrrgreinda samkeppni um heppilegasta sæði, og má þá einu skipta hver fyrir valinu verður. Ekki verri kenning en hver önnur!

Hefðbundið á föstudegi þýðir Hi-Lux-brekka. Sá grunur læddist að skrifara að hún yrði erfið, en þegar til kom var ekkert mál að sigrast á henni og við fórum hana allir með glans. Staldrað við er upp var komið og gengið um stund. Í Hi-Lux berst hugsun manna alltaf að Ágústi okkar stórhlaupara. Hann var svo hugfanginn af Hi-Luxinum og því sem fram fór þar. En nú er hann bara meiddur hlaupari og allir sakna hans, einkum potthlaupanna frægu og skemmtilegu sem iðkuð voru í Kópavogi og nágrannasveitarfélögum. En það er víst svolítið langt í að haldin verði potthlaup.

Svo var hlaup tekið upp af nýju og farið um Veðurstofu, saung- og skák og Klambra. Ekkert bólaði á Denna og því var haldið áfram, Þorvaldur ákvað að fara Laugaveginn, en við Einar steðjuðum niður á Sæbraut. Skrifara lék nefnilega forvitni á að vita hvort Orkuveitan hefði skrúfað frá vatnsleka af fonti á Sæbraut, svo sem lofað var og upplýst var í fjölpósti á félaga Hlaupasamtakanna. Stóð eins og stafur á bók! Bunan há og myndarleg á Sæbraut og svalaði þorsta skrifara.

Við áfram alla leið að Hörpu, gengum þar, en hlupum áfram um Hafnarsvæði og hjá nýju hóteli sem starfrækt er við gamla Slippinn. Merkileg aðstaða hótels! Upp Ægisgötu, en það gleymdist að signa sig við Kristskirkju, við vorum svo djúpt sokknir í samræður. Eftir þetta var bara dól niður að Laug. Teygt á Plani eins og hefðin býður og hlakka menn til þess er vorið kemur og Jóginn fer að taka okkur í jógatíma.

Jæja, það var Pottur og góð mæting þar. Jörundur mættur og hafði þungar áhyggjur af afskiptum auðvaldsins af íþróttum í Vesturbænum. Mun áhugi hans trúlega beinast frá lúpínunni að kapítalískri misnotkun á íþrótt sem menn hafa stundað af hugsjón svo áratugum skiptir í Vesturbænum.

Góð mæting einnig á Ljónið að hlaupi loknu og menn þyrstir. Öl kneyfað af áfergju, sumir fengu sér Benna. Þarna voru skrifari og dóttir hans, Benzinn, Jörundur, Biggi, Denni, og svo dúkkaði Kaupmaðurinn upp og sagði okkur skemmtisögur úr Lundúnahlaupi. Skemmtileg kvöldstund. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband